Íslenskt unglingamál: Rannsókn á samskiptaaðferðum í raungögnum
Hvernig tala íslenskir unglingar á aldrinum 13 til 18 ára við jafnaldra sína og aðra? Hvað einkennir orðaforðann sem þeir nota og setningaskipan þeirra? Hvaða áhrif hafa vaxandi tengsl við ensku á málnotkun og samskipti ungs fólks?
Um verkefnið
Tilgangur verkefnisins er að rannsaka unglingamál á Íslandi. Meginmarkmiðið er að kortleggja ýmis einkenni íslensks unglingamáls á grundvelli raungagna með því að nálgast það frá ólíkum sjónarhornum og með mismunandi aðferðum. Samtöl unglinga við ólíkar aðstæður verða hljóðrituð og skráð: Hópsamtöl um tiltekin umræðuefni sem fara fram í skólastofu með 3–4 þátttakendum í hvert sinn, sjálfsprottin samtöl í daglegu lífi ungmenna og símtöl (alls um 35 klst.). Samtölin verða tekin upp í Reykjavík, á Akureyri og á Ísafirði. Auk þess verður gerð rafræn könnun á unglingaslangri sem lögð verður fyrir um 1000 unglinga til að varpa ljósi á slanguryrði í máli þeirra og niðurstöðurnar verða bornar saman við sambærilega könnun sem gerð var árið 2000.
Við úrvinnslu og greiningu gagnanna verður m.a. beitt aðferðum samskiptamálfræði sem fæst við kerfisbundin einkenni samtala og félagsmálfræði sem felur ekki síst í sér greiningu á margvíslegum tilbrigðum í máli, bæði í málnotkun einstakra málhafa og á milli málnotenda, og tengir þau við ytri aðstæður. Rannsóknirnar beinast að ólíkum þáttum málsins og niðurstöðurnar munu varpa ljósi á samspil hinna ólíku sviða málsins: orðaforða, málkerfis og samskiptamunstra. Þær verða jafnframt bornar saman við niðurstöður annarra rannsókna, bæði við fyrri rannsóknir á íslensku unglingamáli til þess að fá vísbendingar um þróun þess og breytingar fá einni kynslóð til annarrar og við sambærilegar rannsóknir í öðrum málsamfélögum til að kanna sameiginleg einkenni unglingamáls þvert á landmæri og mörk tungumála. Einnig verða niðurstöður verkefnisins skoðaðar í ljósi fyrri rannsókna á íslensku talmáli sem gefur færi á samanburði milli ólíkra aldurshópa og málnotkun við ólíkar aðstæður. Verkefnið og niðurstöður þess fela því í sér mikilvægt framlag á sviði fræðikenninga um samtímaleg tilbrigði í máli, málbreytingar og tungumálatengsl.
Efniviðurinn verður varðveittur með öðrum talmálsgögnum hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og stuðlar þannig að því að til verði traustar heimildir um íslenskt talmál (hljóðrit, umritun í textaskrám og greining) sem nýta má til frekari rannsókna á því. Jafnframt verður gengið þannig frá hluta efnisins að það megi gera aðgengilegt til afnota í kennslu og til þróunar og hönnunar á máltæknilausnum.
Rannsóknirnar eru samvinnuverkefni fræðimanna við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og Háskólann á Akureyri. Verkefnið hlaut styrk til þriggja ára úr rannsóknasjóði 2018.
Við úrvinnslu og greiningu gagnanna verður m.a. beitt aðferðum samskiptamálfræði sem fæst við kerfisbundin einkenni samtala og félagsmálfræði sem felur ekki síst í sér greiningu á margvíslegum tilbrigðum í máli, bæði í málnotkun einstakra málhafa og á milli málnotenda, og tengir þau við ytri aðstæður. Rannsóknirnar beinast að ólíkum þáttum málsins og niðurstöðurnar munu varpa ljósi á samspil hinna ólíku sviða málsins: orðaforða, málkerfis og samskiptamunstra. Þær verða jafnframt bornar saman við niðurstöður annarra rannsókna, bæði við fyrri rannsóknir á íslensku unglingamáli til þess að fá vísbendingar um þróun þess og breytingar fá einni kynslóð til annarrar og við sambærilegar rannsóknir í öðrum málsamfélögum til að kanna sameiginleg einkenni unglingamáls þvert á landmæri og mörk tungumála. Einnig verða niðurstöður verkefnisins skoðaðar í ljósi fyrri rannsókna á íslensku talmáli sem gefur færi á samanburði milli ólíkra aldurshópa og málnotkun við ólíkar aðstæður. Verkefnið og niðurstöður þess fela því í sér mikilvægt framlag á sviði fræðikenninga um samtímaleg tilbrigði í máli, málbreytingar og tungumálatengsl.
Efniviðurinn verður varðveittur með öðrum talmálsgögnum hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og stuðlar þannig að því að til verði traustar heimildir um íslenskt talmál (hljóðrit, umritun í textaskrám og greining) sem nýta má til frekari rannsókna á því. Jafnframt verður gengið þannig frá hluta efnisins að það megi gera aðgengilegt til afnota í kennslu og til þróunar og hönnunar á máltæknilausnum.
Rannsóknirnar eru samvinnuverkefni fræðimanna við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og Háskólann á Akureyri. Verkefnið hlaut styrk til þriggja ára úr rannsóknasjóði 2018.
Verkefnisstjóri
Helga Hilmisdóttir
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum