Skip to main content
Málverk Hauks Snorrasonar af Snorra Sturlusyni
Snorri Sturluson
Málverk eftir Hauk Stefánsson frá 1930

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum annast styrki Snorra Sturlusonar. Styrkirnir eru veittir erlendum rithöfundum, þýðendum og fræðimönnum (ekki háskólastúdentum) á sviði hugvísinda til að dveljast á Íslandi í þrjá mánuði hið minnsta í því skyni að kynnast sem best íslenskri tungu, menningu og mannlífi.

Styrkirnir miðast að öllu jöfnu við greiðslu á ferðakostnaði styrkþega til og frá Íslandi og dvalarkostnaði innanlands. Af tveimur jafnhæfum umsækjendum skal að jafnaði sá hljóta styrk sem er frá Austur- og Suður-Evrópu, Asíu, Afríku, Rómönsku Ameríku eða Eyjaálfu.

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum greiðir götu styrkþega meðan á Íslandsdvöl þeirra stendur og í lok hennar skulu styrkþegar skila stofnuninni greinargerð um hvernig styrknum var varið.

Styrkirnir eru veittir árlega. Þriggja manna nefnd, sem skipuð er fulltrúum frá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands og Rithöfundafélagi Íslands, úthlutar styrkjunum.

Í umsókn sinni skulu umsækjendur gera stutta en rækilega grein fyrir tilgangi með dvöl á Íslandi, dvalartíma, svo og menntun og störfum.

Umsóknareyðublað ásamt fylgiskjölum skal senda inn fyrir 1. desember ár hvert.

Eftirtaldir hafa hlotið styrki Snorra Sturlusonar:

2024

 • Dr. Jenna Sciuto sem er enskukennari við Massachusetts College of Liberal Arts. Hún mun vinna að rannsóknum á verkum Svövu Jakobsdóttur rithöfundar í ljósi sögulegra atburða og tenginga yfir Atlantshafið. Verkefnið miðar að því að rannsaka víðtækar heimildir og áhrif Svövu allt frá samskiptum kynjanna og hersetu Bandaríkjahers til miðaldatexta, svo sem Hávamál í Konungsbók eddukvæða og Snorra-Eddu.
 • Dr. Mariano González Campo sem mun hefjast handa við rannsókn, útgáfu og fyrstu þýðingu á spænsku á Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar sem stendur til að gefa út hjá Háskólaútgáfu Santiago de Compostela.

2023

 • Dr. Caitlin Ellis er O’Donovan-styrkþegi hjá deild keltneskra fræða við Dublin Institute of Advanced Studies. Hún mun vinna að þróun verkefnis um bernsku og unglingsár, annars vegar í íslenskum miðaldabókmenntum og hins vegar í sögu víkingaaldar.
 • Dr. Marina Voinova er þátttakandi í námsbraut í norrænum og forníslenskum fræðum við Gautaborgarháskóla. Verkefni hennar nú er að rannsaka Snorra-Eddu og þýða hana á úkraínsku.
 • Dr. Lukas Rösli frá Humboldt-háskóla í Berlín ætlar að rannsaka atriði eða „texta“ sem eru til hliðar eða utan við aðaltexta („paratextuality“) í íslenskum miðaldaprósahandritum.

2022

 • Andreas Schmidt er með doktorsgráðu í fornnorrænum bókmenntum frá Ludwig-Maximilians-háskóla í München og hyggst rannsaka tvíræðni í frásagnarlegu tilliti í Íslendingasögum. Hann hlaut þriggja mánaða styrk.
 • Jan A. Kozák  er með doktorsgráðu í trúarbragðafræði frá Karls-háskóla í Prag og starfar sem aðjunkt við sama háskóla. Hann ætlar að þýða Hrólfs sögu kraka á tékknesku. Auk þess hyggst hann rannsaka ummyndun villidýra í fornaldarsögum og goðafræði eddukvæða frá sjónarhóli hugrænna fræða og táknfræða og skrifa fræðilega grein um það efni. Hann hlaut þriggja mánaða styrk.
 • Stefan Andreas Drechsler starfar sem nýdoktor við Háskólann í Björgvin. Stefan ráðgerir meðal annars að útbúa skrá yfir allt myndefni sem finnst í íslenskum lagahandritum frá um 1250–1600. Auk þess ætlar hann að rannsaka tengsl á milli texta og mynda og samhengi þeirra í þessum handritum. Hann hlaut þriggja mánaða styrk.

