Skip to main content

Í miðjum straumi menningar

Kristján B. Jónasson

„Í miðjum straumi menningar”


Nú er loksins fyrirliggjandi allt ritsafn Sigurðar Nordal, alls 12 bindi. Þar gefur að líta starf þess manns sem öðrum fremur mótaði hugmyndir Íslendinga um menningarsögu sína á þessari öld og var einn áhrifamesti skýrandi íslenskra bókmennta bæði fyrr og síðar. Kristján B. Jónasson rýndi í þetta stóra höfundarverk.

Árið 1927 birti Sigurður Nordal hugleiðingu í tímaritinu Vöku þar sem hann sagði frá ferð sem hann fór austur í Öræfasveit (greinin er í III. bindi síðasta flokksins í ritsafninu, „Saga og samtíð“, bls. 211-224). Þótt inntak greinarinnar sé um margt dæmigert fyrir þá stefnu sem marka má í skrifum hans frá þessum tíma stendur hún samt sem áður stök í höfundarverki hans, höfundarverki sem spratt fremur af túlkun ritaðra texta en lifaðrar menningar. Sigurður birti ekki mikið af hugleiðingum um dægurmál eða stjórnmálaviðburði um sína daga en það sem liggur eftir hann á því sviði sýnir glöggt hve einstæður túlkunarfræðingur hann var, hve mikill kraftur bjó í vilja hans til að skilja umhverfið og fella það inn í yfirgripsmeira samhengi sögu og heimspeki.

Mannfræði á heimaslóð

Ferð hans austur um sanda verður því að miklu meira en venjulegum reiðtúr, venjulegu landshornaslarki með innblásnum lýsingum á skyrinu sem reitt var fram á Skringistöðum eða silungnum sem verkaður var í Furðuvík. Öll hefðbundin ritklif íslenska ferðþáttarins eru í orlofi og þeirra sér hvergi stað. Þarna er enga persónulýsingu að finna, enga svipmynd af forkostulegum sérvitring eða ógnarsmárri konu sem þó rak höfuðið í bita í lágreistri baðstofu né heldur langar tölur um járningar og skrínukost. Þess í stað leitar Sigurður þess stóra og almenna. Öræfingar koma lesandanum fyrir sjónir sem einskonar hetjuþjóðflokkur sem hefur stækkað og eflst af hættunum sem fylgdu því að búa á þessum slóðum, og sem fylgja því enn eins og nýleg eldsumbrot í Vatnajökli hafa sannað. Auðvitað er þetta ídealíseruð óskamynd. Þetta er mynd sem ekki hefur verið létt að koma heim og saman við hold og blóð þeirra sem héraðið byggðu en enginn hefur vitað það betur en Sigurður sjálfur. Hann máir vísvitandi út ummerki um allt það sem gæti truflað hana, stækkar og miklar andstæður þeirra sem eflast af sífelldum átökum við náttúruöflin og hinna sem húka í makræðinu í stássstofunum á mölinni. Greinin er innlegg í menningarbaráttu en það væri mikil einföldun að segja að hún sé einungis áróður fyrir bændasamfélaginu eða samvirku samfélagi ættarhöfðingja og mikilmenna í skauti háleitrar náttúru. Til þess var Sigurður einfaldlega of góður túlkandi.
Að vísu var hann eins og aðrir sem rituðu í Vöku á þriðja áratugnum að upphefja hugmyndafræði sem ætlað var að lægja rísandi bárur stéttarátaka og milda áhrif fjöldamenningar og nútímavæðingar. En um leið las hann í menninguna með það fyrir að augum að ala á raunverulegri fjölbreytni innan hennar sjálfrar. Hann var ekki einungis að sækja sér fyrirframgefnar hugmyndir austur í Skaftafelli. Hann var að ferðast, að koma í fyrsta skipti á stað sem hann fram að þessu hafði einungis haft af spurnir í frásögnum annarra. Það sem hann upplifir er í raun eitthvað áþekkt því sem mannfræðingur í frumskógum Papúa Nýju-Gíneu myndi skynja nú. Hann sveiflast á milli löghyggju hinnar vestrænu framfarahugsunar sem lítur á það nánast sem náttúrulögmál að allar menningarheildir sem komast í snertingu við tæknimenningu Vesturlanda fallerist og missi meydóminn snart en finnur um leið fyrir melankólískri eftirsjá eftir því einstaka í lífi og starfi þessa fólks sem á eftir að glatast við hina óhjákvæmilegu innrás. Hann skynjar djúpt þessa togstreitu og reynir að sætta hana en þegar upp er staðið verður sú sátt óraunsæ draumamynd og maður skynjar að innst inni veit hann það sjálfur. Sjarmi greiningar Nordals er ekki fólginn í því að hún geymi afdráttarlausa niðurstöðu heldur í mætti höfundarins til að sjá heildir og stærðir. Styrkur hans liggur í hæfileikanum til að sjá form og tjá þau á sannfærandi og áhrifamikinn hátt þannig að innri brestir framsetningarinnar komi ekki fram sem röklegir veikleikar heldur sem listrænn styrkur. Þannig að túlkun lesandans dýpki en þrengist ekki.

