Skip to main content

Pistlar

„Hjörtu og brjóst áttræðra kerlinga“

Á miðöldum voru Íslendingar býsna duglegir að semja og skrá bókmenntir og í gömlum skinnhandritum má finna margar tegundir sagna og fræða auk kvæða af ýmsu tagi – dróttkvæði, eddukvæði, rímur, ýmiss konar kristileg kvæði og jafnvel nokkur gamankvæði. Hér verður hins vegar sjónum beint að bókmenntagrein í bundnu máli sem ekki var skráð á blað á miðöldum þótt hún hafi þá án efa notið mikilla alþýðlegra vinsælda. Á 17. öld kom hins vegar að því að kvæðum þessum var safnað úr munnlegri geymd og voru þau þá kölluð fornkvæði. Í seinni tíð er talað um sagnadansa eða ballöður en fornkvæðasöfnin innihalda þó einnig kvæði sem ekki er hægt að fella undir þau hugtök – ekki síst þjóðsagnakvæði í stíl eddukvæða eins og Kötludraum og Snjáskvæði.

Fyrsti Íslendingurinn sem vitað er til að hafi safnað fornkvæðum var Gissur Sveinsson (1604–1683) en hann var prestur í Arnarfirði við Ísafjarðardjúp. Árið 1665 ritaði Gissur fornkvæðabók sína, AM 147 8vo, með 71 kvæði. Yfirskrift bókarinnar er „nokkur fornkvæði til gamans og skemmtunar að lesa“. Allt bendir til að Gissur hafi skrifað kvæðin upp eftir fólki sem kunni þau utan að og með bókinni hafa varðveist tvö krassblöð sem gefa svolitla innsýn í aðferðir hans við söfnunina. Eins og orðið „fornkvæði“ bendir til hefur Gissur talið kvæðin gömul og er það með réttu. Vert er að nefna að bróðir Gissurar, Brynjólfur biskup Sveinsson, fékkst einnig við að safna gömlum íslenskum bókmenntum en þeir bræður höfðu hvor sína aðferðina. Brynjólfur sóttist eftir fornum handritum en Gissur fékk sína texta af vörum fólksins.

Það er einkennandi við íslensku fornkvæðahefðina að þegar getið er um heimildarmenn kvæðanna eru það iðulega gamlar konur. Fyrstu fornkvæðasafnararnir geta að vísu ekki um heimildir sínar en Árni Magnússon var hirðusamari um slíkt og í safni hans má finna nokkur fornkvæði þar sem heimildar er getið

Árið 1703 fékk Árni Kvæði um sankti Hallvarð og var heimildin „kona um áttræðsaldur“. Eyvindar ríma í safni Árna var einnig „uppskrifuð eftir gamalli konu“ og Snjáskvæði var „skrifað eftir fyrirsögn óskýrrar kerlingar er það hafði numið af móður sinni“. Vambarljóð voru skráð fyrir Árna eftir því „sem afgömul kelling, móðir Guðmundar Bergþórssonar, kunni“. Þótt getið sé um þessar kerlingar eru þær ekki nafngreindar enda hafa þær sjálfsagt ekki verið úr efstu lögum samfélagsins. Eftir öðrum heimildum vitum við þó að móðir Guðmundar Bergþórssonar hét Þorbjörg Guðmundsdóttir (f. 1636, enn á lífi 1703). Guðrún Hákonardóttir (1659–1745) var kona sem átti meira undir sér og frá henni fékk Árni Bryngerðarljóð og fleiri kvæði skráð úr munnlegri hefð.

Í bréfi til Árna Magnússonar 1708 getur Snæbjörn Pálsson (1677–1767) um fornkvæði og segir þetta:

Fornkvæðabókin þykir mér ekki svo rík af fornkvæðum sem hjörtu og brjóst áttræðra kerlinga hef ég vitað nær ég var barn.             

Önnur heimild sem tengir fornkvæði við konur eru Landbúaljóð eftir Eirík Hallsson (1614–1698) en í þeim getur hann um „falleg Norvegs / fornkvæði gömul, / sem kerlingar / klifuðu í húmi.“
Oft gefur efni fornkvæðanna í skyn að þau hafi verið í meðförum kvenna og stundum hafa skáldin vafalaust verið kvenkyns. Líklegt má telja að svo sé farið um Vambarljóð en þar eru aðalpersónurnar konungsdóttirin Signý og vonda stjúpan Yrsa. Signý verður fyrir álögum og breytist í nautsvömb. Til að leysast úr þeim neyðir Signý konungsson til að giftast sér en sem vonlegt er líst honum illa á að ganga að eiga slíka ófreskju. Hún notar þá tækifærið til að hæðast að honum með dálítilli þjóðfélagsrýni.

Margar hef eg vitað
meyjarnar daprar
þegar fljóðin voru
föstnuð manni,
hitt vissa eg aldrei
á ævi minni
að brúðguminn
byggist við gráta.

Sagnakvæði eins og Vambarljóð eru séríslensk en hin fornkvæðin, sagnadansarnir, eru meiður af fjölþjóðlegri hefð. Margir sagnadansar eiga sér hliðstæður á öðrum Norðurlöndum og ekki síst í Færeyjum. Þegar bornir eru saman íslenskir og færeyskir dansar sést samt að Færeyingar hafa meira lagt sig eftir kappakvæðum en á Íslandi eru lýrískir dansar um ástir og örlög það sem mest rækt hefur verið lögð við. Vinsælasti íslenski sagnadansinn er Ólafur liljurós en færeyska hliðstæðan er Ólavur riddararós. Ég man að þegar ég var barn fékk ég eitt sinn í hendur báðar þessar útgáfur kvæðisins hlið við hlið. Með bókmenntasmekk átta ára drengs þótti mér færeyski titillinn betri og sá íslenski grunsamlega væminn. En athyglisvert er einnig að bera saman viðlög þessara gerða. Það íslenska er ljóðrænt og endar á náttúrumynd, „blíðan lagði byrinn undan björgunum fram“. Það  færeyska endar hins vegar svona: „Ungir kallar, kátir kallar gangið uppá gólv, dansið lystilig.“

Í Færeyjum voru sagnadansar hafðir í hávegum í samfélaginu og þegar þeir voru skráðir upp úr munnlegri geymd voru heimildarmennirnir gjarnan vel stæðir karlmenn sem jafnframt voru forsöngvarar þegar kvæðin voru dönsuð. Á Íslandi voru hins vegar aðrar bókmenntagreinar sem þóttu virðulegri og sem menntamenn lögðu stund á. Sagnadansarnir voru eftirlátnir alþýðunni og kerlingunum. Þannig fór það svo að sömu kvæðin gátu í einu landinu gefið tilefni til að kátir karlar gengju upp á gólf og í hinu landinu til þess að kerlingar klifuðu í húmi.

Birt þann 8. mars 2024
Síðast breytt 8. mars 2024
Heimildir

Pistillinn er að mestu tekinn saman úr eftirfarandi grein:

Haukur Þorgeirsson. 2003. „An Eddic Fairy-tale of a Cursed Princess: An Edition of Vambarljóð.“ Leeds Medieval Studies 3: 77–135.

Um þjóðfélagsstöðu færeyskra kvæðamanna sjá hins vegar:

Conroy, Patricia. 1987. „»Sandoyarbók«: A Faroese Ballad Collection, Its Collector and the Community“.  Fróðskaparrit 34–35: 23–41.