2021

 • Benjamin Raffield er með doktorsgráðu í fornleifafræði frá Háskólanum í Aberdeen og starfar við rannsóknir við Háskólann í Uppsölum. Hann stefnir á að rannsaka merkingu þrælahalds í íslenskum miðaldaritum. Hann hlaut þriggja mánaða styrk.
 • Gareth Lloyd Evans er með doktorsgráðu frá Oxfordháskóla og er aðjúnkt í enskum miðaldabókmenntum við sama háskóla. Hann vinnur að sinni bók The Poetics of Emotion in Saga Narrative og skrifar um túlkun tilfinninga í Íslendingasögum. Hann hlaut fjögurra mánaða styrk.
 • Rebecca Merkelbach er með doktorsgráðu frá Cambridgeháskóla og er nýdoktor við háskólann í Tübingen. Markmið hennar er að vinna við þýðingu á Bárðarsögu á þýsku. Hún hlaut þriggja mánaða styrk.

2020

 • Dr. François-Xavier Dillmann hefur þýðingu á þriðja bindi Heimskringlu á frönsku og undirbýr greinasafn um Ólafs sögu Haraldssonar ins helga.
 • Dr. Inés García López vinnur við þýðingu á Kormákssögu á katalónsku en þýðingin verður sú fyrsta sinnar tegundar.
 • Nelly Shulman rithöfundur vinnur að sinni sjöttu bók og mun stunda rannsóknir á sögu Íslands á 11. öld og tengingar Íslendinga við Kænugarðsríki.

2019

 • Dr. Sarah Baccianti, Queen’s University Belfast, til að rannsaka fræði í miðaldahandritum;
 • Dr. Lena Norrman, University of Minnesota, til að rannsaka munnlega geymd kvenna, einkum í sambandi við fornaldarsögur og Sturlungu;
 • Dr. Margaret Willson, University of Washington, til að fást við sögu Þuríðar Einarsdóttur formanns.

2018

 • Dr. Blake Smith, Max Weber nýdoktor við European University Institute í Flórens á Ítalíu, til að fást við rannsóknir á Reisubók Jóns Ólafssonar Indíafara í sögu og samtíð.
 • Dr. Kate Heslop, lektor í norrænum miðaldafræðum við Kaliforníuháskóla í Berkeley, til að fást við rannsóknir á dróttkvæðum og minni.

2017

 • Dr. Tamas Beregi, rithöfundur í Búdapest í Ungverjalandi til að skrifa bók um efni sem tengist sögu Íslands á 18. og 19. öld.
 • Dr. Lorenzo Lozzi Gallo, dósent í norrænum fræðum við háskólann í Messínu á Ítalíu, til að vinna að þýðingum á Íslendingabók og Landnámu á ítölsku og skýringum.
 • Dr. Sian Elizabeth Grønlie, dósent í miðaldafræðum við Oxfordháskóla, til að rannsaka þýðingar helgisagna á íslensku og áhrif þeirra á íslenska sagnaritun á miðöldum.

2016

 • Dr. Kathleen Forni, prófessor í enskum miðaldabókmenntum við Loyolaháskólann í Maryland, Bandaríkjunum, til að vinna að bók um Bjólfskviðu.
 • ​Dr. Lezek Gardela, lektor í fornleifa- og safnafræði við Rzeszówháskólann í Póllandi, til að stunda rannsóknir á kvenhetjum í íslenskum fornbókmenntum.
 • Dr. Lena Rohrbach, prófessor í norrænum fræðum við Humboldtháskóla í Berlín, til að fást við rannsóknir á Jónsbókarhandritum.

2015

 • Rasa Baranauskienė, lektor í sænsku og íslensku við Vilníusháskóla, til að þýða Njáls sögu á litáísku.
 • Alison Finlay, prófessor í enskum og íslenskum miðaldabókmenntum við Lundúnaháskóla, til að vinna að þýðingu á Sturlunga sögu á ensku.
 • ​​Oleksandr Mykhed, dósent í ritlist við Taras Shevchenco þjóðarháskólann í Kænugarði, til að skrifa bók um samtímamenningu hér á landi.

2014

 • Rüstem Ertug Altinay, rithöfundur, þýðandi og bókmenntaritstjóri í Istanbúl í Tyrklandi, til að þýða þrjú leikrit eftir Jóhann Sigurjónsson til útgáfu og sviðsetningar í Tyrklandi.
 • Dr. Przemyslaw Czarnecki, lektor við Skandínavísku deildina við Adam Mickiewicz háskólann í Poznan í Póllandi, til að skrifa kennslubók í forníslensku fyrir háskólaforlagið í Poznan.
 • Tapio Koivukari, rithöfundur í Rauma í Finnlandi, til að kynna sér staðhætti og skjöl um galdramál á Vestfjörðum á 17. öld og skrifa sögulega skáldsögu um galdrabrennur í Trékyllisvík á Ströndum.

