Klaustrið á Helgafelli var einn þeirra staða á Íslandi þar sem ritmenning blómstraði á miðöldum. Frá fjórtándu öld sérstaklega er varðveitt talsvert af handritum sem tengjast Helgafellsklaustri og benda þau til mikillar grósku í bókagerð á þessum stað. Helgafellsbækurnar frá fjórtándu öld mynda sérstakan flokk sem hefur um skeið verið viðfangsefni fræðimanna. Starfandi er þverfaglegur rannsóknarhópur sem vinnur að því að bæta þekkingu okkar á handritagerð í Helgafellsklaustri á fjórtándu öld með því að samnýta krafta og sérþekkingu til þess að auka skilning á ritstofu (lat. scriptorium) klaustursins og vinnubrögðum skrifaranna. Klaustrið á Helgafelli er glæstur fulltrúi bókagerðar á Íslandi á fjórtándu öld og er markmiðið um leið að auka þekkingu á bókagerð hérlendis fyrir svarta dauða.
Helgafellsklaustur fylgdi reglubók Viktorsklausturs á fimmtándu öld, en samkvæmt henni eiga tveir skrifarar að vinna í hverri ritstofu. Í Helgafellsbókum frá seinni hluti fjórtándu aldar sjást tvær meginhendur, þ.e. H1 og H2, sem eflaust unnu að Helgafelli. Alls koma hendurnar fyrir á 16 handritum (og brotum) og saman á einu handriti (AM 233 a fol.), og verður sérstök áhersla lögð á þessi handrit.
Handritin sem tengjast Helgafelli verða nú í fyrsta sinn rannsökuð kerfisbundið og samkvæmt nýjustu aðferðafræði í kódikólógíu, en enn er leitað svara við spurningum eins og: Hver voru helstu einkenni bókagerðar í Helgafellsklaustri? Er hægt að tala um sérstakan „Helgafellsskóla“ í bókagerð? Hvernig var samvinnu skrifara og lýsenda háttað? Hverjir aðrir komu að bókagerðinni?