Guðbergur Bergsson: ,,Æ þessi menning“
14. september, kl. 17.00, 2004
Norræna húsinu
Menning er það sem manninum er ekki meðfætt, það sem honum er ekki beinlínis eiginlegt eða það sem hann hefur fengið með sjálfsögðum hætti, áreynslulaust. Menning fæst með því að maður reynir á sig, hann gerir sjálfan sig að svokölluðum meiri manni eða öllu heldur mennskari en ef hann léti aðeins frumhvatirnar ráða. Menning er eitthvað sem fæðist innra með honum og eftir það verður hann stöðugt að ala þetta upp, aga og þroska án þess að það verði nokkurn tímann fullorðið og þar af leiðandi dauðlegt.
Til að komast áfram í hugsun og lífinu er nauðsynlegt að slá einhverju föstu og nota það sem undirstöðu, svo hægt verði síðan að fara ofan af undirstöðunni eða endurnýja hana þegar í ljós kann að koma að staðhæfingin í upphafi var röng. Styttur af mönnum geta ekki stigið niður af stöpli sínum. Það geta aðeins hugsandi menn.
En maður þarf líka að gera sér grein fyrir að í upphafi var manns eigin leið ekki eina rétta leiðin heldur er trúlegt að annað afl en það sem býr í manni sjálfum leggi veginn með vilja sínum og maður neyðist til að fylgja honum á hæfilegum hraða. Þá er við hæfi að vera ekki á staurfótum í fyrirfram saumuðum skóm eða láta göngulagið einkennast aðeins af þjónkun við staðfasta skoðun annarra um það hvað réttan fótaburð varðar.
Þannig er þetta að minnsta kosti í flestum tilvikum hvað mátulega óhefta hugsun, þokkalega þjóðfélagsgerð og leitandi listir varðar.
Líklega er menning það þegar maður hefur sig á meðvitaðan hátt með eigin vilja upp fyrir það sem honum er auðvelt og meðfætt. Þetta hlutskipti er honum þung raun. Hann finnur fyrir því sem er kallað menningarþreyta næstum um leið og hann er á uppleið og herðir sig með valdaþörf. Allt sem er mikið felur í sér andstæðu sína.
Menning er líklega það sem engum er í rauninni eiginlegt, að vilja verða sjálfum sér meiri með einbeitni án þess hann ætli beinlínis að upphefja sig á kostnað annarra og kúga með getu sinni.
Líklega er menning afleiðing þess að maður finnur eitthvað óljóst innra með sér, hann verður skelfingu lostinn við þetta óþekkta, en hann hleypir í sig kjarki og færir hið óljósa í form sem hann notar í tíma og ótíma uns hann heldur að endurtekningin sé orðin að hámenningu: Hún er sífellt sömu formin, sömu litirnir og sama innihald, aðeins örlítið breytt uns innihaldið, litirnir og formin, fremur en maðurinn sem skapaði þau, verða dauðleið og þreytt á sjálfum sér og hugsa:
Æ þessi menning!
Þetta einkennir ekki fólk eða menningu af einni þjóð fremur en annarri. Aftur á móti gætir þannig tilhneigingar meira hjá einum manni en öðrum, jafnvel börnum sömu foreldra, og það undur er alltaf jafn óskiljanlegt, hvernig þau geta verið innbyrðis ólík.
Allir sem komast áfram, eins og sagt er, þjóðir og einstaklingar, hafa tilhneigingu til að truflast stöku sinnum með einhverjum hætti á þroskaferli sínum og við þessa truflun nálgast þeir aftur frumstigið þannig að flest í fari þeirra og gerðum minnir á atburði í goðsögum.
Þannig er menningarþreytan.
