Skip to main content

Ljóðmæli séra Einars Sigurðssonar í Eydölum (1539-1626)

Útgáfuár
2007
ISBN númer
978-9979-819-97-4
Einar Sigurðsson í Eydölum (1539−1626) var höfuðskáld á síðari hluta sextándu aldar og fyrsta hluta þeirrar sautjándu. Ljóst er að Guðbrandur biskup Þorláksson hefur metið skáldskap hans mikils þar sem megnið af fyrri hluta Vísnabókar, þeirrar sem biskup gaf út árið 1612, er eftir Einar. Mikið hefur skort á að skáldskapur Einars hafi verið aðgengilegur almenningi. Vísnabókin var fágæt, auk þess sem letur hennar er illlæsilegt nútímafólki, og annar skáldskapur Einars mestallur varðveittur í handritum. Með endurútgáfu Vísnabókarinnar árið 2000 gafst mönnum kostur á að kynna sér talsverðan hluta af kveðskap þessa afkastamikla skálds.

Í þessari útgáfu er úrval ljóða Einars sem birtust í Vísnabók og allur þekktur kveðskapur hans sem varðveittur er annars staðar, einkum í handritum. Þar með er allt sem vitað er um að Einar hafi kveðið komið á prent í þeim búningi sem hentar nútímafólki.

Bókin skiptist í þrjá hluta. Inngangur fjallar um sálmakveðskap í lútherskum sið og ævi Einars í Eydölum. Þá tekur við kveðskapur Einars, alls 45 sálmar og kvæði. Í síðasta hluta, Skýringum og athugasemdum, er gerð rækileg grein fyrir einstökum sálmum og kvæðum og varðveislu þeirra.

Bókin er gefin út í ritröðinni Rit Árnastofnunar (Rit 68).
Kaupa bókina