Kjartan Atli Ísleifsson sagnfræðingur fjallar um listamanninn Jakob Sigurðsson í fyrirlestrasal Eddu laugardaginn 10. maí kl. 13.
Í fyrirlestrinum er fjallað um Jakob Sigurðsson (1727–1779) og þær handritaskreytingar sem liggja eftir hann. Jakob bjó lengst af á nokkrum bæjum í Vopnafirði ásamt eiginkonu og börnum, yfirleitt við fátæklegar aðstæður. Auk bústarfa fékkst Jakob nokkuð við uppskrift handrita og eru sum þeirra myndskreytt. Jakob var óvenju drátthagur miðað við aðra sem fengust við sömu iðju á 18. öld og eru handritaskreytingar hans einhverjar þær merkilegustu sem varðveist hafa frá tímabilinu. Í Edduhandritunum NKS 1867 4to og SÁM 66 er að finna athyglisverðar heilsíðumyndir af persónum og atburðum úr norrænni goðafræði eftir Jakob. Verða þessar myndir meðal annars teknar til umfjöllunar ásamt fleiri skreyttum handritum úr smiðju Jakobs.
Fyrirlesturinn er í tengslum við handritasýninguna Heimur í orðum.