Hvorki einstaklingur né þjóðir, jafnvel ekki einu sinni trén í ríkum jarðvegi, komast hærra en að vissu marki í vexti sínum. Ekkert vit eða geta eru takmarkalaus. Ekkert endist til eilífðar. Að vísu geta vitið og valdið skipt stöku sinnum ham og falið þannig fyrir sér og öðrum að komið er að endalokum. Vitið og valdið geta til að mynda leitað innra með sér á milli svæða sér til bjargar. Þau geta gripið til þess ráðs að rækta einn reit af ökrum sínum meðan annar hvílist. Engu að síður á sér stað ofræktun og ofurvald. Að lokum fer allt í órækt.
Þannig er vaxtarþreytan.
Aðeins sá getur dregið örlítið úr falli sem reynir að rotast með þeim hætti að fylgjast vandlega með heild sinni. Hann beitir sig meiri hörku en aðra með sjálfskoðun og gagnrýninni hugsun. Þannig getur hann að minnsta kosti dáið úr þreytu, sáttur við það að dauða hans bar að höndum með sæmilega heiðarlegum hætti. Hann hélt heild sinni í skefjum til síðustu stundar, sér og öðrum til hagsbóta.
Hvað sem öðru líður er menningin mótuð af manninum og aðeins hann getur notið hennar svo vitað sé. Og maðurinn lifir í samfélagi og samfélagið og hann móta hvort annað. Þess vegna ber menningin og maðurinn, hvort á sinn hátt, einkenni síns tíma. Frá því verður ekki flúið; og ekki hægt að ganga fram hjá þeirri staðreynd að menningin er miklu fleira en listir og bókmenntir. Aftur á móti er hægt að deila endalaust um það hvort sérstök svið, viss mannleg iðja, athöfn eða störf ákveðinna stétta verði flokkuð undir sérhæfða menningu, hvort eitthvað sé til sem hægt er að kalla bændamenningu, eða ef landbúnaður hættir að vera önnur helsta atvinnugrein einhvers lands og áliðnaður taki við af honum, hvort þá komi til sögunnar álveramenning?
Eflaust er það hugsanlegt. Vegna þess að hugmyndir manna um menningu hafa riðlast, einkum á síðustu áratugum. Nú er næstum hvað sem er flokkað undir menningu. Fyrst allir gera það hlýtur slíkt að vera rétt. Og hvað er tilveran í heild sinni annað en menning, ef litið er á hana sem hvöt náttúrunnar og löngun manna til að verða æðri og meiri en frumstigið.
Voldugasta hreyfing þeirra tilfinninga sem risið hefur upp til aðgerða og einkenndist af upphrópuninni „Æ þessi menning!”, og var ekki beint gegn vissum menningarþáttum heldur henni sem heild, var þegar Hitler komst til valda í einu mesta menningarlandi Evrópu, sem var auk þess í álfunni miðri og gegndi þar lykilhlutverki fyrir hana alla. Hin frumstæða tilfinning var undirrót fyrstu aðgerðanna. Þær beindust öðru fremur gegn úrkynjaðri list, eða þeirri alhliða formbyltingu sem valdhafarnir töldu vera afsprengi auðugra gyðinga af borgarastétt, þótt þeir sem sköpuðu listina tryðu hinu gagnstæða, að formbylting þeirra væri uppreisn gegn úreltum borgaralegum hugmyndum um fagrar, úrkynjaðar og staðnaðar listir og menningu.
Auðvitað voru það ekki uppvöðslusamir formbyltingarmenn sem unnu á stéttinni heldur pólitíski leiðtoginn sem eyddi list þeirra, gyðingum og borgarastéttinni. Hann gerði að engu völd og menningu evrópsku borgarastéttarinnar í heimsstyrjöldinni, ekki vinstrihreyfingin sem hafði það á stefnuskrá sinni. Þannig riðluðust ekki aðeins evrópsk samfélög hvað menningu varðar heldur líka efnahagslega og stéttarlega séð.
