Útgáfuár
1988
ISBN númer
9979-819-50-2
Bók Sverris Tómassonar Formálar íslenskra sagnaritara á miðöldum fjallar um áhrif mælskulistar og erlendra mennta á íslenskar fornbókmenntir. Sverrir kannar hvernig mælskulistin mótaði skoðanir rithöfunda á miðöldum um formgerð verka og stíl. Vitneskju um viðhorf miðaldahöfunda sækir Sverrir í formála sagnaritaranna sjálfra, en um það bil 50 slíkir eru varðveittir. Þeir elstu frá 12. öld, en yngstir eru 2 formálar riddarasagna frá 15. öld.
Ritið Formálar íslenskra sagnaritara á miðöldum er doktorsritgerð höfundar. Andmælendur voru Bjarni Guðnason prófessor og dr. Jakob Benediktsson.
Verkið skiptist í tvo meginkafla, þar sem raktir eru venjubundnir efnisþættir formálanna. Í fyrri hluta er fyrst m.a. fjallað um tilefni ritunar, hverjir það voru sem hvöttu rithöfundana til dáða og hvaða orð þeir nota um ritbeiðni. Annar kafli snýst um yfirlýstan tilgang verkanna og reynt er að rekja hvernig hann kemur heim við verkið sjálft. Hér er m.a. fjallað um nytsemi og skemmtun og hvernig líf einstakra höfðingja eða dýrlinga átti að vera öðrum skuggsjá til eftirbreytni. Stærsti kafli verksins skýrir frá því hvernig höfundar komust að orði um efnivið sinn, lýstu stíl sínum, færni og hlutverki og hvernig þeir gerðu ráð fyrir viðbrögðum áheyrenda. Hér er einnig gerð grein fyrir viðhorfum þeirra til skáldskapar og sköpunarstarfs. Fjallað er um lýsingar sagnaritara á þeim ritum sem þeir töldu til sagnfræði og vinnubrögðum við heimildaöflun. Ummæli sagnaritaranna í formálum endurspegla einnig veruleikaskyn þeirra og afstöðu til sanninda frásagnar, en rakið er ýtarlega hvaða skoðun sagnaritarnir höfðu til skröksagna og yfirnáttúrulegra atburða.
Annar hluti bókarinnar greinir frá því hvernig þremur formálum ber saman við eftirfarandi verk. Þar er sagt fyrst frá Ólafs sögu Tryggvasonar eftir Odd munk Snorrason og hver tilgangur hans var með sögunni samkvæmt eigin formála. Næsti kafli greinir frá ummælum Snorra um Ara fróða í formála Heimskringlu og reynt er að grafast fyrir um hvers vegna Snorri lofar Ara fyrir merkilegar sagnir. Þriðji kafli lýsir skemmtunarsögu frá lokum 14. aldar, Adonías sögu og túlkun sagnaritarans á efninu í formálanum.
Í lok verksins er fjallað um sagnaskemmtun, vettvang hennar og áhrif mælskulistar á orðfæri um áheyrendur. Að lyktum eru svo dregnar fram niðurstöður rannsóknarinnar.
Fyrir bókinni er allrækilegur inngangur með skýringum á hugtökum og rannsóknaraðferðum höfundarins og að auki er viðbætir um varðveislu formálanna og greinargerð um fyrri rannsóknir. Loks er efniságrip á ensku, heimilda- og nafnaskrá og skrá um þá formála sem kannaðir voru. Ljósmynd á kápu er úr handritinu AM 738 4to og sýnir ásinn Braga sem ókunnur listamaður á 17. öld dró upp.
Sverrir Tómasson, höfundur bókarinnar, er Reykvíkingur, fæddur 1941. Hann lauk stúdentsprófi úr Menntaskólanum í Reykjavík 1961 og kandídatsprófi í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands 1971. Hann stundaði nám í germönskum fræðum við háskólann í Giessen í Vestur-Þýskalandi 1965-66. Hann var styrkþegi Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi 1971-76 og aftur 1983-88 en þá var hann ráðinn fastur sérfræðingur við stofnunina. Sverrir vann að rannsókn á evrópskum miðaldabókmenntum í London 1976-78. Hann var sendikennari í íslensku og íslenskum bókmenntum við háskólann í Kiel 1978-81, gistiprófessor í forníslenskum bókmenntum við Kaliforníuháskóla 1986 og hefur verið stundakennari við Háskóla Íslands. Sverrir hefur birt fjölmargar greinar um forníslenskar bókmenntir í innlendum og erlendum tímaritum og bókum og séð um útgáfu fornsagna handa almenningi. Hann vinnur nú að útgáfu Nikulás sagna erkibiskups en hluti þeirrar rannsóknar birtist í inngangi hans að ljósprentun Helgastaðabókar 1982.