2013

 • Dr. Chistopher Patrick Callow, lektor í miðaldasögu, Birminghamháskóla á Englandi, til að skrifa bók um víkingaferðir, landnám og þjóðfélög norrænna manna á miðöldum.
 • Dr. Nicole Dehé, prófessor við háskólann í Konstanz í Þýskalandi, til að vinna að rannsóknum á hljóðfalli og áherslum í íslensku máli.
 • Mátyás Dunajcsik, rithöfundur, þýðandi og bókmenntaritstjóri í Búdapest í Ungverjalandi, til að kynna sér íslenska bókaútgáfu, miðla íslenskum samtímabókmenntum til Ungverja og skrifa.

2012

 • Nataliya L. Ogurechnikova, prófessor við Kennaraháskólann í Moskvu, til að rannsaka lýsingarorð í íslenskum miðaldabókmenntum, eddukvæðum sérstaklega.
 • Oleksandr Goluzubov, prófessor við Tækniháskólann í Kharkiv í Úkraínu, til að rannsaka háð og kímni í miðaldabókmenntum.
 • Michalis Gennaris, rithöfundi í Aþenu, til að vinna að skáldsögu sem mun byggjast á Vatnsdæla sögu.

2011

 • Daisy Neijmann, kennari við University College London, til að rannsaka íslenskar bókmenntir sem fást við seinni heimsstyrjöldina og hernámið hér á landi.
 • Seiichi Suzuki, prófessor við Kansai Gaidai háskóla í Japan, til að fást við rannsóknir á fornnorrænum bragarháttum.
 • Giorgio Vasta, rithöfundur í Torino á Ítalíu, til að vinna að skáldsögu sem að hluta mun gerast hér á landi.

2010

 • Claudia Di Sciacca, dósent í þýskri textafræði við háskólann í Udine á Ítalíu, til að vinna að rannsóknum á íslensku þýðingunni á Elucidarius eftir Honarius Augustodunensis.
 • Imreh András, rithöfundur og þýðandi í Búdapest, til að kynna sér íslenska ljóðlist og þýða á ungversku.
 • Marcel Otten, þýðandi, Mountcharles Co. Donegal á Írlandi, til að þýða Gerplu á hollensku.

2009

 • Dr. Emily Lethbridge, fræðimaður í Cambridge á Bretlandi, til að fást við varðveislu fjögurra fornsagna sem handritið AM 556a 4to, svokölluð Eggertsbók, hefur að geyma.
 • Dr. Leszek Pawel Slupecki, prófessor, Rzeszowháskóla, Póllandi, til að þýða Snorra-Eddu á pólsku, skrifa inngang að þýðingunni og skýringar við hana.

2008

 • Dr. Christopher Abram, lektor við University College London, Bretlandi, til að vinna að bók um norræna goðafræði og viðtökur á Eddunum á síðari öldum.
 • Dr. Jakub Morawiec, fræðimaður við Silesíuháskóla í Katowice í Póllandi, til að vinna að þýðingu á Hallfreðar sögu vandræðaskálds á pólsku, skrifa fræðilegan inngang að þýðingunni og taka saman skýringar við söguna.
 • Dr. Hélène Tétrel, lektor við Bretaníuháskólann í Brest, Frakklandi, til að vinna að þýðingu á Breta sögum á frönsku og rannsókn á viðtökum Historia Regum Britanniae í Norðvestur Evrópu.

2007

 • François-Xavier Dillmann, prófessor við École pratique des Hautes Études (Sorbonne) í París, til að vinna að þýðingu á Ólafs sögu ins helga á frönsku.
 • Dr. Patricia Pires Boulhosa, fræðimaður í Cambridge á Englandi, til að þýða Völuspá á portúgölsku og vinna að undirbúningi kynningar á íslenskum fornbókmenntum í Brasilíu.

2006

 • Dr. Ilya V. Sverdlov, fræðimaður í Moskvu, til að vinna að rannsóknum á kenningum í dróttkvæðum og gera gagnagrunn um þær.

2005

 • Akihisa Arakawa, fræðimaður og þýðandi í Tokyo, til að þýða bókina Snorri Sturluson eftir Sigurð Nordal á japönsku. Áður hefur hann þýtt nokkur verk um norræn miðaldafræði til að kynna þau í Japan.
 • Casper Sare, þýðandi í Lundúnum, til að þýða Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness á serbnesku. Nýlega kom skáldsagan Englar alheimsins eftir Einar Má Guðmundsson út í Serbíu í þýðingu hans.

