Skip to main content

Hringrás pappírs

Í verkefninu er lögð áhersla á að rannsaka efnislega sögu sautjándu aldar pappírs á Íslandi sem er enn þá lítið þekkt. Í þessu þriggja ára verkefni verður ferill pappírs rannsakaður frá a) framleiðslu – sem er í sjálfu sér endurvinnsluferli – til b) frumnotkunar sem skriftarlag og c) endurnotkunar.

Markmiðið er að auka þekkingu á framleiðslu handrita, aðgengi að pappír (t.d. forða og umfangi), tilurð texta sem og landfræðilegum, samtímalegum og samfélagslegum mun á notkun pappírs með því að tengja saman upplýsingar varðandi kveraskiptingu, vatnsmerki, texta og sögulegar aðstæður. Nákvæmari aldursgreining verður gerð á sautjándu aldar handritum og endurnotuðum pappír, bæði með og án vatnsmerkis. Aðferð sem sameinar litrófsspeglun (hyperspectral imaging) í vatnsmerkjarannsóknum og rannsóknir á efnislegri rotnun gera þetta kleift. Að auki verður mynstur í endurnýtingu kannað út frá endurnotuðum pappír sem er varðveittur í bókbandi og apógröfum Árna Magnússonar.

Verkefnið mun auka skilning fræðimanna á hringrás pappírs og varpa betra ljósi á framleiðslu og notkun á nokkrum af fremstu menningardýrgripum Íslendinga. Enn fremur verður mikilvægra gagna aflað fyrir samanburð og framtíðarrannsóknir á mörgum fræðasviðum eins og textafræði, handritafræði, sagnfræði og bókmenntafræði. Öll gögn verða aðgengileg í opnum aðgangi á netinu á Wasserzeichen-Informationssystem og handrit.is.
 
Silvia Hufnagel, Vasarė Rastonis og Beeke Stegmann (verkefnisstjóri) vinna að rannsókninni í samstarfi við handritadeild Landsbókasafns Íslands.