Hér má heyra Bryndísi Brynjúlfsdóttir lesa söguna.
SAGAN AF MJAÐVEIGU MÁNADÓTTUR
Svo er sagt, að í fornöld hafi ráðið fyrir ríkjum kóngur sá, er Máni hét, og hafi átt við drottningu sinni dóttur, er hét Mjaðveig; var hún snemma prýdd kvenlegum listum. Kóngur lætur reisa henni skrautlega skemmu og lét hana hafa fjölda af þjónustumeyjum.
En sá hryggilegi atburður kom fyrir, að drottningin, móðir Mjaðveigar, tók sótt, er leiddi hana til bana. Eftir andlát hennar hryggist kóngur svo mjög, að hann leggst nálega í rekkju, og var hann með öllu afskiptalaus.
En með því ráðgjöfum hans þótti til óefnis horfa, réðu þeir honum að leita sér sæmilegs kvonfangs, svo kóngur ræður það af, að hann sendir tvo æðstu ráðgjafa sína með fríðu föruneyti í bónorðsför, og sigla þeir frá landi. En þeir komust í hafvillu og vissu ekki, hvar þeir fóru eða hvað halda skyldi.
Um síðir sáu þeir land og héldu skipum sínum þangað. Þeir þekktu það ekki, en stigu þó á land; varð þá fyrir þeim eyðimörk; þeir gengu eftir henni, því þeir voru að leita að mannabyggðum, en fundu ekki. Loksins heyra þeir hörpuslátt svo fagran, að þeir þóttust ekki fyrr jafnfagran heyrt hafa, og ganga þeir á hljóðið, þar til þeir sjá lítið tjald silkiofið; þangað hraða þeir ferð sinni.
Sjá þeir þá, að í tjaldinu sat kona ein á stóli; hún stillti hinn fagra hörpusöng, sem hafði vísað þeim þangað, og var stúlkubarn hjá henni. Þegar hún sér mannaflokkinn, verður henni svo bilt við, að hún missir hörpuna og fellur því nær í ómegin. En þegar hún kom til sjálfrar sín, spyr hún þá, á hvaða ferð þeir séu eða hvers vegna þeir séu þar komnir. Þeir kváðust hafa ratað í hafvillur, en hafa verið sendimenn Mána kóngs, því drottning hans sé önduð, en hann beri sig illa af missinum.
Þess vegna óska ráðgjafarnir að hún vildi segja þeim, hvernig á högum hennar stæði, því þeir kváðust hafa fengið góðan þokka á henni. Konan gerði sem þeir báðu og kvaðst hafa verið drottning göfugs konungs þar í landinu og hefði óflýjandi her eytt landið, en drepið kónginn, og hefði það verið tilgangur foringjans að leggja undir sig ríkið og eiga sig; en það kvaðst hún ekki hafa viljað og þess vegna hafa flúið með dóttur sína þangað í eyðimörkina og ætla að láta þar fyrirberast.
Ráðgjöfunum þótti vel standa á öllu þessu, því þeim þótti Máni kóngur vel sæmdur af slíkum kosti, og biðja þeir nú konunnar Mána til handa. Hún tekur því seinlega og kvaðst ekki hafa verið að hugsa um giftingar, en lætur þó til leiðast fyrir orð þeirra. Stíga þeir nú á skip og hún með þeim, og höfðu þeir besta byr heim í ríki Mána kóngs. En þegar sést til skipanna, lætur kóngur aka sér í vagni ofan til strandar, og þegar hann sér festarkonu sína, hverfur honum öll sorg; heldur hann síðan heim til borgar og lætur efna til mikillar brúðkaupsveislu, og stóð hún í hálfan mánuð. Að henni endaðri fer kóngur í leiðangur að taka skatt af löndum sínum.
En nú víkur sögunni til Mjaðveigar kóngsdóttur, þar sem hún sat í skemmu sinni. Stjúpa hennar kemur að máli við hana og segir, að sér leiðist heima í fámenni þessu, og kvaðst því vilja ganga út úr borginni að skemmta sér og biður Mjaðveigu að fara með sér, gerði hún það. Drottning lætur stúlku þá, er hún nefndi dóttur sína, fara með sér.
