Skip to main content

Mattheus saga postula

Útgáfuár
1994
ISBN númer
9979819561
Mattheus saga postula er ættuð úr latnesku safni ellefu postulasagna sem líklega hefur verið sett saman í Frakklandi á sjöttu eða sjöundu öld. Þetta sagnasafn dreifðist víða um lönd og hefur verið meðal þeirra bóka erlendra sem einna fyrst bárust til Íslands eftir kristni, og sögurnar, þar á meðal Mattheus saga, í fyrsta lagi þeirra texta sem var snúið á íslensku. Mattheus saga er varðveitt ýmist heil eða í brotum í gömlum handritum, elsta brotið frá síðari hluta tólftu aldar og elsta heila handritið frá fyrri hluta þrettándu aldar. Í þessari útgáfu er texti prentaður stafrétt eftir elsta heila handritinu vinstra megin í opnu og lesbrigði annarra handrita neðanmáls, en valinn samræmdur texti ásamt latínutexta hægra megin. Tilgangur útgáfunnar var að komast eins nærri frumgerð þessa gamla texta og mögulegt væri, þeim til fróðleiks og ununar sem kunna að meta þá guðs gjöf að geta ennþá lesið og skilið það sem var skrifað á Íslandi fyrir hartnær níu öldum:

Paradísus er góður staður, öllum fjöllum efri og nálægur himni og hefir ekki það í sér er gagnstaðlegt er heilsu manna. Þar hræðast eigi foglar för manna; þar vaxa eigi þyrnar né illgresi; þar hrörna aldregi blomar; þar missir engra góðra grasa; þar er eigi mein að elli né æsku; þar eru ávallt blíð veður í lofti og góður ilmur fyrir nösum, því að svo sem reykelsis ilmur rekur á braut illan daun, svo taka nasar þeirra er þar eru ilm eilífrar dýrðar, þann er maður eldist eigi né mæðist né sýkist. Þar reystir hljómur heilagra guðs engla fyrir eyrum og dýrlegar raddir.

Bókin er gefin út í ritröðinni Rit Árnastofnunar (Rit 41).