Dr. jr. Davíð Þór Björgvinsson, lagaprófessor og fyrrum dómari, mun fjalla um fornar lögbækur og gildandi lög í hádegisfyrirlestri í Eddu. Erindið er liður í fyrirlestraröð sem tengd er handritasýningunni Heimur í orðum.
Á sýningunni eru meðal handrita fornar lögbækur, t.a.m. lögbók úr Skálholti. Einnig eru á sýningunni þrjú lögbókarhandrit sem eru ólík að stærð og gerð. Allar varðveita þær lögbókina Jónsbók sem var samþykkt árið 1281. Jónsbók leysti þá af hólmi lögbókina Járnsíðu sem aðeins gilti í áratug. Réttarbætur komu síðan reglulega frá Noregskonungi og var bætt inn í bækurnar eftir þörfum. Jónsbók er sá texti sem varðveittur er í flestum íslenskum handritum enda gilti bókin að mestu fram á 17. öld og enn má finna stakar greinar úr Jónsbók í núgildandi lögum.
Í tilefni af því að þessi handrit eru nú til sýnis mun Dr. jr. Davíð Þór Björgvinsson flytja erindi í Eddu sem hann kallar:
„Fornar lögbækur og dómar“
Í erindinu mun hann fjalla um nokkra íslenska dóma, sem nýlega má telja, þar sem meðal annars er finna er tilvísanir í fornar lögbækur. Rætt verður um dómana og útskýrt hvernig þessar fornu réttarheimildir eru notaðar, á hvaða sviðum réttarins og hvaða þýðingu þær hafa fyrir úrlausn mála í samtímanum.
Dr. jr. Davíð Þór Björgvinsson hefur stundað nám í sagnfræði, heimspeki og lögfræði. Hann er fyrrverandi dómari við Mannréttindadómstól Evrópu en er nú prófessor og deildarforseti við lagadeild Háskólans á Akureyri.