Næstum allt fór úr skorðum, ekki aðeins í Evrópu heldur líka Vestanhafs. Eftir hvarf borgarastéttarinnar í þeirri mynd sem hún var fyrir stríðið, kom í ljós að öreigastéttin, sem átti að margra viti að taka við af henni samkvæmt kenningunni, hafði enga köllun til valda. Forvígismenn hennar höfðu misreiknað sig. Þeir höfðu ekki skilið eðli þess sem þeir töldu sig skilja og þóttust stjórna og veita leiðsögn.
Þannig afbakaði hugmyndin veruleikann og hlutina fyrir hálfri öld, ekki ólíkt því að veruleikinn reynir núna að eyða hugmyndum með stöðugum framgangi hlutanna og þeirri hagkvæmni sem fylgir þeim væntanlega.
Þeir sem voru á sinni tíð blindaðir af hugmyndinni vissu ekki að verkalýðurinn er fljótandi stétt, síkvik hreyfing manna og frumstæðra hvata sem erfitt er að þjappa saman þannig að valdastétt verði til í sígildri mynd. Þrátt fyrir þennan eiginleika hefur stéttin orðið allsráðandi í tímans rás, bæði í Evrópu og Vestanhafs, með menningu og eiginleikum sínum, kviklyndinu. Allt í samtímanum ber einkenni hringlandans. Einkennin eru í megindráttum þannig að þau eru einskonar skuggi af öllu, þau eru ekki hluturinn sjálfur nema að litlu leyti heldur skugginn af hlutnum, ekki mótuð hugmynd heldur öðru fremur skuggi af hugmyndinni.
Þetta eru einkenni kvikmyndalistarinnar sem er öðru fremur list alþýðunnar og skugganna. Hún hefur rutt sér til rúms með ráðandi eiginleikum á flestum sviðum mannlegs lífs þannig að ekki aðeins það sem var kallað rótgrónar fagrar listir byrjaði að smjaðra fyrir skuggum. Jafnvel stjórnmálamenn samtímans eru ekki stjórnmálamenn í þeim skilningi sem áður var, heldur skuggi af stjórnmálamönnum. Heimspekingar eru ekki heimspekingar heldur skuggi af heimspekingum. Listirnar eru ekki listir heldur skuggi af listum. Bókmenntir eru skuggi af bókmenntum eða í hæsta lagi eftirlíking af því sem áður var eða beinlínis skrifaðar af löngun til þess að kvikmyndalistin taki þær upp á sína arma og noti þær sundurlausar í líki skugga á hvíta tjaldinu.
Í ljós kom við fall borgarastéttarinnar að öreigarnir áttu ekki einu sinni hugsuði úr eigin röðum, leiðtoga sem komu innanfrá kjarna væntanlegrar stéttar þeirra og þekktu hann, lausir við óskhyggju, vopnaðir raunsæi. Aðrir höfðu hugsað fyrir almenning og komist að niðurstöðu sem var fyrir utan eðli hans en samkvæmt eigin ósk.
Í tómarúminu sem myndaðist eftir stríðið hélt raunverulegt auðvald innreið sína í Evrópu. Álfan hætti að vera ólgandi hugmyndavíti með skapandi afl. Þýskir og franskir hugsuðir týndu tölunni. Þeir dóu úr vonbrigðum, elli, menningardeyfð, og þannig færðist þreytan smám saman yfir allt: Æ þessi menning!, líka Ameríku, en menningarleifarnar fóru á kreik. Allar leifar hins vestræna heims sameinuðust og risu upp gegn hinum áður fjölbreyttu réttum sem hafði tekið aldir að laga af færustu matreiðslumönnum. Innan skamms hafði ofurvald leifanna sigrað veisluborðin. Matast var út um allt, eins og öreigarnir höfðu alltaf gert, en ekki settlega við dúkað stofuborð eins og borgararnir. Við þessu var ekkert að gera, við ekkert var ráðið, frábæru kokkarnir voru kafnaðir í reyk, annað hvort dauðir eða flúnir úr eldhúsunum. Ekkert afl gat stemmt stigu við uppreisn leifanna á öllum sviðum.
