Skip to main content

Fréttir

Tímaritið Orð og tunga er komið út

Kápa tímaritsins 2016.

Nú var að koma úr prentun 18. hefti Orðs og tungu (2016). Á síðasta ári var kallað eftir greinum um mál og málfræði og birtast í þessu nýjasta hefti sjö ritrýndar greinar um efnið. Ritstjóri Orðs og tungu er Ari Páll Kristinsson.

Fyrst ber að nefna efnismikla grein á sviði orðhlutafræði, þar sem Þorsteinn G. Indriðason segir frá rannsóknum sínum á seinni liðum íslenskra orða, nánar tiltekið bundnum liðum á borð við -beri, -gresi og -rækni sem koma tæpast eða ekki fyrir sem sjálfstæð orð og eru ekki viðskeyti. Þessir „orðlíku liðir“ eru því á mörkum afleiðslu og samsetningar eins og Þorsteinn orðar það í titli greinar sinnar. Rannsókn Þorsteins á eðli hinna bundnu liða bendir til þess að þeir (a.m.k. liðirnir sem mynda nafnorð) eigi meira skylt með sjálfstæðum orðum en stundum er talið.

Í kjölfar greinar Þorsteins kemur grein Margrétar Jónsdóttur sem rekur beygingarsögu sagnarinnar kvíða. Það viðfangsefni er ekki síst áhugavert vegna þess að hér er um að ræða breytingu úr veikri beygingu í norrænu yfir í sterka beygingu í nútíðarmáli (þó ekki í nt. et.), þ.e. breytingin siglir á vissan hátt „gegn straumnum“ þar sem langflest sagnorð í íslensku eru veikrar beygingar. Margrét rekur vitnisburð málsögulegra heimilda nákvæmlega og setur breytingarnar í fræðilegt samhengi.

Næstu þrjár greinar eru einnig málsögulegs eðlis. Guðrún Þórhallsdóttir fjallar um orðasambandið að ósekju og færir fram sannfærandi rök fyrir því að orðmyndina ósekju beri ekki að túlka sem kvenkynsnafnorðið „ósekja“ í fornu máli heldur hafi verið um að ræða lýsingarorðið ósekur í þgf. hk. et.

Matteo Tarsi fjallar um uppruna elstu kristilegu tökuorðanna í íslensku, nánar tiltekið þau tökuorð sem bárust í norrænu frá 9. öld og fram um miðja 12. öld og enn eru varðveitt í málinu. Í því sambandi leggur höfundur m.a. sérstaka áherslu á þátt fornsaxnesku sem fallið getur í skuggann af vel þekktum fornenskum áhrifum.

Robert Nedoma skrifar stutta grein um uppruna orðsins öræfi (norr. ør(h)œfi). Hann rekur liðinn –(h)œfi saman við vesturgermanskar orðmyndir sem merkja ‘ræktað land, byggð’ og telur að ør(h)œfi hafi því upphaflega merkt ‘óræktað, óbyggt svæði’.

Grein Marie Novotná snertir í senn málræktarfræði, aðlögun tökuorða og þýðingar. Novotná greinir frá rannsóknum sínum á því hvernig farið er með íslensk sérnöfn í tékkneskum textum, nánar tiltekið í tékkneskum þýðingum íslenskra nútímabókmennta. Hún ber það einnig saman við fyrri rannsókn á meðferð norrænna orða í tékkneskum þýðingum úr fornmálinu. Höfundur kynnir niðurstöður sínar í samhengi við tékkneska málstýringu og sögu tékkneskrar tungu. Einkum gerir hún nákvæma grein fyrir viðhorfum og reglum að því er varðar umritun og beygingar tökuorða. Fram kemur að í gegnum tíðina hafi almennt verið á ýmsan hátt vandkvæðum bundið að aðlaga tökuorð margbrotnum beygingum tékkneskunnar. Í greininni er m.a. fjallað um hvað tékkneskir þýðendur geri við nefnifallsendinguna -ur í íslenskum karlmannsnöfnum þegar þau koma fyrir í eignarfalli í tékknesku. Á íslenska nefnifallsendingin að haldast (ef. Sigurðura) eða falla brott (ef. Sigurða)? Og eiga séríslenskir bókstafir að haldast í erlenda textanum (Þórarinn eða Thórarinn eða Tórarinn)? 

Grein Novotná á ekki síst erindi við íslenska lesendur þegar haft er í huga að meðferð erlendra sérnafna í íslenskum textum er í raun margbrotin (Peking – Beijing; í Kína – á Kúbu – á Srí Lanka; í Líma – í Moskvu; Juan Carlos – Jóhann Karl o.s.frv.). Íslenskir málnotendur eru um sumt óvissir og hafa um margt nokkuð mismunandi mat. Sem hliðstæðu við tékkneska dæmið hér á undan má t.d. nefna breytileikann í því hvernig farið er með erlend karlmannsnöfn í eignarfalli í íslenskum textum: ræða Benitos Mussolinis – ræða Benitos Mussolini – ræða Benito Mussolinis – ræða Benito Mussolini. Grein Novotná veitir íslenskum málnotendum innsýn í það umhugsunarefni sem meðferð íslenskra sérnafna getur verið þýðendum og höfundum erlendra texta.

Ingibjörg Elsa Björnsdóttir skrifar grein um máltæknilegt viðfangsefni. Eftir inngang um uppruna og megintegundir vélþýðinga lýsir hún helstu eiginleikum tiltekins kerfis, Apertium, sem hún telur að sé einn besti kosturinn til að rannsaka og þróa vélþýðingarkerfi fyrir íslensku.

Eins og fram kom í formála síðasta árgangs er stefnan sú að birta ritdóm í hverju hefti, um mikilvæga orðabók eða eitthvert annað viðamikið orðfræðilegt eða málfræðilegt verkefni. Svavar Sigmundsson skrifar í þennan árgang ritdóm um stórvirki Jóns G. Friðjónssonar (2014), Orð að sönnu. Íslenskir málshættir og orðskviðir.

Í þessu hefti er tekin upp sú nýbreytni að hafa sérstakan þátt, „Málfregnir“, aftast í tímaritinu. Jóhannes Bjarni Sigtryggsson ríður á vaðið með umfjöllun um strik af ýmsum stærðum og gerðum í íslensku ritmáli, tegundir þeirra og hlutverk. Heitið „Málfregnir“ er í aðra röndina valið í minningu samnefnds tímarits Íslenskrar málnefndar sem kom út á árabilinu 1987–2005. Það tímarit hafði ekki aðeins að geyma greinar um málstefnu (almennt eða ákveðna þætti hennar) heldur einnig ýmsar ábendingar og leiðbeinandi efni innan íslenskrar málræktar.