Alþjóðleg ráðstefna:
Heimur í brotum: GKS 1812 4to og alfræði miðalda
Viðey
20.–21. október 2016
Ráðstefnan er haldin í tilefni af því að öld er liðin frá því að íslenskir alfræðitextar frá miðöldum voru gefnir út undir heitinu Alfræði íslenzk I–III. Bindin þrjú komu út á árunum 1908–1918 á vegum Samfund til udgivelse for gammel nordisk litteratur.
Það var danski fræðimaðurinn Kristian Kålund sem bar hitann og þungann af útgáfunni en við útgáfu annars bindis (1914–16) — þar sem einkum eru prentuð rímtöl — naut hann fulltingis Svíans Natanaëls Beckman. Eitt mikilvægasta handritið sem þeir Kålund og Beckman notuðu við útgáfuna er GKS 1812 4to og á ráðstefnunni verður sjónum beint sérstaklega að því. Handritið var um langt skeið varðveitt í Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn en var afhent Íslendingum árið 1984 í samræmi við samkomulag sem gert var um lausn handritamálsins.
GKS 1812 4to er eitt af merkari alfræðihandritum íslenskum sem varðveist hafa frá miðöldum. Færð hafa verið rök fyrir því að það hafi einhvern tímann verið í Viðeyjarklaustri. Handritið er samtals 36 blöð og eru þau leifar af a.m.k. þremur skinnbókum. Elsti hluti handritsins er frá því um 1190–1200. Í þessum hluta er m.a. að finna íslenskt-latneskt orðasafn, ritgerðir um tímatalsfræði, kafla úr Íslendingabók, og latnesk-íslenskar glósur. Næst elsti hlutinn eru fjögur blöð úr handriti frá öðrum fjórðungi 13. aldar. Þessi hluti hefur m.a. að geyma landakort, teikningar heimsfræðilegs efnis, calendarium og aðra tímatalsfræði. Yngstu hlutarnir eru leifar af handriti frá 14. öld. Þessir hlutar innihalda einkum stjörnufræði og tímatalsfræði, m.a. teikningar af níu merkjum dýrahringsins og skiptingu heimspekinnar.
Ráðstefnan er haldin í Viðey dagana 20.–21. október 2016. Til hennar er boðið 13 fyrirlesurum af ólíkum sviðum miðaldafræða — handritafræði, listfræði, latínu, heimspeki, stærðfræði, stjörnufræði og landafræði — til þess að fjalla um handritið og efni þess frá ólíkum sjónarhornum.
Þátttaka er gjaldfrjáls, þar með taldar ferðir til og frá eynni, en þeim sem vilja snæða ráðstefnukvöldverð í Viðeyjarstofu er bent á að þar greiðir hver fyrir sig 4000 ISK. Ráðstefnunni lýkur á hádegi föstudaginn 21. október.