Heimsstyrjöldin hafði skilið eftir sig svo miklar rústir að þær urðu orsök þess sem einkennir matreiðslu á leifum og hlaut á matseðlinum nafnið Kalda stríðið. Á þeim tíma kom fram ný tegund af menningu: Hernaðarmenningin hófst. Þetta var ekki hernaðurinn sjálfur, stríðið var kalt, heldur skuggi óttans, hugmyndin um fullkomna tækni í hernaði sem stöðuga yfirvofandi ógn og ógnin kom í staðinn fyrir blóðug átök. Í þannig stríði er ekkert stríð háð. Sigurinn er gefinn fyrirfram útreiknaður í tölum. Þetta var ekki stríðslist samkvæmt hugmyndum Clausewitz eða Napoleons. Þetta var stríðsmenning í orðsins fyllstu merkingu, andlegt ástand sem stóð yfir í áratugi og lagði undir sig öll önnur menningarsvið heimsins.
Auðvaldið fór líka að fá á sig þann alþýðlega blæ, sem nálgast hugsjón, að hakka ofan í þá sem höfðu aldrei kynnst öðrum hugmyndum um heimsins gæði en þeim, að hafa efni á því að háma mikið í sig, sama hvað það var, leifar, dót eða drasl.
Við þetta nýmenningarflæði hurfu flestar hugmyndir sem höfðu vaknað á sínum tíma þegar borgarastéttin reis til valda, til að mynda hugmyndir um varanleg hlutföll, göfug efni, fögur form, traust handbragð, ekki guðlegt heldur mannlegt. Í listum breyttist myndin af allsnægtahorninu; í staðinn fyrir það kom fituhornið. Í fyrstu hlógu listfræðingar og menningarfrömuðir að fituhorninu, hvað þá almenningur, og fannst það ekki vera beysin list. Núna eru öll horn í virðulegum söfnum orðin ekkert annað en viðurkennd fituhorn full af barnadóti og drasli.
Framleiðsla, listir og samfélag hafa alltaf haldist í hendur. Sá er munurinn núna að menn koma ekki auga á samhengið. Þeir hafa öðrum hnöppum að hneppa en hugleiða gerðir sínar og hvaða áhrif gerðir kunni að hafa. Hið alþýðlega auðvaldslega viðhorf að það eitt skipti máli að hafa alltaf nóg að gera, djöflast sem mest án þess að þreytast, situr í fyrirrúmi. Best er í þessu tilviki það sem ríkast hefur verið í eðli og guðshugmynd germanskra þjóða, að hafa nóg að gera í höllinni hinum megin við að berjast, drepast úr þreytu, liggja dauður um stund, vakna upp frá dauðum, byrja aftur að berjast, njóta þess að drepa aðra og drepast sjálfur við góðan orðstír. Í þessu felst annað viðhorf en í dapurlegu myndinni af bisi Sisyfosar við steininn. Dugnaður í lífsbaráttunni á að bera árangur með orðstír, þótt árangurinn sé algert árangursleysi.
Hugmyndir manna um menninguna breyttust ekki í heimsstyrjöldinni heldur að henni lokinni. Meðan á henni stóð var haldið nokkurn veginn í skefjun hugmyndum kristinnar trúar um að allt skiptist í svart og hvítt, rétt og rangt, að annað hvort sé maður með eða á móti manni, og innan menningarinnar sem heildar sé til önnur menning sem er ómenning, eins og andskotinn og Guð voru nágrannar í sömu paradís, að til sé æðri list og lægri list og ekkert af þessu geti kynbætt hvert annað.
En meðan á hinu merka kalda stríði stóð, og um leið og því lauk, fór eitthvað uggvænlegt að láta á sér kræla: Djúpt í undirvitund einstaklinga og þjóða bærðist tilfinning fyrir því að í raun og veru hafi allir tapað í þessu einskonar sálarstríði.
