Skip to main content

Fréttir

Tímaritið Orð og tunga 26 komið út

Tuttugasta og sjötta hefti tímaritsins Orðs og tungu er komið út. Tímaritið er helgað rannsóknum á íslensku máli og hefur um árabil verið mikilvægur vettvangur fyrir fjölbreytt fræðastarf á sviði málvísinda, orðfræði og nafnfræði.

Í þessu hefti má finna fimm ritrýndar greinar sem fjalla um margvísleg og spennandi viðfangsefni. Ingunn Hreinberg Indriðadóttir og Þórhallur Eyþórsson rannsaka sjálfstæða forsetningarliði með lýsingarhætti í bæði samtímalegu og sögulegu ljósi. Martina Huhtamäki og Väinö Syrjälä skoða mállandslag í verslunarmiðstöð á Akureyri í frumlegri grein sem sýnir félagsmálvísindi í íslensku samhengi. Veturliði Óskarsson og Þorsteinn G. Indriðason beina sjónum að herðandi forliðum í íslensku og greina notkun þeirra bæði í töluðu og rituðu máli. Þeir eru einnig meðhöfundar ásamt Margréti Jónsdóttur að grein sem fjallar um afleiðsluorðmyndun með orðhlutanum -an í nútímaíslensku, þar sem eðli og merking þessa orðhluta er skoðuð. Að lokum leggur Sigurður R. Helgason fram athuganir sínar á örnefnum sem benda til að Óðinsdýrkun hafi hugsanlega verið útbreiddari hérlendis en áður var talið.

Auk þess eru í heftinu fimm óritrýndar smágreinar. Svavar Sigmundsson fjallar um merkingu orðliðarins burn- í orðinu burnirót. Aðalsteinn Hákonarson hleypir af stokkunum nýrri umfjöllun um örnefni í tímaritinu og segir þar annars vegar frá opinberum stafrænum örnefnagrunni og hins vegar þremur athugunum vegna fyrirspurna um réttan rithátt örnefna í honum. Þórdís Úlfarsdóttir og Halldóra Jónsdóttir segja frá væntanlegri íslensk-pólskri orðabók og Ásta Svavarsdóttir rekur ítarlega sögu Ritmálssafns Orðabókar Háskólans og rafræna birtingu safnsins.

Við viljum þakka öllum höfundum greina, ritrýnum, ritnefnd og þeim sem unnu við umbrot, prófarkalestur og útgáfu þessa heftis og hvetjum alla sem hafa áhuga á íslenskri tungu til að kynna sér það.

Tuttugasta og sjötta hefti Orðs og tungu er aðgengilegt öllum í rafrænu formi á vefsíðu tímaritsinsPrentaða útgáfu heftisins má nálgast í bókabúðum eða panta hjá Bóksölu stúdenta. Ritstjórar eru Ellert Þór Jóhannsson og Jóhannes B. Sigtryggsson.