Vegorðasafnið er áhugavert og vandað orðasafn sem nú er komið inn í Íðorðabankann. Þeir sem vilja vita meira um orð á borð við biksmitun, fælnihvörf, græntíma og vegriðsbeinir geta einfaldlega flett þeim upp í Vegorðasafninu í Íðorðabankanum [hlekkur: https://idord.arnastofnun.is/leit//ordabok/VEGORD] og fundið skilgreiningar á þeim, ásamt enskum og norskum hugtökum sömu merkingar. Vegorðasafnið er einnig birt á vefslóðinni https://vegordasafn.vegagerdin.is.
Markmiðið með Vegorðasafninu er að ná yfir öll helstu hugtök sem notuð eru við vega- og hafnargerð. Í safninu má finna hugtök í eftirfarandi flokkum: eftirlit, grjótnám og jarðgöng, jarðfræði og jarðtækni, sjóleiðir, steypu-, stál- og trévirki, stjórnsýsla, tæki og áhöld, umferð og umferðaröryggi, umhverfi, vega- og hafnahönnun, vegbúnaður og vegnánd.
Vegorðanefnd, eins og orðanefnd Vegagerðarinnar kallast, hefur tekið saman orðasafnið. Vinna vegorðanefndar hófst árið 2011 með því að skrá í gagnagrunn og yfirfara hugtök sem orðanefnd byggingarverkfræðinga hafði áður skilgreint, aðallega á níunda áratug síðustu aldar. Vegorðanefnd hefur síðan unnið ötullega að skilgreiningu og skýringu hugtaka sem varða vegagerð og hefur hugtökum í safninu fjölgað mikið á þessum árum. Verkefnið er viðvarandi enda bætast sífellt við ný orð og hugtök um vegagerð og rekstur vega. Meðlimir vegorðanefndar eru Gunnar Bjarnason, Kristján Kristjánsson, Eymundur Runólfsson, Ásbjörn Jóhannesson, Sigurður Björn Reynisson og Páll Valdimar Kolka Jónsson.