Í skömminni sem fylgdi uppgjöfinni á öllum köldum vígstöðvum og hruni og yfirvofandi hruni heimsveldanna fór að bera á allsherjar þörf fyrir að bjarga sér, halda sér á floti, alveg sama hvernig, en helst með því frjálslynda viðhorfi að allt eigi að vera hindrunarlaust, leyfilegt, engar reglur til, hvorki gott né illt, svart né hvítt. Það eina sem gildi sé ómenguð athafnasemi.
Hér á landi féll athafnasemin sem höfuðþáttur menningar í góðan jarðveg, vegna þess að ekki fyrir löngu hafði þjóðin gert lítið annað en vinna myrkranna á milli með dugnaði sem bar næstum engan árangur hvað varðar sköpun verðmæta eða auðs, engan annan en þann að þjóðin hélt tilveru sinni á floti. Alþýða manna hafði engan tíma til hugsunar, bara til þess að trúa. Enginn tími fer í trúna ef hún er laus við trúariðkun. Trúin er ekki tímasóun. Aftur á móti krefst hugsun næðis og hún er tímafrek.
Aðstæður hér á landi og annars staðar höfðu verið svipaðar um aldaraðir. Ef einhver ætlaði að iðka hugsun af alvöru í menningarlegum tilgangi var það aðeins hægt ef hann fæddist á réttum stað í samfélaginu, ef hann kom úr réttri stétt, úr réttum kviði með framtaki annars kviðar helst ennþá betri. Síðan hélt allt hindrunarlaust áfram, stig af stigi, hærra og hærra án sýnilegrar heltu upp þrepin í svonefndum þjóðfélagsstiga, fyrst við nám byggðu á sígildum fræðum, grísku, latínu og hebresku, tungum hinna evrópsku trúarbragða. Síðan var haldið áfram samkvæmt hefðunum til frekara náms til að mynda í Kaupmannahöfn í leit að nýjum straumum og stundum farið til Sorö, ekið í vagni fram með vatni, alltaf í góðu veðri og andað að sér ilmi frá beykiskógi. Allt var þetta það sem núna er kallað meiriháttar og engin spurning að þannig ætti hin sígilda menning að vera til eilífðar. Í okkar tilviki var hún lítið annað en endalausar bollaleggingar til að komast ekki að niðurstöðu um Íslendingasögurnar, einkum hvort staðháttum þar væri rétt lýst, en stundum vikið inn á jarðneskari svið þar sem fyrir voru fjárpestir og sá vandi hvort skera ætti niður sauðfé vegna kláða. Tónlistin vafðist ekki fyrir mönnum, ekki heldur myndlist, iðnvæðing eða það sem í löndum aðals og síðan vaxandi borgarastéttar var flokkað undir menningarsvið, líkt og leikhús, hljómlistarhallir, óperur.
Þannig var þetta í grófum dráttum meðan hagkvæm tengsl héldust milli nýlenduveldis og nýlendu. En þó var það miklu fremur í öðrum löndum en hér að auðurinn streymdi til réttra aðila. Hér var ekki einu sinni auður til að skapa neitt nema kannski andleg verðmæti. Þannig að einn stíll tók ekki við af öðrum í hinum ýmsu greinum, til að mynda við gerð halla, ekki heldur við það að semja tónverk, mála myndir, búa til bolla til að drekka úr, diska til að borða af, föt til að klæðast á dansleikjum. Enginn ærlegur maður í Evrópu sagði á þessum tíma: „Æ þessi menning!” Hún var hluti af hinu meðfædda í lífi réttra aðila og fylgdi þeim frá vöggu til grafar sem skylda hvort þeim var ljúft eða leitt að njóta hennar.
Svipaðar skyldur og skorður fóru að mestu framhjá okkur og einnig sá vandi, sem skýtur upp kollinum á ýmsum tímum og einkennist af þörf fyrir að rísa upp gegn hefðum, taka ákvörðun um gegn hverju eigi að berjast og hvað eigi að bera fram í staðinn við nýjar aðstæður. Á til að mynda að berjast gegn því sem heitir borgaraleg menning og listir, svo upp rísi svonefnd andmenning, menning fjöldans sem var áður flokkuð undir lágmenningu, það sem núna er viðurkennt tákn samtímans og ræður á opinberum vettvangi og er í ætt við leik og afþreyingu? Alþýðumenningin hefur sigrað, það sem er ekki varanlegt og álíka hæft til hamskipta og stéttin kennd við öreiga.
