Skip to main content

Ljóðmál. Fornir þjóðlífsþættir

Útgáfuár
2002
ISBN númer
9979-819-79-0
Með ævistarfi sínu hefur Jón Samsonarson aflað sér einstæðrar þekkingar á íslenskri menningararfleifð, einkum frá öldunum eftir siðaskipti. Á fræðasviði hans skipar öndvegi sá kveðskapur, prentaður og óprentaður, sem alþýðu manna í landinu hefur verið kærastur um aldir. Jón hefur unnið að rannsóknum og söfnun slíks efnis, og er hann lét af störfum átti hann í fórum sínum fjórar efnismiklar ritgerðir af þessu sviði, sem voru nánast fullbúnar til prentunar.

Ritgerðir þessar nefnast:

Söfnun þjóðfæða á nítjándu öld
Særingar og forneskjubænir
Barnagælur
Alþýðukveðskapur

Í ritgerðunum er efnið rætt í ljósi menningarsögunnar, og þar eru birt eftir bestu fáanlegum heimildum fjölmörg þekkt og lítt þekkt dæmi úr þeim kveðskap sem fjallað er um, gerð grein fyrir tilbrigðum og bent á erlendar hliðstæður. Ennfremur eru birtar í síðari hluta bókarinnar þrjár ritgerðir um skyld efni, sem áður hafa komið út á prenti og fjalla um tóuvers, hestavísur og sögu vögguvísunnar góðkunnu Bí, bí og blaka. Loks er áður óprentaður fyrirlestur um trúarkveðskap á 17. öld þar sem hugað er að umhverfi og aldarhætti á tíð Hallgríms Péturssonar. Í bókarlok er ritaskrá höfundar.

Bókin er gefin út í ritröðinni Rit Árnastofnunar (Rit 55).
Kaupa bókina