Emily Lethbridge heldur hádegisfyrirlestur um örnefni í Íslendingasögum.
Fjöldi örnefna í Íslendingasögunum tengjast persónum og atburðum. Skýringar sem fylgja örnefnum veita okkur innsýn í sköpunarferli þessarar bókmenntategundar. Sumar skýringar eru að öllum líkindum leifar af munnmælum (um nákvæman aldur þeirra liggur þó ekkert ljóst fyrir) en aðrar eru hugsanlega tilbúnar eða uppspunnar (og var landnámsfólk eða atburðir á þann hátt bókstaflega lesið upp úr landslaginu). Þegar samansafn örnefna með skýringum er skoðað koma ýmis mynstur í ljós; mynstrin geta gefið okkur vísbendingar um margt, ekki síst um samfélagsleg viðhorf og forsendur. Í þessum fyrirlestri verður reynt að greina og lesa út úr örnefnaskýringum í sögunum þar sem athyglinni er sérstaklega beint að örnefnum sem tengjast konum.