Ganga þær nú þrjár saman, og er drottning mjög vingjarnleg við stjúpdóttur sína. En þegar þær eru komnar langt frá borginni, biður drottning Mjaðveigu að lofa dóttur sinni að hafa stakkaskipti við hana, svo Mjaðveig lofar stúlkunni að fara í kyrtil sinn, en fer sjálf í búning hennar.
Þá segir drottning: "Nú mæli ég um, og legg ég á, að dóttir mín fái allan svip og yfirlit Mjaðveigar, svo hana þekki enginn fyrir aðra."
En þær mæðgur binda höndur og fætur Mjaðveigar og skilja hana svo þar eftir, en fara sjálfar heim til borgar, og setur drottning dóttur sína í kastala Mjaðveigar, og héldu allir, að hún væri það sjálf, en skemmumeyjum þótti hún heldur hafa skipt geðslagi við skemmtigönguna með drottningunni; en þær grunaði ekkert, og ekkert vissu þær um hina útlendu stúlku, sem kom þangað með drottningu, og gerðu sér heldur ekkert far um það.
En frá Mjaðveigu kóngsdóttur er það að segja, að hún liggur nú eins útleikin eins og fyrr var sagt og sofnaði af hryggð og örvæntingu. Þá dreymir hana, að móðir hennar sáluga kæmi til hennar, talaði til hennar aumkunarorðum, leysti af henni fjötrana og fengi henni dúk, sem henni sýndist matur vera á, en sagði, að hún skyldi aldrei úr honum ljúka og varast að láta nokkurn sjá hann, en gæta að sér fyrir stjúpu sinni og dóttur hennar. Þá vaknar Mjaðveig, og var allt eins og hana dreymdi.
En frá drottningu er það að segja, að hana grunar, að Mjaðveig muni enn vera á lífi. Þess vegna sendir hún dóttur sína leynilega að gæta að högum hennar. Hún fann Mjaðveigu og sá, að nokkur umskipti eru orðin á högum hennar. Hún beitir þá flærðarbrögðum til að vita, hvernig á þeirri umbreytingu standi, og segir við Mjaðveigu, að illa hafi móðir sín gert, er hún hafi þannig svikið hana, og segist nú vilja vera með Mjaðveigu í útlegðinni og kvað þær mundu geta rétt hluta sinn, þegar kóngur kæmi heim aftur, og að nú skyldi hið sama yfir þær báðar drífa.
En Mjaðveigu líkar illa þessi ræða stúlkunnar, en verður þó að láta það svo vera. Eftir nokkurn tíma leggur stúlkan sig niður og þykist fara að sofa. En þegar Mjaðveig heldur, að hún sé sofnuð, snýr hún lítið afleiðis, tekur dúkinn og fer að borða; en nú hafði dóttir drottningar náð áformi sínu; hún sprettur upp, rífur dúkinn af Mjaðveigu og snýr heim á leið; sagði hún, að aldrei skyldi þessi matur Mjaðveigu að gagni koma.
Nú var Mjaðveig lítið betur komin en fyrr og ráfar hér og hvar, þangað til hún sofnar af þreytu og leiðindum. Þá dreymir hana, að móðir hennar kæmi til sín sem fyrr og segði, að óvarlega hafi hún farið; en fyrst nú sé svo komið, skuli hún ganga beina leið til sjávar; þá muni hún sjá tanga út í sjóinn og einstíg út í hann og finna þar hús eitt lítið, sem sé læst, en lykillinn standi í hurðinni. Þá skuli hún ganga þrisvar réttsælis og þrisvar rangsælis kringum húsið og taka i hvert sinn í lykilinn. Þá muni húsið opnast; þar skuli hún fyrst um sinn vera, og muni henni þar ekki leiðast, og enn sagði hún henni:
"Þar gala gaukar,
þar spretta laukar,
og þar fara hrútar úr reyfi sínu."
