Skip to main content

Hallgrímur Pétursson; Ljóðmæli 3

Útgáfuár
2005
ISBN númer
9979-819-71-5
Ljóðmæli 3 er, eins og heiti bókarinnar gefur til kynna, þriðja bindi fræðilegrar heildarútgáfu á verkum Hallgríms Péturssonar (1614-1674). Í henni eru 43 sálmar, þar af 14 biblíusálmar eða ritningartextar í bundnu máli. Þá eru hér iðrunar- og huggunarsálmar, þar á meðal Hugbót sem skáldið orti þegar húsbruni varð í Saurbæ árið 1662. Auk lengri sálma eru nokkrar stökur, trúarlegs efnis. Textarnir eru prentaðir stafrétt eftir aðalhandriti eða prentaðri útgáfu en orðamunur úr öðrum handritum birtur neðanmáls. Gerð er rækileg grein fyrir varðveislu sálmanna og handritum lýst í sérstakri skrá. Fræðimennirnir Margrét Eggertsdóttir, Kristján Eiríksson og Svanhildur Óskarsdóttir önnuðust útgáfuna.

Þetta er þriðja bindi af níu með ritverkum skáldsins.

Verk Hallgríms Péturssonar hafa ekki áður verið gefin út í heild. Útgáfa Árnastofnunar er auk þess óvenju umfangsmikil því að baki henni liggur könnun á öllum handritum sem varðveita texta eignaðan skáldinu, en þau eru fjölmörg enda Hallgrímur með ástsælustu skáldum þjóðarinnar. Fyrirhugað er að útgáfan verði í fjórum hlutum: ljóðmæli, sálmaflokkar, rímur og laust mál, og verða fimm bindi í fyrsta hluta. Fyrsta bindi kom út árið 2000 og annað bindi árið 2002. Vinna við fjórða bindi er hafin og er gert ráð fyrir að það komi út árið 2007. Háskólaútgáfan sér um dreifingu bókarinnar.

Bókin er gefin út í ritröðinni Rit Árnastofnunar (Rit 64).
Kaupa bókina