Skip to main content

Viðburðir

Árna Magnússonar fyrirlestur – Þorleifur Hauksson

13. nóvember
2018
kl. 17–18

Árna Magnússonar fyrirlestur verður haldinn í sjötta sinn 13. nóvember 2018.

Fyrirlesari er Þorleifur Hauksson íslenskufræðingur og nefnir hann erindi sitt: Hugleiðingar og reynslusögur um mismunandi útgáfur íslenskra fornrita.

Fyrirlesturinn fer fram í Norræna húsinu og hefst kl. 17.

Ágrip af fyrirlestrinum:

Útgáfur íslenskra fornrita hafa verið margar og margvíslegar á síðustu öld og í byrjun þessarar og til þeirra gerðar mjög mismunandi kröfur. Mest hefur verið vandað til þeirra útgáfna sem Árnastofnun í Kaupmannahöfn og síðan einnig systurstofnunin í Reykjavík hafa staðið að. Þetta eru svokallaðar ‘undirstöðuútgáfur’, sem byggjast á því að öll handrit, forn og ný, smá og stór, eru skoðuð og flokkuð, þannig að útgáfan standi “á óhagganlegum grundvelli”, svo vitnað sé í Jón Helgason. Vandinn við þessar útgáfur er hins vegar sá hversu tímafrekar þær eru en þörfin fyrir lestrarútgáfur mikil og brýn. Það hefur orðið hlutverk Hins íslenska fornritafélags að brúa bilið milli fræðanna og lesandans, gefa út eins vandaðan, þ.e.a.s. eins upprunalegan texta og unnt er með hliðsjón af tiltækum rannsóknarniðurstöðum og búa hann í hendur lesenda með fræðandi og læsilegum formála og skýringum. Aðrar aðgengilegri útgáfur hafa fylgt í kjölfarið, og fræðimenn hefur greint á um aðferðir og markmið. Í fyrirlestrinum verður fjallað um einstök álitamál í þessu samhengi og rýnt í sum þeirra í ljósi nýlegra útgáfna á Sverris sögu 2007 og Jómsvíkinga sögu sem er nú að fara í prentun.

2018-11-13T17:00:00 - 2018-11-13T18:00:00