Skip to main content

Viðburðir

Umsóknarfrestur um stöðu rannsóknarlektors

30. apríl
2024

Starf rannsóknarlektors við menningarsvið Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er laust til umsóknar. Sótt er um starfið á Starfatorgi.

Helstu verkefni og ábyrgð

Rannsóknarlektornum er ætlað að sinna rannsóknum á íslenskum miðaldabókmenntum, varðveislu þeirra og menningarlegu samhengi. Þá þarf hann að taka þátt í þeim verkefnum sem unnið er að á menningarsviði, svo sem útgáfu texta, fræðilegri ritstjórn og skráningu handrita og fornbréfa, auk stjórnunar og miðlunar þekkingar til fræðimanna, stúdenta og almennings.

Hæfniskröfur

Umsækjendur skulu hafa lokið doktorsprófi á rannsóknarsviði stofnunarinnar. Ætlast er til að þeir geti með námsferli sínum, starfsreynslu og ritverkum sýnt fram á kunnáttu og reynslu til að vinna að rannsóknum og textaútgáfum á sviði íslenskra miðaldafræða og sett íslenskar bókmenntir í samhengi við umhverfi sitt og aðrar evrópskar bókmenntir, m.a. með færni í forn- og/eða miðaldatungumálum.

Góð kunnátta í íslensku máli að fornu og nýju er skilyrði sem og gott vald á talaðri og ritaðri íslensku. Í því felst að umsækjandi hafi móðurmálsfærni / íslenskt stúdentspróf, eða telji íslenskufærni sína samsvara (1) þrepi C2 í færniþættinum Lestur, og (2) þrepunum B2 til C2 í færniþáttunum Samskipti og Ritun, í Evrópska tungumálarammanum (CEFR).

Kunnátta í ensku og dönsku eða öðru norrænu máli er nauðsynleg og frekari tungumálakunnátta er kostur. Gerð er krafa um góða samskiptahæfni. Horft verður til þess að sérsvið og reynsla umsækjenda falli sem best að rannsóknar- og þjónustuþörfum stofnunarinnar.

Frekari upplýsingar um starfið

Laun samkvæmt gildandi kjarasamningi sem fjármála- og efnahagsráðherra og Félag háskólakennara hafa gert.

Um er að ræða fullt starf og í því er fólgin 40% rannsóknarskylda.

Laun eru samkvæmt kjarasamningi Félags háskólakennara og fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs.

Ráðið verður í starfið frá 1. janúar 2025 til fimm ára með möguleika á ótímabundinni ráðningu að þeim tíma liðnum sbr. 3. mgr. 31. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Nánari upplýsingar um starfið veitir sviðsstjóri menningarsviðs í síma 525 4024 eða í gegnum tölvupóst gudvardur.mar.gunnlaugsson@arnastofnun.is.

Umsóknir og meðferð þeirra

Umsækjendur skulu láta fylgja umsókn sinni rækilega skýrslu um vísindastörf sem þeir hafa unnið, ritsmíðar og rannsóknir, svo og vottorð um námsferil sinn og störf. Í umsókn skal koma fram hver ritverka sinna, allt að átta talsins, umsækjandi telur veigamest með tilliti til þess starfs sem um ræðir. Umsækjandi sendir eingöngu þessi ritverk sín með umsókn, eða vísar til þess hvar þau eru aðgengileg á rafrænu formi. Þegar fleiri en einn höfundur stendur að innsendu ritverki skulu umsækjendur gera grein fyrir framlagi sínu til verksins. Einnig er nauðsynlegt að í umsókn komi fram hvaða verkefnum umsækjendur hafa unnið að, hverju þeir vinna að sem stendur og hver séu áform þeirra um rannsóknarverkefni ef af ráðningu yrði. Enn fremur er ætlast til þess að umsækjendur láti fylgja nöfn og netföng tveggja einstaklinga sem eru til þess bærir að veita umsagnir um verk þeirra og hæfni.

Umsóknarfrestur er til og með 30. apríl 2024.

Um hæfi umsækjenda og meðferð umsókna er farið eftir ákvæðum laga um Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum nr. 40/2006 og reglugerðar um Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum nr. 861/2008.

Öllum umsækjendum verður svarað og þeim tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun hefur verið tekin. Við ráðningar í störf hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er tekið mið af jafnréttisstefnu stofnunarinnar.

Starfshlutfall er 100%.

Umsóknarfrestur er til og með 30. apríl 2024.

Sækja um starf.

2024-04-30T23:45:00