Skip to main content

Viðmiðunarreglur fyrir ritstjóra og umbrotsmenn

1. Hlutverk ritstjóra

Eins og fram kemur í 3. kafla í I. hluta þessara reglna er markmið ritrýni og ritstjórnar hjá stofnuninni að tryggja að fullnægt sé alþjóðlegum kröfum um gæði og nýnæmi þeirrar þekkingar sem fram er sett. Ritstjóri skal lesa verkið vandlega yfir og ef um textaútgáfu er að ræða bera valda kafla saman við handrit og allt verkið ef grunur leikur á að þess sé þörf. Meginverkefni ritstjóra er síðan að taka saman niðurstöður úr mati ritrýna ásamt sínu eigin og kynna það höfundi eða útgefanda ásamt athugasemdum, ábendingum og tillögum þeirra að úrbótum á verkinu. Ritstjóri getur með samþykki forstöðumanns ráðið aðstoðarmann til að lesa útgáfutextann yfir og bera saman við handrit; sé talin þörf á slíku skal semja um það við útgefandann þar sem fram kemur hver greiðir kostnaðinn við yfirlesturinn. Ritstjóri liðsinnir höfundi eða útgefanda við frágang verksins og að koma því út, sbr. eftirfarandi reglur.

Ritstjóri skal einnig sjá til þess að gerður verði samningur við höfund/útgefanda þegar samþykkt handrit liggur fyrir (sjá kafla III.6).

 

2. Umbrot og annar undirbúningur fyrir prentun

2.1 Brot

Bækur stofnunarinnar eru flestar í tvenns konar broti: Royal eða Demy.

•    Royal-brot: 153 x 230 mm (sbr. Um Fóstbræðra sögu).

•    Demy-brot: 137 x 211 mm (sbr. Haralds rímur Hringsbana).

•    Annað (í sérstökum tilvikum):

  • „breiðara Royal-brot“: 180 x 230 mm (sbr. Ljóðmæli Einars Sigurðssonar í Eydölum)
  • A4-brot: 210 x 297 mm (sbr. Lemmatized Index to the Icelandic Homily Book perg 15 4° in the Royal Library Stockholm)

 

2.2 Leturflötur

Spássía ofan síðutitils skal vera 20 mm í Royal-broti og áþekkt hlutfall í stærra eða minna broti.

•    Blaðsíðutal og síðutitill eru fyrir utan leturflöt meginmáls.

•    Leturflötur:

  • Royal-brot: 109 x 175 mm
  • Demy-brot: 88 x 158 mm
  • leturflötur óbundins máls í „breiðara Royal-broti“: 112 x 175 mm
  • A4-brot: 147 x 197 mm

•    Neðanmálsgreinar eru innan leturflatar.

•    Myndir, töflur og gröf geta þurft að flæða út fyrir leturflöt.

•    Í sumum bókum getur verið um sérstakt spássíuefni að ræða utan leturflatar, t.d. í textaútgáfum, svo að til greina kemur að mjókka leturflöt.

 

2.3 Leturgerð

Mælt er með að nota Andron Mega Corpus, en að öðrum kosti áþekka leturgerð.

 

2.4 Leturstærð og leturfótur

Mælt er með að hafa 11 punkta leturstærð á 14,2 punkta fæti ef Andron Mega Corpus er notaður, en að öðrum kosti áþekk viðmið.

 

2.5 Titilsíða

Auk titils bókar skal nafn höfundar og/eða útgefanda vera á titilsíðu, og nafn ritstjóra sé um afmælisrit eða önnur greinasöfn að ræða; auk þess skal merki stofnunarinnar og nafn, útgáfustaður og útgáfuár vera á titilsíðu.

 

2.6 Upplýsingasíða

Á upplýsingasíðu skal eftirfarandi koma fram:

  • númer rits í ritröð stofnunarinnar,
  • sérstakt merki um ritrýni ef verkið hefur verið ritrýnt,
  • nafn og merki styrkveitenda ef þeim var til að dreifa,
  • ritstjóri (ef um textaútgáfur eða „mónografíur“ er að ræða) eða ritnefnd,
  • hverjir aðrir gerðu skrár og lásu prófarkir eða unnu við útgáfu bókarinnar,
  • höfundarréttarhafar (copyright), þ.e. höfundur eða útgefandi og stofnunin,
  • setjari,
  • umbrotsmaður,
  • prentsmiðja,
  • bókbindari,
  • klausa um að Háskólaútgáfan annist prentþjónustu og dreifingu,
  • leturstærð og leturfótur,
  • pappírsgerð og pappírsþykkt,
  • klausa á ensku um hvar bókin var prentuð (t.d. „Printed in Iceland“),
  • ISBN-númer.

