Birna Lárusdóttir, fornleifafræðingur og sérfræðingur í rannsóknarstöðu Sigurðar Nordals á Árnastofnun, flytur erindi sem hún nefnir:
„Land, land! Nýtt land undir fótum!“ — Örnefna- og ferðasaga úr Surtsey
Í fyrirlestrinum verður sagt frá för fornleifafræðings með árlegum leiðangri líffræðinga til Surtseyjar sumarið 2019. Surtsey, sem er stundum kölluð yngsta land í heimi, er á heimsminjaskrá UNESCO vegna einstakra skilyrða til að skoða framgang lífs og landmótunar án áhrifa mannsins og helsti tilgangur ferða út í Surtsey er að fylgjast með þróun jarðmyndana, gróðurfars og dýralífs. Að þessu sinni var einnig reynt að varpa ljósi á menningarsögu staðarins og þátt mannsins í landnámi og mótun hins nýja eylands, fyrst og fremst með því að skoða örnefni, en fágætt er að hægt sé að rannsaka nafngiftir í nýju landi allt frá upphafi. Sagt verður frá nöfnum og ýmsu sem hefur áhrif á þau, hvernig þau hafa orðið til, skotið rótum eða ekki og endurspegla með ýmsum hætti hvers konar staður Surtsey er.
Viðburðurinn er öllum opinn og aðgangur ókeypis.