Mollý: Íslenskur hundur á 21. öld
Í janúar 2021 varð fjölskyldan mín fjölskylda með hund. Eftir að hafa hugsað lengi um málið gáfum við labradorhvolpinum okkar nafnið Mollý. Á dýralæknisvottorðinu heitir hún „Mollý Karlotta Svensen McVoff Sesarsdóttir“. Mollý varð fyrir valinu að hluta til vegna tengsla (amma mín og afi á Englandi áttu hund í æsku minni sem hét Polly) en einnig vegna þess að okkur fannst það vera vingjarnlegt nafn. Auk þess var hugsunin sú að það væri auðveldara að kalla nafnið Mollý úr fjarlægð en eitthvað eins og Kleópatra eða Aggripína (þó okkur fyndist það freistandi að halda við því þema að nota nöfn úr fornöld). Millinöfnunum Karlotta Svensen McVoff var bætt við til gamans.
Ákvörðun okkar að velja nafnið Mollý var – þó við værum ekki meðvituð um það á þeim tíma – reyndar gerð á grundvelli þriggja atriða eða hlutverka sem Bjarne Rogan greindi með tilliti til dýranafngifta og Katharina Leibring getur um (t.d. Leibring 2016a: 617). Atriðin þrjú eru: (i) auðkenningarhlutverk, þ.e.a.s. hin hagnýta þörf fyrir að auðkenna hundinn og eiga samskipti við hann; (ii) tjáningarhlutverk, það er meira huglægt og í okkar tilfelli vildum við að nafnið hljómaði vinalega; (iii) hlutverk tengt siðum eða hefð, t.d. þegar eldri nöfn eru endurnotuð, í okkar tilfelli aðlögunin úr Polly í Mollý. Þremur árum seinna erum við ánægð með nafnavalið okkar en af og til er nafnið smávegis ruglandi því að þegar ég ber það fram getur það hljómað eins og nafnið Moli. Við vissum heldur ekki að ‘Molly’ er slanguryrði fyrir fíkniefnið MDMA. En fyrir mér, eiginmanni mínum og börnum mun nafnið líklegast alltaf tengjast gæludýri sem okkur þykir vænt um og er hluti af fjölskyldunni okkar.
Sögulegar heimildir um íslensk hundanöfn
Elstu heimildir um íslensk hundanöfn eru frá miðöldum. Frægasti hundur í íslenskum bókmenntum hlýtur að vera Sámur sem Ólafur pái fékk meðan hann var á Írlandi og gaf Gunnari á Hlíðarenda. Gunnar kallaði hundinn ‘fóstra’ sinn og á Hlíðarenda var hefð fyrir því að benda á Sámsreit þar sem hundurinn var grafinn. Auk fornsagnanna er hundanöfn að finna í Snorra-Eddu, í þjóðsögum (sjá Guðrún Kvaran) og í þulum. Einnig innihalda spurningaskrár Þjóðháttadeildar Þjóðminjasafns Íslands upplýsingar um hundanöfn, ekki síst tvær kannanir sem sendar voru út árið 1987, annars vegar með heitinu ‚Hundurinn‘ (númer 66, 1987-1) og hins vegar ‚Auðkenni og nöfn húsdýra‘ (númer 68, 1987-3).
Íslensk hundanöfn á 20. öld
Svörin við spurningum í könnunum 1987 gefa til kynna að hundanöfn á 20. öld hafi verið valin með fáum undantekningum á grundvelli litar hunds, útlits feldar og eftir skapgerð eða lyndiseinkennum hans og einnig af þeirri ástæðu að þessi hefð var gömul. Margir sem sendu inn svörin voru fæddir í lok 19. aldar eða snemma á 20. öld. Nokkur dæmi um nöfn frá þessum tíma eru Sámur, Skuggi, Krummi, Kolur og Dimma fyrir svarta eða dökka hunda; Týri eða Týra fyrir hund með hvítum rófubroddi eða týru á rófunni (stundum kallað þjófaljós); Strútur, Hringur eða Kragi fyrir strútóttan hund með hvítan kraga um hálsinn; Depill og Flekkur fyrir hunda sem voru með depil einhvers staðar á sér, ljósan eða dökkan, í andstöðu við aðallitinn; Kópur, Kópi eða Selur fyrir stutthærðan hund, stundum gráan og ekki ólíkan sel á litinn; Stubbur var rófulaus stubbhundur; nöfnin Lubbi, Flóki og Brúsi lýstu hárafari hunds, hundar sem voru loðnir og lubbalegir; Spori dró nafn af sporunum á löppunum. Nöfn eins og Tryggur, Kátur og Vaskur voru dregin af hundstryggð, vegna þess að hvolpar voru leikfullir eða af vaskleik og dugnaði. Nöfn á borð við Hvatur voru dregin af snarleika hundanna; Sendill mun hafa verið dregið af því hversu fljótur hundurinn var að bregðast við er hann var sendur eftir fé sem erfitt var að ná.