          Ritstjóri fær ritraðarnúmer hjá útgáfunefnd, en ISBN-númer hjá bókaverði.

 

2.7 Ágrip

Hverri bók skal fylgja ágrip á öðru tungumáli. Sé bókin á íslensku, skal hafa ágrip á ensku, en sé bókin á ensku skal hafa ágrip á íslensku. Sé bókin á öðru erlendu máli en ensku, skal fylgja ágrip bæði á íslensku og ensku.

Í textaútgáfum ræður tungumál inngangs og skýringa skilgreiningunni á hvaða tungumál er meginmál bókarinnar.

Í safnritum verður ágrip að fylgja hverri grein.

 

2.8 Kápa

Merki stofnunarinnar og heiti bókarinnar skal vera á bókarkili; ef titill er mjög langur má stytta hann. Nafn höfundar eða útgefanda má koma fram á kili ef því verður við komið.

Á baksíðu skal koma fram í stuttu máli um hvað bókin er og hvers eðlis hún er. Enn fremur skal strikamerki vera á baksíðu. Merki stofnunarinnar má vera á baksíðu ef vill.

Innan á kápu (á uppábroti) skal koma fram hver hannaði kápu og einnig hvaðan ljósmynd á kápu er komin og/eða hver tók hana; sé ekki um uppábrot að ræða verða þessar upplýsingar að koma fram á upplýsingasíðu.

 

3. Að loknu umbroti

Ritstjóri lætur fjármálastjóra vita þegar umbroti, prófarkalestri og kápuhönnun er lokið og fjármálastjóri sér um samstarf við Háskólaútgáfuna varðandi prentun og bókband.

Ritstjóri og höfundur/útgefandi fá tilraunaútgáfu („bláprent“) frá prentsmiðju og skulu fara gaumgæfilega yfir það áður en bókin verður prentuð.

 

4. Prentun og bókband

4.1 Pappír

Prenta skal á sýrufrían pappír

Nota skal 100 gr pappír að lágmarki í afmælisritum, öðrum greinasöfnum og „mónografíum“, en 120 gr pappír að lágmarki skal nota í textaútgáfum.

 

4.2 Band

Mælt er með því að bækur Árnastofnunar verði bundnar (saumaðar) fremur en fræstar (kjallímdar) nema sérstök ástæða þyki til.

Ritstjóri ákveður hvort hörð eða lin spjöld verði í bókarkápu.

Við ákvörðun um saum eða fræsingu og hörð eða lin spjöld verður annars vegar að horfa til kostnaðar og hins vegar til þess hvers eðlis bókin er.

 

4.3 Upplag

Bækur stofnunarinnar eru venjulega gefnar út í 250 eintökum. Í samráði við útgáfunefnd má þó prenta fleiri eða færri eintök ef sérstök ástæða þykir til.

 

5. Þegar bókin er komin út

5.1 Verð

Fjármálastjóri ákveður verð bókarinnar.

 

5.2 Kynning

Þegar bókin er komin út ber ritstjóra að koma upplýsingum um hana til verkefnisstjóra á skrifstofu sem framsendir þær til Bóksölu stúdenta. Enn fremur skal auglýsingu um bókina komið til kynningarstjóra sem setur frétt um útgáfuna og auglýsingu á vef stofnunarinnar.

Kynningarstjóri sér um að kynna útgáfubækur stofnunarinnar, auglýsa þær í fjölmiðlum og í Bókatíðindum.

 

5.3 Höfundareintök

Höfundur/útgefandi fær 20 eintök (2 höfundar fá 10 eintök hvor) — þetta gildir ekki um ljósprentaðar bækur.

Ritstjóri fær þrjú eintök.

 

5.4 Varðveisla

Ritstjóri fær rafræna gerð prentaðrar bókar og sendir til varðveislu í gagnageymslu stofnunarinnar.