Á fæðingardegi Árna Magnússonar handritasafnara, 13. nóvember, gengst Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum fyrir fyrirlestri í Þjóðminjasafninu sem hefst kl. 12.10. Þar mun Guðvarður Már Gunnlaugsson, rannsóknardósent við Árnastofnun, halda erindi sem nefnist Fjögur handrit og frímerki.
Íslandspóstur gaf út tvö frímerki með myndum úr handritum í tilefni af því að í fyrra voru 350 ár liðin frá fæðingu Árna og var sú útgáfa í samvinnu við danska póstinn. Þá gaf Íslandspóstur út frímerki með mynd úr Flateyjarbók í tilefni af því að í sumar voru 800 ár liðin frá fæðingu Sturlu Þórðarsonar sagnaritara og loks hefur Íslandspóstur gefið út jólafrímerki með teikningum úr handriti sem kallað hefur verið Íslenska teiknibókin.
Í fyrirlestrinum mun Guðvarður gera grein fyrir handritunum fjórum sem urðu fyrir valinu. Hann mun auk þess ræða vítt og breitt um íslensk miðaldahandrit, og meðal annars segja frá rannsóknum á því hversu langan tíma það tók skrifara að skrifa þykkar bækur.
Allir eru velkomnir.