Sigurðar Nordals fyrirlestur
Norræna húsinu
14. september 2017, kl. 17.
Á fæðingardegi dr. Sigurðar Nordals 14. september gengst stofnunin fyrir svokölluðum Sigurðar Nordals fyrirlestri. Að þessu sinni flytur Gunnþórunn Guðmundsdóttir prófessor fyrirlestur sem nefnist Gleymska og geymd á stafrænum tímum.
Aldrei fyrr hefur manneskjan getað geymt annað eins magn af upplýsingum sem fer jafn lítið fyrir. Hillumetrar af bókum og skjölum, bréfum og myndum, sem fylla jafnan geymslur og íbúðir eldri kynslóða rúmast nú á nokkrum millimetrum. Fjölskylduarkívan, sem æviskrifarar hafa stuðst við í gegnum aldirnar til að skrifa sína sögu eða fjölskyldu sinnar, hefur því aldrei verið jafn uppfull af heimildum um fortíðina, því stafræn tækni getur munað allt, henni er ekki ætlað að gleyma. En um leið hafa orðið gríðarlegar breytingar á samsetningu arkívunnar, bréfaskriftir hafa meira og minna lagst af og samfélagsmiðlar tekið við sem helsta samskiptaleiðin. Ljósmyndir eru geymdar í skýjunum, þeim er deilt um víða veröld, en fjölskyldualbúmin eru löngu horfin á braut. Þá er allsendis óljóst hvernig og hvort okkar stafrænu spor erfast og því vaknar spurningin hvað gleymist og hvað geymist á okkar stafrænu tímum.