Skip to main content

Sigurðar saga þögla

Útgáfuár
1992
ISBN númer
9979-819-13-8
Sigurðar saga þögla hefur verið ein vinsælasta sagan í flokki riddarasagna og eru til yfir 60 handrit sem hafa hana að geyma. Elsta handritið er AM 596 4to (frá 14. öld) og er texti sögunnar styttri í því en í yngri handritum. Lengri gerð sögunnar hefur verið gefin út í Kaupmannahöfn, en áður hefur unglegt handrit sögunnar verið gefið út á Íslandi; hér er styttri gerð sögunnar gefin út. Matthew J. Driscoll (f. 1954) skrifar inngang á ensku, en honum fylgir útdráttur á íslensku. Þar er ítarleg málfræðileg úttekt á sögunni, sem ætti að nýtast þeim vel sem hafa áhuga á þróun tungunnar. Þá er textinn sjálfur mjög góður vitnisburður um hana. Auk hans eru ljósmyndir af handritum í bókinni. Auk málfræðigreiningar tekur Matthew Driscoll einnig til athugunar minni í sögunni, sum hver mjög þekkt, eins og kolbítur, þakklátt ljón og meykóngur. Sagan, eins og hún kemur fyrir, er ekki heilleg, en inngangurinn gerir meira en að fylla upp í þær eyður. Í sögunni er að finna hnyttnar lýsingar af ýmsu tagi og er eftirfarandi frásögn ein þeirra:

Og hér eftir leggst hann niður hjá henni og gjörir hennar líkama réttan og heitan og tók hana nú meður afli, og undraðist hún það geysi mjög hversu hans líkami var gleðilegur viðkomu, og svo hversu sterklega hún var höndluð; og nú var hún því að fullu rænt, sem hún kunni aldrei aftur að fá, en það var hennar jungfrúdómur. Nú sem leið mjög nóttinni og frúnni var heitt orðið, bæði af Amorsleikum og því er veðrið tók að batna, þá vendir svefn að drottningu og sofnaði fast.

Bókin er gefin út í ritröðinni Rit Árnastofnunar (Rit 34).
Kaupa bókina