Það virðist vera mjög óalgengt að nota mannanöfn á hunda. Þó eru nokkur dæmi, en þau nöfn vísa í sögupersónu eða leiðtoga: Napóleon, Neró, Sesar, Plató eru nefnd hér. Einnig Hitler, Göring, Stalín, Mússolini – sem virka á óþægilegan hátt í dag. Sum svör gefa til kynna neikvætt viðhorf til slíkra nafna. Einum þátttakendanna „finnst það vafasamur heiður fyrir hunda að heita þessum nöfnum“. Annar sem þekkti hund sem hét Hitler skrifaði „lagaði hann nafnið með sínum kostum og vitsmunum, svo það varð ekki alveg eins skelfilegt.“ Þessi hundur var uppi meðan seinni heimsstyrjöld stóð yfir og erlendir hermenn voru staddir víða á Íslandi og eftirfarandi frásögn fylgir: „svona til gamans: Þessi Hitler átti heima hér í nágrenni Sauðárkróks, en fjölmennt herlið var hér á stríðsárunum í bænum, hafði eigandi hundsins kallað á Hitler einhverju sinni er hann fór fram hjá bröggum þeirra og þustu þeir til móts við hann, varð þarna talsverð töf, því eigandi hundsins varð að sanna að hundurinn gegndi þessu nafni, en sjálfur var hann mállaus á enska tungu.“
Önnur erlend mannanöfn sem íslenskum hundum voru gefin eru m.a. Don og Jock (innblástur hér hefur e.t.v. verið dvöl hermanna frá Bandaríkjunum á stríðsárunum) og Spasskí (sem var hvolpur þegar skákeinvígi Fischers og Spasskís var háð í Reykjavík árið 1972). Afar fá dæmi eru til um að eigendur gefi hundum íslensk mannanöfn en ein tík fékk þó nafnið Hrefna: „Hrefna mín blessunin hlaut ekki nafn sitt fyrir svarta gljáandi litinn. Nei, það voru þessi fögru djúpu augu, sem alltaf minntu mig á fallega unga stúlku í næsta húsi við mig þegar ég var 6 ára á Vopnafirði. Alltaf er ég horf[ði] í augu Hrefnu minnar þá minnti hún mig á Hrefnu með fallegu augun á Vopnafirði.“ Í þessu samhengi má þó nefna að nafnið Sámur er bæði mannsnafn í fornritum (t.d. í Hrafnkels sögu) og hundsnafn (í Njáls sögu) en nafnið hverfur þó sem mannsafn og er enga karlmenn sem heita Sámur að finna í heimildum frá seinni tímum (t.d. manntölum).
