Skip to main content

Bréf Konráðs Gíslasonar

Útgáfuár
1984
ISBN númer
9979-819-44-8
Konráð Gíslason (1808-1891) var sonur sagnaritarans Gísla Konráðssonar. Að loknu námi í Bessastaðaskóla 1831 sigldi hann til náms við Kaupmannahafnarháskóla og kom aldrei til Íslands síðan. Konráð starfaði um árabil sem styrkþegi Árnanefndar, en varð árið 1848 kennari við Hafnarháskóla, fyrsti dósent í fornnorrænu máli en síðar prófessor og gegndi því starfi til 1886. Auk kennslu vann Konráð að orðabókarstörfum, útgáfu fornrita og rannsóknum íslenskrar tungu og ritaði fjölda greina um þau efni í blöð og tímarit. Hann stofnaði árið 1834 tímaritið Fjölni ásamt þeim Jónasi Hallgrímssyni og Brynjólfi Péturssyni og sat í ritnefnd þess meðan það kom út.

Bréf Konráðs Gíslasonar til Íslendinga, skrifuð á árunum 1828-1890, prentuð stafrétt eins og Konráð gekk frá þeim, eru frumheimildir um ævi hans og störf. Konráð var allra manna ötulastur við að hreinsa íslenskuna af erlendum slettum. Bréf hans eru holl lesning öllum sem vilja temja sér tilgerðarlausan og fallegan stíl og merkileg heimild um menningu og fræðasögu 19. aldar. Auk þess eru bréfin til vina hans, Brynjólfs Péturssonar og Jónasar Hallgrímssonar, með því skemmtilegasta sem hefur verið skrifað á íslensku.

Dr. Aðalgeir Kristjánsson skjalavörður bjó Bréf Konráðs Gíslasonar til prentunar.

Bókin er gefin út í ritröðinni Rit Árnastofnunar (Rit 27).