Hjá okkur var engin rótgróin borgarastétt og þess vegna hvorki mótspyrnu frá henni að vænta né rökrétt leið til að rísa upp gegn henni. En það var hægt að veita fjöldamenningu viðtöku og líkja eftir henni eins og hún kom fram hjá milljónaþjóðum, þótt mannfjölda væri ekki fyrir að fara í landinu. Allt var eftiröpun, ekki afleiðing af þeirri seigu andstöðu sem leiðir gjarna af sér frjóan samruna í lokin.
Hvernig var þetta hægt í svona fámennu og stéttlausu landi?
Við lifum ekki lengur á tímum rómantísku stefnunnar þegar leitað var að menningunni í Kaupmannahöfn með viðkomu í Sorö. Í kalda stríðinu var farið í leit á aðrar slóðir í staðinn fyrir að leggja með hugmyndafræði og kenningum nothæfan grundvöll að sérstakri innlendri menningu með hliðsjón af annarri, erlendri, eins og margar þjóðir gera. Þær leita að þessu nuddi í blíðu og stríðu og sætta sig ekki við að þiggja stöðugt heldur þröngva sér til þess að vera frumlegar og sveitalegar í senn. Allir sem eitthvert vit er í gera sér grein fyrir að frumleiki án innlendrar sveitamennsku er ekki til nema sem blekking blandin alþjóðlegri tilgerð. Þeir vita líka að sveitamennskan hrein og ómenguð er ótæk til markverðs árangurs.
Eftir að Ísland varð lýðveldi var förinni heitið miklu lengra en áður hafði þekkst í lífi okkar. Leiðir lágu í ýmsar áttir, til Moskvu, væru drengirnir gáfaðir og góðir á prófum og sálin í þeim úr mótanlegum leir til herslu í stálverum sósíalisma í einu landi. Margir voru þessum hæfileikum búnir, ættaðir úr venjulegu moldarflagi, en einnig voru í bland sauðir af betri stöðum, kannski ekki kolsvartir, en nógu flekkóttir og þannig á lagðinn að ullin á þeim gæti tekið tilætlaðan lit meðan á dvölinni stæði við móttök nýja ljóssins. Við heimkomuna áttu hinir útvöldu að kveikja bál hjá þeim sem heima sátu og brenna samfélagið í hreinsandi loga.
Þeir sem fóru í öfuga átt, til Bandaríkjanna, voru annað hvort einlitir, hvítir og kristnir, með hæfileika til að taka ennþá betri trú á leiðsögn guðdómsins í guðsútvöldu landi. Þó voru meðal þeirra líka aðrir þeim hæfileikum gæddir að vilja ekki taka annan lit en þann sem hugur og samviska sagði að eigin dómgreind skyldi ráða.
Við þessar tvennskonar undirstöður búum við að miklu leyti í menningu okkar, þótt farið sé að molna úr rétttrúnaðinum og afkvæmin tekin við með óljósa trú og dálítið upplitað litarfar. Flest afkvæmin hafa þess vegna reynst vera að mestu flekkótt og halda að þau hafi haslað sér völl á alþjóðasvæðinu með því að taka tæknina í þjónustu sína. Sú staða felst að miklu leyti í því að sitja við skjái og sjá þar allan heiminn sem guðirnir einir gáðu áður. Nú er þetta á hvers manns færi eftir að bankarnir voru einkavæddir og bjóða skólafólki hagstæð lán til tölvukaupa með afborgunum til æviloka í nafni einstaklingsfrelsis. Að auki fæst ókeypis talfrelsi hjá Og Vodafon, reyndar aðeins í takmarkaðan tíma.