Menningarbaráttan

Sigurður stóð eins og sagt var að ofan í menningarbaráttu þótt sjálfsagt hefði honum sjálfum ekki líkað við þetta orð. Hann leit á íslenska menningu ekki sem svið baráttu á milli hópa sem sóttust eftir að „ráða yfir" menningunni heldur sem grundvöll sjálfsmyndar allra Íslendinga og að allir þeir sem ætluðu sér að afreka eitthvað hérlendis í listum yrðu að standa á þeim grundvelli, gera sér grein fyrir umfangi hans og auka við hann. Í ritsafni Sigurðar geyma einkum tveir flokkar, annars vegar flokkurinn „Fornar menntir“ og hins vegar „Saga og samtíð“, þau rit sem helguð eru þessu verkefni. Þar rísa að sjálfsögðu einna hæst hinar kunnu bækur hans um Völuspá og Hrafnkels sögu Freysgoða sem og náttúrulega Íslensk menning, hans „opus magnum“. En til að sjá hvernig Sigurður hugsaði sér samband miðaldatextanna og bókmenntatexta nýaldar, hvernig hann rakti upp strenginn sem batt íslenskar bókmenntir saman, er gagnlegt að lesa fyrirlestra hans um bókmenntasögu í II. bindi „Sögu og samtíðar“, sem hingað til hafa ekki komist á prent. Í þeim birtist glöggt hvernig hann hugsaði sér ólíkar birtingarmyndir órofa kvæða- og sagnahefðar. Hvernig skáldin varðveita arfinn öldum saman til þess að rétta síðan 19. og 20. aldarmönnum kyndilinn svo hann mætti skína skærar en nokkru sinni fyrr. Margir fræðimenn hafa að vísu gengið fram fyrir skjöldu nú á síðustu árum og gagnrýnt þessa mynd bókmenntasögunnar og bent á margt henni til leiðréttingar. Hún hefur þó engu að síður reynst ótrúlega lífsseig og stjórnar í raun því enn hvernig þorri almennings hugsar um viðgang íslenskra bókmennta og menningar. Í raun tókst Sigurði Nordal ætlunarverk sitt. Hann ljáði þjóðinni samhangandi skilning á sögu menningar sinnar sem skólakerfið og aðrir fræðimenn tóku upp á arma sína og báru áfram uns hún var orðin hin sjálfssagða sýn á rás viðburðanna. Því gleymist oft að þessi skilningur er í raun afrakstur túlkunar, niðurstaða langrar umhugsunar um samband texta og menningar.

Það er erfitt fyrir okkur sem eru fædd um það leyti að ævi Sigurðar var að ljúka að átta okkur fyllilega á hve mikilvæg þessi túlkun var í augum hans og þeirra sem hann studdu. Á þröskuldi íslensks nútímasamfélags tókust á ólík viðhorf um hver ætti að vera hugmyndalegur grundvöllur hinna nýju þjóðfélagsmyndar sem iðnvæðing og innlend fjármagnsmyndun var að skapa og Sigurður hafði af því stórar áhyggjur að allt það sem prýddi íslenska menningu mynda fara forgörðum í þeim átökum. Í hans augum gat ekki verið um það að ræða að rás viðburðanna ætti einungis að ráðast af núningi ólíkra stétta eða af nýrri tækni. Þess í stað vildi hann leita út fyrir ramma samtímaumræðunnar og skyggnast eftir frumformum þess sem var sannanlega íslenskt. Grunninn að þeim fann hann í miðaldabókmenntunum og túlkun þeirra var í hans augum lykill að mótun nútímasamfélags á Íslandi. Bak við allt það sem íslenskir menn og íslenskar konu hugsuðu og sögðu lá órofa arfleið sem hafði ljáð Íslendingum þann einstaka kjarna sem greindi þá frá öllum öðrum þjóðum og sem var um leið sá kraftur sem skóp verkum þeirra tilgang og stefnu. Túlkun miðaldabókmennta var engin þurrpumpuleg fílólógía, hún var í raun og veru bilblíutúlkun: Opinberun dýpstu sanninda Íslendingsins um þennan heim og annan.
Það er að vísu efamál hvort Sigurður ætlaði sér þá dul að skilgreina íslenska menningu í eitt skipi fyrir öll, en hann ætlaði sér vissulega að draga fram þann frumspekilega grunn sem hún hvíldi á og gera öllum hann ljósan. Þótt þessi grunnur lægi fyrst og fremst í rituðum heimildum, í bókmenntaverkum miðalda, vissi hann einnig, líkt og kemur fram í áðurnefndri grein um Öræfinga, að óendanleg verðmæti lágu í því sem ekki hafði verið fært í letur og sem aðeins varð lifað og skynjað. Hann var hins vegar ætíð hikandi við að færa menningarhugtak sitt út fyrir svið bókmenntanna, út fyrir svið textans, kannski vegna þess að á því sviði voru fáir honum fremri í að gefa hugmyndum sínum sannfæringarmátt og ljá þeim form. Hvað sem manni finnst til að mynda um túlkun hans á Völuspá er ekki annað en hægt að hrífast af innblásnum skýringum hans á sálarlífi höfundarins og þeim átökum og samþættingu ólíkra heimsmynda sem í kvæðinu er fólgin að hans mati. Þar fer saman annars vegar skáldleg innsýn mikils túlkunarfræðings og einstakur hæfileiki rithöfundar til að miðla þeirri sýn til lesenda. Enda er það þetta tvennt sem heillar við Sigurð Nordal þegar upp er staðið: Annars vegar geta hans til að greina grunnform og grunnstærðir í hverju máli og hins vegar hæfileikar hans til að setja þessa sýn fram í áhrifamiklum búningi. Ásamt þeim Halldóri frá Laxnesi og Þórbergi frá Hala var hann áhrifamesti rithöfundur Íslendinga á þessari öld, maður sem hver ný kynslóð verður að glíma við á sína vísu.

Birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. desember 1997