Skip to main content

Viðburðir

Hátíð í Hörpu

21. apríl
2021
kl. 10–12

Árið 1971 voru fyrstu íslensku handritin flutt aftur heim frá Danmörku með varðskipinu Vædderen. Miðvikudaginn 21. apríl er því liðin hálf öld frá heimkomu þessara merku rita. Af því tilefni verður hátíðardagskrá í Hörpu streymt til allra grunnskóla á landinu.

Á hátíðinni munu ýmsir listamenn og skemmtikraftar taka höndum saman um að kynna fyrir grunnskólanemum helsta dýrgripinn, Konungsbók eddukvæða. Fram koma Gugusar, Begga og Mikki, miðaldafréttamennirnir Snorri og Jakob, Donna Cruz og Blær Jóhannesdóttir. Steiney Skúladóttir skemmtikraftur heldur utan um dagskrána. 

Þennan dag kemur einnig í ljós hvaða handrit dómnefnd mat sem framúrskarandi ungmennahandrit í handritasamkeppni Árnastofnunar. Niðurstöðuna má svo sjá á hirslan.arnastofnun.is þar sem birtar verða myndir af handritunum og nöfn þeirra sem settu þau saman.

Leikstjóri hátíðarinnar í Hörpu er Ólafur Egill Egilsson.

Streymið verður á dagskrá RÚV 21. apríl. Sjá nánar á ruv.is.

Upplýsingar um niðurstöðu handritasamkeppni grunnskólanema má finna á hirslan.arnastofnun.is eftir þáttinn.

 

2021-04-21T10:00:00 - 2021-04-21T12:00:00