Skip to main content

Viðburðir

Sigurðar Nordals fyrirlestur: Auður Ava Ólafsdóttir: Dvergar og stríð

14. september
2013
kl. 16.30–17.30
Auður Ava Ólafsdóttir. Ljósmyndari: Anton Brink.
Auður Ava Ólafsdóttir. Ljósmyndari: Anton Brink.

Á fæðingardegi dr. Sigurðar Nordals hinn 14. september gengst stofnunin fyrir svokölluðum Sigurðar Nordals fyrirlestri. Fyrirlesturinn verður haldinn í Norræna húsinu. Fyrirlesari að þessu sinni er Auður Ava Ólafsdóttir rithöfundur og forstöðumaður Listasafns Háskóla Íslands með erindi sem hún nefnir Dvergar og stríð.

Í erindinu mun Auður Ava fjalla um lítil og stór viðfangsefni í skáldskap.  Hún mun  minnast á  hávaxnar og smávaxnar sögupersónur, skoða rithöfunda sem tilheyra annars vegar dvergþjóð og hins vegar stórþjóð og velta fyrir sér hugmyndum um eyjar og meginlönd bókmenntanna.

Auður Ava Ólafsdóttir er listfræðingur að mennt. Fyrsta skáldsaga hennar Upphækkuð jörð kom út hjá Máli og menningu árið 1998. Önnur skáldsaga, Rigning í nóvember, kom út hjá Sölku árið 2004 og sú þriðja, Afleggjarinn, hjá sama forlagi 2007. Á síðasta ári kom skáldsaga Auðar Övu, Undantekningin – de arte poetica, út hjá Bjarti. Auður Ava sendi frá sér ljóðabókina Sálminn um glimmer árið 2010 og hefur einnig skrifað þrjú leikrit. Leikritið Svartur hundur prestsins var sett upp hjá Þjóðleikhúsinu 2011, Lán til góðverka var flutt á Listahátíð 2013 og væntanlegt á svið í Þjóðleikhúsinu í febrúar næstkomandi er nýtt leikverk Auðar Övu, Svanir skilja ekki.

Auður Ava hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir bækur sínar, heima og erlendis en verk hennar hafa verið þýdd á 21 tungumál.

Fyrirlesturinn er í boði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

2013-09-14T16:30:00 - 2013-09-14T17:30:00