Sýningin Heimur í orðum verður opnuð í Eddu laugardaginn 16. nóvember kl. 14. Þá gefst fólki kostur á að sjá fjölmörg íslensk handrit sem geyma ómetanlegan menningararf okkar. Þar eru fornar sögur og fræg kvæði en einnig ýmsir aðrir textar sem spegla hugmyndir fyrri kynslóða um líf sitt og samfélag. Á sýningunni er kappkostað að opna þennan fjölbreytta heim handritanna fyrir gestum. Meðal handrita á sýningunni eru frægustu íslensku miðaldahandritin, Konungsbók eddukvæða og Flateyjarbók.
Áhersla er lögð á ríkulegt innihald handritanna, bæði texta og myndir, þar sem líf, dauði, tilfinningar og trú, völd og heiður koma við sögu. Fjallað er um erlend áhrif á íslenska menningu á miðöldum og um íslenska tungu en einnig hvaða spor íslenskar fornbókmenntir hafa markað í útlöndum.
Aðgangur ókeypis í fyrstu sýningarviku 16.–24. nóvember.