Útgáfuár
2020
ISBN númer
9789979654551
Fyrsta hefti í nýrri ritröð sem nefnist Fornar biblíuþýðingar. Henni er ætlað að koma á framfæri gömlum íslenskum biblíutextum sem hafa ekki birst í heildarútgáfum Biblíunnar á íslensku. Júdítarbók er hér í þýðingu úr latínu frá um 1300 á mál sem svipar til íslenskra fornsagna og er tiltölulega auðskilið nútímalesendum. Júdítarbók segir frá Júdít, fallegri ekkju sem vinnur hetjudáð með því að höggva höfuðið af hershöfðingjanum Hólófernesi. Júdít varð fyrirmynd, ekki aðeins að því er hreinlífi varðar heldur einnig fyrir hugrekki sitt og visku, og margir listamenn hafa gert átökum þeirra Hólófernesar skil í aldanna rás. Sýnishorn úr textanum:
„Um aftaninn síð fóru menn til svefns og byrgði Vagau, þjónustumaður Holofernis, svefntjald hans og fór á braut, og voru allir menn móðir af víndrykkju en Judith var ein eftir hjá Holoferne og eskimær hennar. En er Holofernis lá sofnaður í rekkju sinni, ákaflega drukkinn, þá mælti Judith við þjónustumey sína að hún stæði við dyr tjaldsins og varðveitti þau. En Judith stóð fyrir rekkju hans og bað með tárum og mælti hljótt: „Styrktu mig, drottinn guð Gyðinga, og líttu á þessari tíð kraft handa minna. Og svo sem þú hést fyrir að hefja upp og efla Jerúsalem, borg þína, láttu mig algera það er eg hefi ætlað og trúað að þú mundir verða láta.“ En er hún hafði þetta mælt, þá gekk hún til og brá sverði hans sjálfs, því er hékk á stólpanum yfir höfði honum, og greip í hár honum og mælti: „Styrktu mig, drottinn guð Gyðinga, á þessari tíð!“ Hún hjó þá tvisvar á háls honum áður af gekk höfuðið. Síðan tók hún hjúp hans hinn dýra en velti bolnum úr rekkjunni á jörð. Eftir það gengur hún út og seldi höfuðið ambátt sinni og bað hana láta í skreppu sína.“
Biblíuþýðingar eru merkar heimildir um þróun íslensks máls og frjó áhrif þýðinga. Útgáfan er því fengur fyrir áhugafólk um íslenska málsögu, þýðingar og viðtökur Biblíunnar á Íslandi en líka fyrir þá sem hafa gaman af að lesa dálítið óvenjulega íslensku. Í útgáfunni er texti þýðingarinnar prentaður með nútímastafsetningu lesendum til hægðarauka og þeim fylgir inngangur og nafnaskrá. Svanhildur Óskarsdóttir sá um útgáfuna.
Bókin er gefin út í ritröðinni Rit Árnastofnunar (Rit 103).
„Um aftaninn síð fóru menn til svefns og byrgði Vagau, þjónustumaður Holofernis, svefntjald hans og fór á braut, og voru allir menn móðir af víndrykkju en Judith var ein eftir hjá Holoferne og eskimær hennar. En er Holofernis lá sofnaður í rekkju sinni, ákaflega drukkinn, þá mælti Judith við þjónustumey sína að hún stæði við dyr tjaldsins og varðveitti þau. En Judith stóð fyrir rekkju hans og bað með tárum og mælti hljótt: „Styrktu mig, drottinn guð Gyðinga, og líttu á þessari tíð kraft handa minna. Og svo sem þú hést fyrir að hefja upp og efla Jerúsalem, borg þína, láttu mig algera það er eg hefi ætlað og trúað að þú mundir verða láta.“ En er hún hafði þetta mælt, þá gekk hún til og brá sverði hans sjálfs, því er hékk á stólpanum yfir höfði honum, og greip í hár honum og mælti: „Styrktu mig, drottinn guð Gyðinga, á þessari tíð!“ Hún hjó þá tvisvar á háls honum áður af gekk höfuðið. Síðan tók hún hjúp hans hinn dýra en velti bolnum úr rekkjunni á jörð. Eftir það gengur hún út og seldi höfuðið ambátt sinni og bað hana láta í skreppu sína.“
Biblíuþýðingar eru merkar heimildir um þróun íslensks máls og frjó áhrif þýðinga. Útgáfan er því fengur fyrir áhugafólk um íslenska málsögu, þýðingar og viðtökur Biblíunnar á Íslandi en líka fyrir þá sem hafa gaman af að lesa dálítið óvenjulega íslensku. Í útgáfunni er texti þýðingarinnar prentaður með nútímastafsetningu lesendum til hægðarauka og þeim fylgir inngangur og nafnaskrá. Svanhildur Óskarsdóttir sá um útgáfuna.
Bókin er gefin út í ritröðinni Rit Árnastofnunar (Rit 103).