Skip to main content

Fjölnisstafsetningin — hliðarspor í sögu íslenskrar stafsetningar

Útgáfuár
2017
ISBN númer
978 9979 654 37 7
Gunnlaugur Ingólfsson, emeritus við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, hefur búið til prentunar ritið
Fjölnisstafsetningin. Hliðarspor í sögu íslenskrar stafsetningar.

Í bókinni er fjallað um helstu atriði þessara stafsetningarnýjunga og viðbrögð við þeim, svo og áhrif og afdrif þeirra. Bókin byggir að miklu leyti á ritsmíðum sem hafa ekki fyrr komið út á prenti heldur hafa legið í handriti og eru varðveittar í handritadeild Landsbókasafns - Háskólabókasafns.

Gunnlaugur lýsir efni bókarinnar svo á bókarkápu:
Árið 1836 birtist í ársritinu Fjölni löng grein sem boðaði róttækar breytingar á íslenskri stafsetningu. Henni til grundvallar skyldi leggja framburð samtímamálsins og kallaði höfundur þá reglu einkareglu stafsetningarinnar. Þessar nýjungar voru innleiddar smám saman í næstu árgöngum ritsins, en þrátt fyrir skeleggan málflutning af hálfu Fjölnis náðu breytingarnar ekki að festa rætur; frá og með 7. árgangi, 1844, var nýja stafsetningin horfin.

Í samtíma sendibréfum má sjá að embættismenn og fræðimenn voru þessum nýjungum andvígir og þær voru harðlega gagnrýndar í mánaðarritinu Sunnanpóstinum. Fjölnisstafsetningunni var einkum fundið til foráttu að framburðarreglunni væri haldið til streitu, hver færi því að skrifa eftir eigin eyra og útkoman yrði glundroði. Andmælendur breytinganna bentu enn fremur á að íslenskan ætti sér margra alda rithefð sem engin ástæða væri til að umbylta heldur mætti samræma þar sem óreiða væri komin á.

Sveinbjörn Egilsson, sem verið hafði kennari útgefenda Fjölnis, samdi tvær ritgerðir þar sem hann gagnrýndi Fjölnisstafsetninguna harðlega. Ritgerðir Sveinbjarnar eru prentaðar í fyrsta sinn í þessari bók. Hér eru enn fremur prentaðar greinar úr ritum frá þessum tíma þar sem tekist var á um íslenska stafsetningu.

Bókin er gefin út í ritröðinni Rit Árnastofnunar (Rit 94).
Kaupa bókina