Hægt er að sjá á þeirri tækniöld sem hófst fyrir nokkrum áratugum, að þrátt fyrir gífurleg umbrot í mannkyns- og menningarsögunni er enn talsvert af eiginleikum hinnar fornu goðafræði í báðum. Undirvitundin hrindir þeim þegar minnst varir fram á mörgum sviðum. Hliðskjálf er hinn djúpvitri skjár og enginn efast um það að ekki sé allt rétt sem á honum birtist: Heimsvæðing athafna og vitsmuna. Valdið fylgist með öllu.
Yfir öllu svífur allsherjar Okay. Aðeins þarf að tryggja að Loki komi ekki til skjalanna og eyðileggi gamanið í veislunni sem mun aldrei ljúka ef farið verður eftir áætlun hagfræðinga. Til þess að svo verði þarf að koma hvarvetna upp vörnum á varnir ofan. Sagan og menningin eru ekki lengur í framsókn, frjálsar og djarfar, heldur húka þær í varnarstöðu og vita varla sitt rjúkandi ráð. Helstu veldi samtímans eru hrunin eða að hruni komin. Helstu einkennin samtímans eru ekki bara menningarþreyta heldur það sem verra er: Menningin sem var fyrir nokkrum árum alæta í fituhorninu, hinar uppreisnargjörnu og sigurvissu leifar af réttunum hefur breyst í drasl og varnarmenningu og er stöðugt að horast.
Sektin er ekki hjá okkur. Við finnum ekki fyrir henni í veislunni. Allt er bölvuðum Loka eða Bin Laden að kenna, hinum auðuga og lævísa guði sem þekkir bæði undirheima og yfirheima. Fyrir bragðið veit hann hættulega margt, um allt og alla, um guði og gyðjur og vændi og framhjáhald þeirra. Hann er fullur af hefndarhug. Af hverju í ósköpunum? Hann bregður sér í ótal líki, háll sem áll, og hann er illfinnanlegur þrátt fyrir leit með öllum þeim tækjum sem finna nálar í heysátum heimingeimsins en ekki hann á fjöllum jarðar. Enginn af guðunum og gyðjum skilur hvernig stóð á því að Loki-Laden sem var fyrir stundu einn af hinum bestu, síkátur í veislum, skuli hafa snúist gegn hinu góða, rétta og ríka og reyni jafnvel að bana hinum hvíta ás, Baldri, Bush, Bandaríkjunum öllum. Hann ætlar að eyðileggja hið góða með því að skjóta þotuteini í Tvíburaturna alls heimsins og jafna hið ósigrandi við jörð eins og þegar hann eyddi táki viðskiptalífsins þar sem ekki bara Heimdallur og Haliburton heyrðu gras auðlegðar allra þjóða vaxa í þægilega sefandi tölvusuði.
Þetta vita jafnvel þeir sem hafa ekki fulla heyrn og ættu fyrir löngu að hafa fengið sér stafræn heyrnartæki innbygð í tvískipt gleraugu til að sjá til hægri og vinstri, upp og niður, afturábak og áfram, eins og vera ber og er nauðsyn í heiminum, ekki síst hjá þjóð sem var mótuð af lýðveldiskynslóðinni sem sendi glæsta syni og svolítinn kipp af dætrum á báða bóga, til austurs og vesturs, svo þau kæmu heim hæf til þess að þjóðin gæti riðið upprétt á heimsmerinni og hætti að vera aftarlega á henni eftir að Snorri Sturluson var drepinn án þess að nokkurn grunaði að menning heillar þjóðar ætti eftir að byggjast að mestu á honum. Engum datt í hug við vígið annað en hann væri blauður maður sem bað sér vægðar, og við fallið hélt hann enga heimspekilega ræðu fléttaða í kenningar, honum blæddi bara út eflaust á moldargófli. Hann dó ekki eins og hann hefði átt að deyja samkvæmt hugmyndinni sem síðar var gerð af honum heldur eins og nútímamaður í venjulegum átökum, án sérstakra dáða, hann bara dó af því hann var veginn. En auðvitað hefði hann átt að segja eitthvað spaklegt þótt ekki væri nema til að gera Jorge Luis Borges við hæfi og öðrum sem þurfa á stöðugum tilvitnunum í orð fyrirmynda að halda.