Nú vaknar Mjaðveig og gengur þá leið, sem henni var vísað á í drauminum; allt fór eins og henni hafði verið fyrir sagt, og þótti henni þar hver dagurinn öðrum skemmtilegri. En svo bar við einu sinni, þegar hún gekk upp á land að skemmta sér, að hún sá skipaflota sigla þar nálægt landi, og stefndu skipin til hafna. Við þessa sjón verður hún hrædd mjög og hleypur sem ákafast í skála sinn, en þá losnaði á henni annar skórinn, og týndi hún honum á hlaupunum; skór þessi var úr gulli. Fyrir skipaflotanum réð kóngsson nokkur, sem sigldi þar að landi þess erindis að biðja Mjaðveigar Mánadóttur. En þegar hann gengur frá skipum sínum til borgar, finnur hann kvenskó úr gulli svo liðlegan, að hann hét því að eiga þá stúlku, er þessi skór væri af.
Hann heldur nú til borgar og biður Mjaðveigar kóngsdóttur sér til handa, en segist þó hafa heitið því að eiga enga nema þá, er ætti skó þann, sem hann hefði fundið, þá er hann hefði gengið til borgarinnar. Drottning biður hann um að lofa sér að sjá skóinn; kóngsson fær henni hann. Hún kvaðst gjörla þekkja hann og sagði, að Mjaðveig dóttir sín hafi týnt honum einu sinni, þegar hún hefði verið á skemmtigöngu, og fari svo löngum fyrir unglingum.
Síðan gengur hún til dóttur sinnar og segir henni, hvernig komið sé, og fer með hana í afhús eitt til að láta á hana gullskóinn; en hann komst ekki upp á hálfan fótinn á henni. Þá nemur drottning af bæði tærnar og hælinn og setur svo upp skóinn. Stúlkunni þykir móðir sín heldur harðleikin; en drottning sagði, að til mikils væri að vinna að eiga kóngssoninn. Býr hún hana síðan í besta skart og leiðir inn í höll og sýnir kóngssyni, að skórinn er mátulegur, og sýnist honum þá svo vera.
Hefur þá kóngsson bónorð sitt að nýju til Mjaðveigar Mánadóttur, og er því máli vel tekið. Kóngsson kvaðst vilja sigla með hana heim í ríki sitt og koma svo seinna og bjóða til veislu sinnar, og fer nú svo. En þegar hann siglir þar nálægt, sem hús Mjaðveigar kóngsdóttur er, heyrir hann fuglakvak svo mikið, að hann fer að veita því eftirtekt, því hann skildi fuglamál, og heyrist honum þeir segja:
"Í stafni situr Höggvinhæla,
fullur skór með blóð;
hér á landi er Mjaðveig
Mánadóttir,
miklu betra
brúðarefni.
Snúðu aftur, kóngsson."
Í fyrstu ætlaði hann ekki að trúa þessu fuglafleipri. Þó fer hann að gæta að því og sér, að allt er eins og þeir sögðu, hvað stúlkunni viðvék. Þá tekur hann mælispjald og leggur á herðar henni, og varð hún þá að stórvaxinni og ljótri tröllkonu, og varð hún þá að segja allt um sig og drottninguna móður sína. Að því búnu drepur hann hana og saltar hana niður, en ketið af henni fyllti tólf tunnur, og lætur kóngsson það allt á skip eitt, sem ekkert var á nema töluvert af púðri. Síðan skýtur hann báti, rær til lands og finnur húsið. Eftir tilsögn fuglanna getur hann opnað það; þar sér hann stúlku forkunnarfagra og spyr hana að nafni. Hún kvaðst heita Mjaðveig og vera dóttir Mána kóngs, og sagðist hún vera þar í leyni sökum vonsku stjúpmóður sinnar.
Kóngsson segir henni, hvernig komið sé, sýnir henni gullskóinn og setti hann sjálfur upp á hana og sér, að hún hefur annan á móti honum. Nú þykir kóngssyni þessi stúlka vera sér föstnuð, þó hann hafi verið leyndur sannleikanum, og eftir vilja hennar tekur hann hana og flytur á skip með sér og fer nú af kænsku með skipin í leynivog einn og dvelur þar um stund.