Almennt er óhætt að segja að íslenskar nafngiftahefðir hvað hunda varðar á 20. öld endurspegli eldri hefðir; einnig eru þessar hefðir svipaðar öðrum hefðum frá Skandinavíu (Leibring 2016a: 623). Þar að auki, eins og er að finna t.d. í Svíþjóð, eru nokkur hundanöfn búin til sem eins konar grín. Ein „glettin“ kona er sögð hafa „skírt hund ‚Sama og þú‘, til að gamna sér við upplitið á fólki, þegar það færi að velta nafni fyrir sér.“ Óvíst er hvort hefðin fyrir því að nota sama nafn fyrir margar kynslóðir hunda sé að finna fyrir utan Ísland en nokkur dæmi eru um þetta í svörunum, t.d.: „Hrafn hétu hundar pabba. Þegar sá fyrsti gaf upp andann þá fékk pabbi sér annan svartan hund sem fékk nafnið Hrafn.“
Íslensk hundanöfn á 21. öld
Hvað nöfn á hundum í dag varðar þá er hægt að sjá skýra breytingu. Í tiltölulega nýrri spurningaskrá sem Þjóðminjasafnið sendi út árið 2016 („Gæludýr“, Spurningaskrá 2016-1) er spurt um gæludýr og viðhorf eigenda þeirra. Meðal annars er spurt um nöfn gæludýra og hvort eigendur skynji á nokkurn hátt breytingar eða nýjungar í nafnahefðum. Margir gefa þau svör að svo virðist vera sem hundanöfn séu miklu fjölbreyttari í dag miðað við fyrri tíma og að nú sé algengt að hundar á Íslandi beri mannanöfn, bæði íslensk og erlend. Tvísýnt, jákvætt og neikvætt viðhorf til þessara breytinga koma fram í svörunum og athugasemdum: „Ég held að dýranöfn séu fjölbreyttari núna og séu stundum af erlendum toga“; „dýranöfn hafa verið að verða fjölbreyttari og oft flottari“; „Mér finnst þetta skemmtileg þróun“; „Ég veit ekki með breytingar á gæludýranöfnum, fylgist svo sem ekki með, en held að það breytist eins og mannanöfn. Núna heyri ég aldrei um hundinn Snata, það er synd ... Það er slæmt ef gömul dýranöfn glatast en það er sjálfsagt þannig með þau eins og gömul og góð mannanöfn“; „Mér finnst eins og sumir gefa gæludýrum sínum mannanöfn. Það finnst mér svolítið skrítið“; „Það virðist vera meira um að gæludýr fái útlensk nöfn sem mér er ekki að skapi, þar sem ég vil halda í íslenskar hefðir.“
Sumir velta breytingunum fyrir sér og hugsa um skýringu á þróuninni. Einn einstaklingur skrifar „Ég held að gæludýranöfn hafi verið að persónugerast síðustu ár eða áratugi, mín tilfinning er að eftir því sem gæludýr hafa flutt sig úr sveitunum og farið úr því að vera hálfgerð vinnudýr og yfir í það að vera bara viðbót við fjölskyldur, snatar og lappar erum amk mun sjaldgæfari en þeir voru, en ég hef hitt hund sem hét [nafn] í höfuðið á afa sínum“. Með tilliti til fyrri hluta athugasemdarinnar þá er náttúrlega ekki langt síðan að hundar voru samþykktir sem gæludýr í Reykjavík, en þar voru hundar bannaðir frá 1924–1984 og það var ekki fyrr en árið 2006 að Reykjavíkurborg leyfði hundahald innan borgarinnar að fullu (sjá Martha Elena Laxdal 2014). Hægt er að sjá meira skapandi og hreyfanlegt viðhorf til hundanafna sem hluta af stærri þróun í samfélaginu, líkt og gildir um mannanöfn, og frelsi til að velja eða búa til ný nöfn. Frumvarp til breytinga á mannanafnalögum er í vinnslu um þessar mundir.
Nafnfræðingurinn Katharina Leibring hefur greint mynstur í Svíþjóð þar sem barnanöfn hafa orðið til fyrir áhrif vinsælla hundanafna, og hún segir að „two-way traffic, whereby names can wander from humans to animals and back again, has evolved in recent decades, possibly as a consequence of the widespread anthropomorphisation of companion animals“ (2016b: 117–118). Ef til vill er vísir að svipaðri tísku á Íslandi, þótt mannanafnalög og takmarkanir varðandi val barnanafna þýði að hundar og hundanöfn geti ekki verið tilraunarsvið fyrir ný barnanöfn eins einfaldlega og í Svíþjóð. Engu að síður skrifar einn þátttakandi í könnuninni 2016 að nöfn séu „að verða líkari mannanöfnum, því fleira fólk er að skíra börnin sín gæludýranöfnum.“ Meðan ég vinn við skrif þessa pistils bíð ég eftir að fá aðgang að gögnum úr gagnagrunni Dýraauðkennis og ef mér skyldi vera veitt það leyfi munu þau gögn vera frábær undirstaða frekari rannsóknar á efninu.
Ljóst er, alveg eins og á við um mannanöfn, að spurningar um sjálfsmynd manns og hugmyndafræði spila stóran þátt í hundanafnahefð á Íslandi – stundum á skýran hátt og stundum óskýran – og á því er engin breyting.
Síðast breytt 2. maí 2024