En í ljósi þess sem Snorri samdi getum við enn reynt að glöggva okkur á heiminum og atburðum hans. Hjá honum er þetta ekki sett fram á verulegan skipulegan hátt, heldur er hægt að ráða í merkinguna, verkin bera ekki fram lausn heldur vekja þau hugsun sem nær út fyrir þeirra sérstaka svið. Og hugsunin á að vera manninum til varnar og menningu hans.
Látum þetta nægja sem eitthvað sem er slegið fram, köllum það örlítinn grundvöll.
Við lifum eflaust á erfiðum tímum. Og þeir eru í fæstum tilvikum þess eðlis að hægt sé að setja efnið sem þeir eru gerðir úr fram á skipulegan hátt, eins og hægt var á fyrri tímum, þegar að lokinni framsetningu var fjallað um efnið um stund, litið á það frá ýmsum hliðum, komist að haldbærri niðurstöðu, dregið lærdóm af öllu og farið með hann undir hendinni eða í höfðinu heim og sofið á öllu og gleymt.
Við lifum ekki á tímum sígildrar reglu um framsetningu. Nútíminn hefur hvíslað að okkur með reynslunni af gerðum sínum að menn misstíga sig í mannlegri umgengni helst og hræðilega við fagra og skipulega framsetningu og einnig á öruggum niðurstöðum, þótt útreikningar og vísindaleg þekking og rafeindirnar hafi bent til annars.
Við skynjum líka, en viljum kannski ekki vita það sem við vitum manna best, að vissan og niðurstaðan skapa ringulreið.
Við ættum líka að vita að í menningu og listum og reyndar í mannsandanum yfirleitt er hvergi að finna raunverulega niðurstöðu nema í dauðanum.
Við ættum að líta til þess að allt sem lifir er að mestu óþreytandi eins og brimið; og upphrópunin: Æ þessi menning! á ekki við fremur en hróp gegn vindum á sjávarströnd.
Við ættum ekki að hrópa nema þegar menningin hefur trénað, eins og hin ráðandi sjálfskipaða uppreisnarmenning.
Látum flest vera ófyrisjáanlegt. Hvaðeina á að geta stungið upp kollinum þegar því sýnist, þegar minnst varir eða komið hvaðan sem því sjálfu dettur í hug.
En dettur samtímanum nokkuð sérstakt í hug með hliðsjón af framtíðinni nema hið venjulega, að komast með tímanum í það embætti að verða viðurkennd fortíð?
Kannski verður einungis um að ræða flótti inn í allt til að forða sér út um ekkert. Í menningunni ríkir athafnasemi, og athafnasemi ein og sér er dauðadómur yfir frumleikanum. Stöðug athafnasemi er aðeins forsenda fyrir því að hægt verði að sjá allt fyrirfram. Athafnasemi leiðir til sýnilegs árangurs, þótt undir niðri sé hann enginn. Hús koma manni ekki á ólvart með andagift. Þau eru útreiknanleg sem er allt í lagi með húsin, en verra ef íbúarnir eru álíka útreiknanlegir og herbegjastærðin og krafturinn í ryksugunni.
Í þannig tilviki væru menn og hús aðeins hlutir inni í öðrum hlut. Þannig hverfur fjölbreytni manna og hluta. Hvorutveggja hefur verið fórnað á altari oft tilgangslausrar þekkingar og við tekur leiði á öllu sem er kannski ekki skiljanlegt í fljótu bragði, kannski eins og Snorri Sturluson sem var veginn og blæddi út á moldargófi og enginn hafði hugmynd um hver hann var í raun og veru og við vitum það góðu heilli ekki enn.