Skip to main content

Viðburðir

Sigurðar Nordals fyrirlestur

14. september
2020
kl. 17–19

Hátíðarsalur Háskóla Íslands
Aðalbygging
102 Reykjavík
Ísland

Úlfar Bragason rannsóknarprófessor emeritus flytur opinberan fyrirlestur í hátíðarsal Háskóla Íslands á fæðingardegi dr. Sigurðar Nordals mánudaginn 14. september, kl. 17. Fyrirlesturinn nefnist: „Snorri Sturluson“.

Á þessu ári eru hundrað ár liðin frá því eitt af grundvallarritum svonefnds íslenska skóla í rannsóknum á fornbókmenntum, Snorri Sturluson, eftir Sigurð Nordal kom út. Heimildir okkar um Snorra Sturluson eru ekki margbrotnar, raunar hvorki um ævi hans né ritstörf. Helst þeirra er Sturlungusamsteypan, einkum Íslendinga saga sem höfundur Sturlunguformála eignar ritstofu Sturlu Þórðarsonar lögmanns (ϯ1284). Sigurður Nordal notaði einnig þau rit, sem kennd hafa verið Snorra, sem heimildir um hann. Hann sagði: „Snorri Sturluson kemur fram á sjónarsvið íslenzks þjóðlífs um aldamótin 1200. Á þessari fjölbreyttu öld er hann fjölbreyttasti maðurinn. Auður þessa lífs er furðulegur. Það er eins og nornirnar hafi keppzt hver við aðra yfir vöggu hans að velja úr andlegum og veraldlegum fjársjóðum þjóðar hans og samtíðar handa honum.“ Í fyrirlestrinum verður fjallað um myndina, sem Sigurður Nordal dró upp af Snorra, og hún borin saman við lýsinguna á Snorra í Íslendinga sögu Sturlu Þórðarsonar.

Úlfar Bragason lauk doktorsprófi í Norðurlandafræðum frá University of California at Berkeley árið 1986. Fjallaði doktorsritgerð hans um frásagnarfræði Sturlungu. Hann var gestakennari við University of Chicago á árunum 1986–1987. Þá gegndi hann starfi forstöðumanns Stofnunar Sigurðar Nordals 1988–2006. Við sameiningu stofnana í íslenskum fræðum varð hann stofustjóri alþjóðasviðs nýrrar Árnastofnunar uns hann lét af störfum 2019. Rannsóknir Úlfars hafa beinst að íslenskum miðaldabókmenntum, einkum samtíðarsögum, og að flutningum Íslendinga til Vesturheims á 19. öld. Meðal annars hefur hann skrifað bækurnar Ætt og saga: Um frásagnarfræði Sturlungu eða Íslendinga sögu hinnar miklu og Frelsi, menning, framför: Um bréf og greinar Jóns Halldórssonar. Nú vinnur hann að bók um lýsingu Íslendinga sögu Sturlu Þórðarsonar á Snorra Sturlusyni og fjölskyldu hans. Mun bókin koma út á ensku á næsta ári undir heitinu Reykjaholt Revisited.

Fyrirlesturinn er í boði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Allir eru velkomnir. Fyrirlestrinum verður einnig streymt hér: 

https://livestream.com/hi/sigurdurnordal

 

2020-09-14T17:00:00 - 2020-09-14T19:00:00