Skip to main content

Fréttir

Hornsteinn lagður að Húsi íslenskunnar 21. apríl.

Forseti og mennta- og menningarmálaráðherra leggja hornstein að húsinu.

Síðasta vetrardag, 21. apríl, var lagður hornsteinn að Húsi íslenskunnar en þann dag voru fimmtíu ár liðin frá heimkomu fyrstu handritanna frá Danmörku.

Vegna sóttvarnarráðstafana var aðeins hægt að bjóða fáeinum gestum sem skipað var í tvö sóttvarnarhólf.

Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, buðu gesti velkomna, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, flutti ávarp og lagði hornstein að húsinu ásamt forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni. Í hornsteininn voru lögð skjöl með upplýsingum um framkvæmd byggingarinnar, stafrænar útgáfur af Konungsbók eddukvæða og Flateyjarbók og frumsamið ljóð Bergsveins Birgissonar skálds sem hann orti í tilefni dagsins. Bergsveinn flutti því næst kvæðið sem nefnist Við hornstein að Húsi íslenskunnar.

Að lokinni athöfn gengu arkitektar hússins, Ögmundur Skarphéðinsson og Ólafur Hersisson, með gesti um húsið.

Jón Atli Benediktsson og Guðrún Nordal
Vigdís Finnbogadóttir og Ólafur Ragnar Grímsson