Skip to main content

Viðburðir

Sigurðar Nordals fyrirlestur. Andrew Wawn flytur fyrirlestur um Þorleif Repp

14. september
2008
kl. 15–16.30

Dr. Andrew Wawn, prófessor við háskólann í Leeds á Englandi, flytur opinberan fyrirlestur í Þjóðarbókhlöðunni, sunnudaginn 14. september, kl. 15.00, á fæðingardegi dr. Sigurðar Nordals. Fyrirlesturinn verður fluttur á ensku og nefnist: „Fresh light on Þorleifur Repp“.

Í fyrirlestri sínum mun Andrew Wawn fjalla um áður ókannað efni úr fórum fjölskyldu Þorleifs Repps (1794-1857), tengt ævi og störfum hans á sviðum textafræði, stjórnmála og bókmennta. Andrew mun gera almenna grein fyrir hvers konar efni þetta er og hvaða máli það skiptir. Jafnframt mun hann fjalla um einstök fornvitnileg atriði frá mismundi skeiðum í lífi Þorleifs: óbirt kvæði á íslensku frá yngri árum hans, óbirt brot af þýðingu á fornsögu á ensku og kompu með minnisgreinum og textabrotum á ensku, dönsku og íslensku frá síðari árum hans. Ásamt óbirtum bréfum gefur þetta efni svipmynd af einkalífi þessa skapheita og vonsvikna menntamanns og menningargagnrýnanda.

Andrew Wawn hefur kennt íslensk fræði um árabil við háskólann í Leeds. Rannsóknir hans hafa einkum beinst að viðtökum á íslenskum fornbókmenntum á 19. öld, m.a. störfum Þorleifs Repps sem Andrew gerði grein fyrir í bókinni: The Anglo Man: Þorleifur Repp, philology and nineteenth century Britain (Reykjavík 1991).

2008-09-14T15:00:00 - 2008-09-14T16:30:00