Síðan siglir hann öllum flotanum á höfn borgarinnar, fer heim til hallar kóngs og býður honum ásamt drottningu til brúðkaupsveislu sinnar, og er kóngur fús til þess, en drottning ekki; kvaðst hún ekki vön siglingum og vilja heldur vera heima en fara slíka langferð. Kóngsson sagði, að dóttir hennar mundi kunna betur við, að hún neitaði ekki boði þessu, og taldi um fyrir drottningu, þangað til hún lét til leiðast. Var þeim svo öllum ekið í vagni ofan til strandar.
Síðan stíga þau á skip og láta í haf. En á leiðinni verður drottning svo hugsjúk, að hún sinnir engum manni; en kóngsson bað hana einslega að segja sér hryggðarefnið, og var hún mjög treg að gera það, en leiðist þó til um síðir, og segir hún, að svo sé heilsu sinni varið á þessari ferð, að hún hafi ekki lyst á að borða, þegar aðrir geri það, og sé það helst af sjósótt. Hún biður kóngsson að ráða bót á því; en hann kvaðst ekki geta það og sagðist ekkert hafa svo lagað, er hún gæti haft not af.
Hann sagði, að á einu skipi væri nokkuð af saltketi, en það væri hrátt, og hefði hún af því engin not. Hún kvaðst sjálf geta soðið það handa sér og varð nú glöð i bragði, en bað kóngsson að þegja yfir þessum smámunum.
Sagt er, að drottning hafi étið eina tunnu á degi hverjum og hafi jafnan verið hin ljótasta tröllkona, á meðan hún neytti matarins, en tekið hamaskipti á eftir; gekk þetta í ellefu daga, en á hinum tólfta degi, þegar hún er að éta tólftu tunnuna, sýnir kóngsson Mána kóngi aðgang hennar og segir honum, hversu oft hún hafi verið þannig á þeirri ferð. En kóngur verður hissa, þegar hann sér, að hann er hylltur af slíkum óvættum.
Hleypa þeir nú eldi í púðrið á kjötskipinu, sem áður er um getið, og flaug það í loft upp, og fékk drottning eða tröllkona þessi þar bráðan bana. Loksins biður Máni kóngur kóngsson að segja sér, hvernig á ósköpum þessum standi. Hann gerir svo og leiðir hann síðan til Mjaðveigar, og segir hún honum ljóslega frá öllu athæfi og svikum þeirra mæðgna; en kóngur undrast það mjög.
Nú var siglt heim í ríki kóngssonar, og var þar drukkin bæði fagnaðar- og brúðkaupsveisla, og stóð hún yfir í heilan mánuð. Að henni endaðri er Máni kóngur út leiddur með góðum gjöfum. Síðan sigldi hann í ríki sitt og ríkti þar til ellidaga, og er hann svo úr sögunni.
En af kóngssyni er það að segja, að hann tekur konungdóm eftir föður sinn, og líður þannig eitt ár, að ekkert ber til sögunnar, nema Mjaðveig drottning elur fagurt sveinbarn. Eftir þann tíma gekk hún til lauga með einni af þjónustumeyjum sínum. En þegar hún er komin þangað, vantar hana sápu, svo hún sendir þernu sína að sækja hana, en bíður ein við laugar.
Þá kemur til hennar kona og heilsar henni virðulega. Drottning tekur kveðju hennar. Konan biður drottningu að hafa við sig stakkaskipti, og gerir Mjaðveig það. Þá mælir konan um og leggur á, að hún fái allan svip drottningar, en Mjaðveig fari til bróður síns, og hvarf hún á þeirri sömu stundu.
Enginn vissi um drottningaskiptin, en eftir þetta fellur öllum illa við drottningu, sem von var. Svo er sagt, að þegar kóngur tók Mjaðveigu úr skálanum, hafi honum þótt húsið svo yndislegt, að hann hafi með kunnáttu sinni numið það á burt, hafi það síðan verið hjá sal drottningar og hafi hin sama náttúra fylgt því, meðan allt fór vel fram:
Þar spruttu laukar,
þar göluðu gaukar,
og þar fór hrútur úr reyfi sínu.