2004

 • Dr. Philip Roughton, fræðimaður og þýðandi í Irvine í Kaliforníu, til að vinna að þýðingu á Vefaranum mikla frá Kasmír eftir Halldór Laxness og kynningu á rithöfundarferli Laxness í enskumælandi löndum. Í október sl. kom út ensk þýðing Roughtons á Íslandsklukkunni hjá hinu virta forlagi Random House/Vintage Press í Bandaríkjunum.

2003

 • Dr. Galina Glazyrina, fræðimaður í Moskvu, til að fást við rannsóknir á fornaldarsögum.
 • Silvia Cosimini, þýðandi í Mantova á Ítalíu, til að vinna að þýðingum á verkum Halldórs Laxness.

2002

 • Dr. Leonie Viljoen, dósent við Háskólann í Suður Afríku, Pretoriu.
 • Dr. Fjodor Uspenskij, fræðimaður við Vísindaakademíuna í Moskvu.

2001

 • Dr. Anthony Faulkes, háskólakennari í Birmingham, til að vinna að forníslenskri lestrarbók handa enskum stúdentum.
 • Dr. Margaret Cormack, háskólakennari í Charleston, Suður-Karólínu í Bandaríkjunum til að vinna að rannsókn á kaþólskum dýrlingum hér á landi og kirkjum helguðum þeim.

2000

 • Mr. Lin Hua, þýðandi í Beijing, China.
 • Mr. Christos Chrissopoulos, rithöfundur í Aþenu á Grikklandi.
 • Dr. Catalin Avramescu, fræðimaður í Búkarest í Rúmeníu.

1999

 • Dr. Inna G. Matyushina, háskólakennari og fræðimaður við Moskvuháskóla, til að vinna að rannsóknum á bragfræði rímna.

1998

 • Dr. Edmund Gussmann, prófessor við kaþólska háskólann í Lublin í Póllandi, til að vinna að handbók um hljóðfræði, m.a. hljóðfræði íslensku, sem Cambridge University Press mun gefa út.
 • Dr. Andrey V. Pilgun, fræðimaður og bókaútgefandi í Moskvu, til að fást við lýsingar í miðaldahandritum og yfirfærslu handrita í tölvutækt form.

1997

 • Dr. Helena Kadecková, háskólakennari í Prag í Tékklandi, til að semja bók um miðaldasögu og menningu Íslendinga fyrir tékkneskt bókaforlag.
 • Dr. Russell Poole, háskólakennari við Masset háskóla í Palmerston á Nýja Sjálandi, til að fást við rannsóknir á dróttkvæðum hætti og fornu skáldskaparmáli.
 • Dr. Vera Gancheva, bókmenntarýnir og þýðandi, í Sofíu í Búlgaríu, til að fást við íslenskar bókmenntir og m.a. safna efni í bók um Snorra Sturluson.

1996

 • Tatiana Shenyyavskaya M.A., stundakennari við Moskvuháskóla, til að semja æfingabók í íslensku fyrir rússneska stúdenta.

1995

 • Dr. Rory McTurk, dósent í íslenskum fræðum við háskólann í Leeds á Bretlandi, til að skrifa bók um íslenska málsögu á ensku.
 • Svetlana Makarovic, rithöfundur frá Slóveníu til að vinna að þýðingum íslenskra ljóða á Slóvensku.

1994

 • Dr. Marianne E. Kalinke, prófessor við Illinoisháskóla í Urbana í Bandaríkjunum, til að ljúka rannsóknum á helgisögum í svonefndri Reykjahólabók.
 • Dr. Hubert Seelow, þýðandi og prófessor við Erlangenháskóla í Þýskalandi, til að vinna að útgáfu á íslenskum þýðingum á þýskum almúgabókum frá 17. og 18. öld.

1993

 • Dr. Olga A. Smirnickaja, þýðandi og prófessor við Moskvuháskóla, einkum til að rannsaka þróun íslenskra miðaldabókmennta á 12. og 13 öld, sérstaklega samband bókmennta á latínu og íslensku.
 • Dr. Andrew Wawn, kennari við Leedsháskóla á Englandi, til að kanna frekar samband og samvinnu íslenskra og breskra fræðimanna á 19. öld, m.a. að þýðingu á Noregskonunga sögum.
 • Dr. Thomas Krömmelbein, fræðimaður við Freie Universität Berlin, til að rannsaka handrit Snorra-Eddu.
 • Jon Gunnar Jørgensen, þýðandi og fræðimaður við Óslóarháskóla, til að vinna að nýrri útgáfu á Ynglinga sögu.