Sigurðar Nordals fyrirlestur
Norræna húsinu
14. september kl. 17
Á fæðingardegi dr. Sigurðar Nordals hinn 14. september gengst stofnunin fyrir svokölluðum Sigurðar Nordals fyrirlestri. Fyrirlesturinn verður haldinn í Norræna húsinu og hefst klukkan 17. Fyrirlesari að þessu sinni verður Bo Ralph, prófessor emeritus í málvísindum við Gautaborgarháskóla og félagi í Sænsku akademíunni. Fyrirlesturinn nefnist »et land, … i så många afseenden märkvärdigt» — Islandsbilden i Sverige under fyrahundra år og verður fluttur á sænsku.
Bo Ralph varði doktorsritgerð sína, Phonological Differentiation: Studies in Nordic Language History, við Gautaborgarháskóla árið 1975. Hann var ráðinn lektor við skólann 1977 og prófessor við Stokkhólmsháskóla 1982–84. Frá árinu 1984 var hann prófessor í norrænum málum við Gautaborgarháskóla þangað til hann fór á eftirlaun 2012. Bo Ralph hefur birt rannsóknir á sögu norrænna mála og í hljóðkerfisfræði, setningafræði og orðfræði. Hann hefur starfað að ritstjórn orðabóka, bíblíunnar og verka Augusts Strindbergs. Þá hefur hann starfað með Svenska institutet í Stokkhólmi að eflingu sænskukennslu erlendis.
Dr. Bo Ralph var kosinn í Sænsku akademíuna árið 1999 og er einn af átján félögum hennar.
Fyrirlesturinn er í boði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Allir eru velkomnir.