Skip to main content

Þorsteins saga Víkingssonar

Útgáfuár
2025
Á miðöldum voru samdar og skrifaðar upp margar sögur um fornar hetjur frá Norðurlöndum á öldunum fyrir landnám Íslands. Þó að sögurnar séu fjölbreyttar að efni og byggingu er hefð fyrir því að vísa til þeirra í heild sem fornaldarsagna Norðurlanda.

Meðal þessara sagna er Þorsteins saga Víkingssonar. Hún gerist að mestu í Noregi eða á óljósum landsvæðum í nágrenninu og lýsir þremur kynslóðum karla, átökum þeirra á milli, bardögum og herleiðöngrum.

Sérstök áhersla er lögð á vinina Víking og Njörfa sem halda tryggð hvor við annan alla ævi en mikið reynir á vináttuna þegar synir þeirra, Þorsteinn og Jökull, verða svarnir fjendur. Sagan dregur þannig fram sígild stef mannlegs lífs en um leið er skemmtanagildi fólgið í ævintýrum, kynlegum uppákomum og kjarnyrtu máli.

Nánar um þessa útgáfu textans

Sagan var að öllum líkindum samin á 14. öld en elstu handrit hennar eru þó frá 15. öld. Í þessari útgáfu er texti sögunnar prentaður eftir handritinu AM 556 b 4to en ólíkir leshættir annarra miðaldahandrita prentaðir neðanmáls. Sögunni fylgir inngangur þar sem gerð er nánari grein fyrir varðveislu sögunnar, aldri og bókmenntasögulegu samhengi.

Þorsteins saga Víkingssonar birtist hér í fyrsta sinn prentuð eftir handritinu AM 556 b 4to. Þórdís Edda Jóhannesdóttir bjó textann til útgáfu og ritar inngang.

Bókin er gefin út í ritröðinni Rit Árnastofnunar (Rit 120).
Kaupa bókina