Kjarni vísindastarfs á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum eru rannsóknir, skráning, úrvinnsla og miðlun þeirra gagna sem stofnunin varðveitir. Stofnunin hlúir að og eflir slíkar grunnrannsóknir. Útgáfa og miðlun þeirra hefur forgang hjá stofnuninni. Stofnunin leggur áherslu á akademískt frelsi og hvetur starfsmenn til að birta rannsóknarniðurstöður sínar á alþjóðlegum vettvangi jafnt sem innlendum. Mikilvægt er að kynna jöfnum höndum útgáfur á vegum stofnunarinnar og rannsóknir starfsmanna sem birtast á annarra vegum, enda sé það gert í nafni stofnunarinnar.
Stofnunin geymir rafræn rannsóknargögn (hrágögn, svo sem uppskriftir texta o.fl.) á tryggan hátt og veitir aðgang að þeim. Rafrænum gögnum frá fyrri tíð þarf að safna skipulega og búa til verkferla um hvernig gengið er frá gögnum til geymslu.
Stofnunin stuðlar að nýliðun í rannsóknum með því að leggja árlega til fé svo ráða megi stúdenta til vinnu við grunngögn stofnunarinnar. Hún veitir einnig styrki og/eða verðlaun fyrir lokaverkefni (BA/BS/Bed/MA/MS/MEd) sem byggð eru að verulegu leyti á gögnum í varðveislu hennar.
Stofnunin ýtir undir samstarf innanhúss svo að sérþekking starfsmanna nýtist sem best, þvert á svið. Hún hvetur starfsmenn til þess að leggja rækt við rannsóknarsamstarf, bæði innanlands og alþjóðlega. Einnig er hvatt til þess að starfsmenn nýti rannsóknar- og námsleyfi til að einbeita sér að sjálfstæðum rannsóknarverkefnum.
Við ráðningar í rannsóknarstörf tekur stofnunin mið af því hvernig megi þétta en jafnframt breikka rannsóknarhópinn, svo rannsóknir á stofnuninni nái til sem flestra þátta þeirra gagna sem hún varðveitir. Tímabundnar rannsóknarstöður kenndar við Árna Magnússon og Sigurð Nordal má nota markvisst í því skyni að fá fólk úr ólíkum greinum, eða með nýjar áherslur, til að tengjast gögnum stofnunarinnar og efla þannig ákveðnar rannsóknir eða rannsóknarsvið. Jafnframt leitast stofnunin við að efla samstarf við aðrar stofnanir um rannsóknir í tilteknum fáliðuðum greinum á fræðasviðinu eða þar sem uppbyggingar er þörf. Við mönnun er mikilvægt að horft sé til fræðasviðsins í heild, innan sem utan stofnunar, og tekið mið af mannafla á samstarfsstofnunum innanlands.