Um að fara undir viðtekið yfirborð og reyna að finna hvað leynist þar undir.
Ingunn Ásdísardóttir þjóðfræðingur fjallar um jötna og aðrar vættir.
Goðakvæði eddukvæða eru vissulega mörkuð hinu ríkjandi sjónarhorni „við og hinir“, „vinir og fjendur“, „góðir og vondir“, „æsir og jötnar“.
Hluta af þessu viðhorfi má að öllum líkindum kenna Snorra Sturlusyni og endursögnum hans á þessum kvæðum í ritum sínum, en þó er líklegt að ýmsar samfélagsbreytingar á norrænum svæðum hafi átt sinn hlut að máli; strax um mitt fyrsta árþúsundið er kristnin farin að berast til Norðurlanda og henni fylgdu viðhorfsbreytingar af margvíslegu tagi sem væntanlega hafa sett mark sitt á sagnaefni ekki síður en átrúnað.
Fornnorrænt sagnaefni sem varðveist hefur í kvæðum virðist þó þegar grannt er skoðað hafa að geyma alls kyns leifar um enn eldri hugmyndir, þar með talið um jötna hins norræna goðheims, og benda þær til að þeir hafi ekki verið eins afgerandi óvinir ása og manna og lengst af hefur verið talið.
Með því að reyna að kafa undir yfirborð kvæðanna og tína upp allt það sem viðkemur jötnum og jötunkonum og skoða út frá eins hlutlausu sjónarhorni og framast er unnt virðist glitta í enn eldri átrúnað en hina svokölluðu ásatrú þar sem jötnar gegna mikilvægu og flóknu hlutverki sem er einhvers konar „fúndament“ forsögulegs átrúnaðar.
Fyrirlesturinn er í tengslum við handritasýninguna Heimur í orðum.