Skip to main content

Viðburðir

Háttatal Snorra Sturlusonar – textagildi ungra handrita

10. maí
2019
kl. 15–16

Odda
Oddagötu
Reykjavík
Ísland

Föstudaginn 10. maí nk. kl. 15 í stofu 105 í Odda flytur Haukur Þorgeirsson, rannsóknardósent við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, erindi sem hann nefnir og lýsir svo:

 

Háttatal Snorra Sturlusonar – textagildi ungra handrita

Háttatal Snorra Sturlusonar er varðveitt í fjórum handritum sem rituð eru fyrir 1600: Konungsbók, Trektarbók, Wormsbók og Uppsalabók. Til undirbúnings að nýrri útgáfu Snorra-Eddu vildi ég einnig kanna yngri handrit og hvort einhver þeirra hefðu mögulega textagildi. Niðurstöður eru í þrennu lagi. a) Talið hefur verið að pappírsblöðin sem Sveinn Jónsson bætti við Wormsbók á 17. öld séu rituð eftir Trektarbók en ég tel að þau séu runnin aðra leið frá forriti Trektarbókar. Þarna eru varðveitt ókennd heiti og nafnaþulur ásamt upphafi Háttatals. b) Þrjú handrit sem varðveitt eru á Landsbókasafni (Lbs 2945 4to, Lbs 767 8vo og JS 377 8vo) innihalda skýringartexta Háttatals fram yfir vísu 17. Ekki verður séð að þessi texti sé runninn frá neinu varðveittu handriti. c) Handritið AM 750 4to inniheldur upphaf vísu 94. Vísan er annars aðeins varðveitt í Konungsbók og er þar sködduð. Sitthvað bendir til að textinn í 750 sé kominn af öðru handriti en Konungsbók.

 

Allir velkomnir. Fyrirlesturinn er hluti af vorfyrirlestraröð Máls og sögu, félags um söguleg málvísindi og textafræði.

2019-05-10T15:00:00 - 2019-05-10T16:00:00