En nú skipti svo um:að ekki gala gaukar,
ekki spretta laukar,
og ekki fer hrútur úr reyfi sínu,
og aldrei þegir sá ungi sveinn,
sem í vöggu liggur,
og allt sýndist nú fara aflaga í ríkinu.
En svo bar við einhvern dag, að fjárhirðir kóngs gengur nálægt sjó. Sér hann þá, hvar undan hömrum nokkrum kemur upp glersalur og í honum einn kvenmaður svo líkur Mjaðveigu drottningu, að hann hugðist ekki mundi þekkja þær að; en um salinn var festi ein úr járni, og í hana hélt ljótur þussi, og kippti hann salnum niður aftur.
Maðurinn varð hissa við sjón þessa og nemur staðar hjá læk einum. En þegar hann stendur þar hugsandi, sér hann barn taka vatn úr læknum. Hann gefur barninu fingurgull, og verður það glatt við gjöfina; síðan hverfur það inn í stein, er þar var skammt frá.
Að vörmu spori kemur út dvergur og heilsar manninum og þakkar honum fyrir barn sitt og spyr hann, hvað hann vilji þiggja af sér í staðinn. En maðurinn biður hann að segja sér, hvernig á því standi, er hann hafi séð koma undan sjávarhömrunum. Dvergurinn sagði, að það væri Mjaðveig drottning, sem sé í glersalnum, og sé hún hyllt af óvættum, en í hennar stað sé komin tröllskessa og sé hún systir risa þess, er hann hafi séð halda í festina. Enn fremur segir dvergurinn honum, að þussinn hafi látið það að orðum Mjaðveigar að lofa henni að koma fjórum sinnum á land með þeim hætti, sem hann hefði séð, og skyldi það vera henni til frelsis, ef nokkur væri svo heppinn að geta á þessum tíma leyst hana úr klóm hans; en nú væri hún búin að koma þrisvar á land og væri það í síðasta sinni, sem hún kæmi upp daginn eftir.
Maðurinn biður nú dverginn að leggja sér góð ráð til að ná drottningu úr ánauðinni. Dvergurinn fær honum öxi eina og sagði honum, að hann skyldi höggva á festina, þegar salurinn kæmi upp daginn eftir. Maðurinn bíður í steininum um nóttina.
Daginn eftir fer hann þangað, sem salurinn var vanur að koma upp. Eftir lítinn tíma kemur salurinn upp á hamrana; maðurinn er nú ekki seinn á sér og heggur á festina, og gekk honum það vel. En nú kemur risinn upp og vill drepa þann, sem hefur höggvið á festina; en dvergurinn kemur með lítinn poka og sáir úr honum yfir risann. Verður hann þá blindur, svo hann hrapar niður fyrir klettana og lætur þegar líf sitt. En þeir fara með Mjaðveigu í steininn til dvergsins, og bíður hún þar.
Nú fara þeir heim til borgar og leggja mælispjald á drottninguna, sem menn ætluðu, að væri; en hún varð að ljótri tröllkonu, og neyddu þeir hana til að segja ævisögu sína. Segir hún þá, hvernig hún hafi farið með Mjaðveigu og hvar bróðir sinn hafi bústað; einnig segir hún, að síðari drottning Mána kóngs hafi verið systir þeirra. Þess vegna segist hún hafa gert þetta í hefndarskyni við Mjaðveigu drottningu. En kóngur verður nú reiður mjög og lætur velja ófreskju þessari háðulegan dauða.
Nú spyr smalamaður kóng, með hverju hann mundi vilja launa, ef nokkur væri svo fær að leysa drottningu úr ánauðum þessum, en kóngur kvaðst mundi sæma hann stórum fégjöfum, jarlsnafni og landsforráðum. En smalamaðurinn var ekki lengi að sækja drottningu og færir hana kónginum; verður þar meiri fagnaðarfundur en frá megi segja. Þegar drottning komst aftur í næði,
þá gala gaukar,
þá spretta laukar,
þá fer hrútur úr reyfi sínu,
þá þegir ungur sveinn,
sem í vöggu liggur.
Upp frá þessum tíma lifði drottning í farsæld til ellidaga, og endar hér sagan af Mjaðveigu Mánadóttur.
Síðast breytt 24. október 2023