Bókin er gefin út í ritröðinni Rit Árnastofnunar (Rit 33).
Ritið Formálar íslenskra sagnaritara á miðöldum er doktorsritgerð höfundar. Andmælendur voru Bjarni Guðnason prófessor og dr. Jakob Benediktsson.
Verkið skiptist í tvo meginkafla, þar sem raktir eru venjubundnir efnisþættir formálanna. Í fyrri hluta er fyrst m.a. fjallað um tilefni ritunar, hverjir það voru sem hvöttu rithöfundana til dáða og hvaða orð þeir nota um ritbeiðni. Annar kafli snýst um yfirlýstan tilgang verkanna og reynt er að rekja hvernig hann kemur heim við verkið sjálft. Hér er m.a. fjallað um nytsemi og skemmtun og hvernig líf einstakra höfðingja eða dýrlinga átti að vera öðrum skuggsjá til eftirbreytni. Stærsti kafli verksins skýrir frá því hvernig höfundar komust að orði um efnivið sinn, lýstu stíl sínum, færni og hlutverki og hvernig þeir gerðu ráð fyrir viðbrögðum áheyrenda. Hér er einnig gerð grein fyrir viðhorfum þeirra til skáldskapar og sköpunarstarfs. Fjallað er um lýsingar sagnaritara á þeim ritum sem þeir töldu til sagnfræði og vinnubrögðum við heimildaöflun. Ummæli sagnaritaranna í formálum endurspegla einnig veruleikaskyn þeirra og afstöðu til sanninda frásagnar, en rakið er ýtarlega hvaða skoðun sagnaritarnir höfðu til skröksagna og yfirnáttúrulegra atburða.
Annar hluti bókarinnar greinir frá því hvernig þremur formálum ber saman við eftirfarandi verk. Þar er sagt fyrst frá Ólafs sögu Tryggvasonar eftir Odd munk Snorrason og hver tilgangur hans var með sögunni samkvæmt eigin formála. Næsti kafli greinir frá ummælum Snorra um Ara fróða í formála Heimskringlu og reynt er að grafast fyrir um hvers vegna Snorri lofar Ara fyrir merkilegar sagnir. Þriðji kafli lýsir skemmtunarsögu frá lokum 14. aldar, Adonías sögu og túlkun sagnaritarans á efninu í formálanum.
Í lok verksins er fjallað um sagnaskemmtun, vettvang hennar og áhrif mælskulistar á orðfæri um áheyrendur. Að lyktum eru svo dregnar fram niðurstöður rannsóknarinnar.
Fyrir bókinni er allrækilegur inngangur með skýringum á hugtökum og rannsóknaraðferðum höfundarins og að auki er viðbætir um varðveislu formálanna og greinargerð um fyrri rannsóknir. Loks er efniságrip á ensku, heimilda- og nafnaskrá og skrá um þá formála sem kannaðir voru. Ljósmynd á kápu er úr handritinu AM 738 4to og sýnir ásinn Braga sem ókunnur listamaður á 17. öld dró upp.
Sverrir Tómasson, höfundur bókarinnar, er Reykvíkingur, fæddur 1941. Hann lauk stúdentsprófi úr Menntaskólanum í Reykjavík 1961 og kandídatsprófi í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands 1971. Hann stundaði nám í germönskum fræðum við háskólann í Giessen í Vestur-Þýskalandi 1965-66. Hann var styrkþegi Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi 1971-76 og aftur 1983-88 en þá var hann ráðinn fastur sérfræðingur við stofnunina. Sverrir vann að rannsókn á evrópskum miðaldabókmenntum í London 1976-78. Hann var sendikennari í íslensku og íslenskum bókmenntum við háskólann í Kiel 1978-81, gistiprófessor í forníslenskum bókmenntum við Kaliforníuháskóla 1986 og hefur verið stundakennari við Háskóla Íslands. Sverrir hefur birt fjölmargar greinar um forníslenskar bókmenntir í innlendum og erlendum tímaritum og bókum og séð um útgáfu fornsagna handa almenningi. Hann vinnur nú að útgáfu Nikulás sagna erkibiskups en hluti þeirrar rannsóknar birtist í inngangi hans að ljósprentun Helgastaðabókar 1982.
Bókin er gefin út í ritröðinni Rit Árnastofnunar (Rit 33).