Skip to main content

Fjórar sögur frá hendi Jóns Oddssonar Hjaltalín

Útgáfuár
2006
ISBN númer
9979-819-89-8
Matthew J. Driscoll, sérfræðingur við Árnasafn í Kaupmannahöfn, bjó til prentunar.

Jón Oddsson Hjaltalín (1749–1835) var lengst af prestur í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Hann var afkastamikill rithöfundur, sálmaskáld og þýðandi, en aðeins sálmar hans birtust á prenti að honum lifandi. Eftir Jón liggja einnig í handritum kvæði hans af trúarlegum toga, rímur, tækifærisvísur og annars konar veraldlegur kveðskapur, auk frumsamdra og þýddra sagna. Útgáfan sem hér birtist, á fjórum sögum frá hendi sr. Jóns, er úrval sagnaritunar hans og varpar ljósi á skáldsagnagerð þessa tímabils í íslenskri bókmenntasögu; engin þeirra hefur áður verið prentuð.

Marrons saga og Fimmbræðra saga, sem birtar eru í bókinni, voru frumsamdar af séra Jóni í hefðbundnum stíl riddara- og lygisagna, en Sagan af Zadig er þýðing hans úr dönsku á skáldsögunni Zadig ou la Destinée eftir franska skáldið Voltaire sem birtist fyrst á frummálinu árið 1747, tólf árum á undan Birtingi (Candide), en í báðum þessum sögum veltir Voltaire fyrir sér vonsku og þjáningu heimsins. Fjórða sagan, Ágrip af Heiðarvíga sögu, er sérstök gerð Heiðarvíga sögu sem séra Jón setti saman á grundvelli endursagnar Jóns Ólafssonar af þeim hluta sögunnar sem glataðist í Kaupmannahafnarbrunanum 1728 og eftirrits Hannesar Finnssonar af því broti sögunnar sem enn er varðveitt í Stokkhólmi í handriti frá miðöldum; við þetta jók séra Jón ýmsu efni, m.a. úr munnlegri geymd. ¯ Sögunum er fylgt úr hlaði með ítarlegum inngangi útgefanda.

Sigurgeir Steingrímsson, rannsóknardósent við Árnastofnun, hafði umsjón með útgáfunni. Háskólaútgáfan annast dreifingu bókarinnar.


Bókin er gefin út í ritröðinni Rit Árnastofnunar (Rit 66).