Skip to main content

Bréf Gunnars Pálssonar II. Athugasemdir og skýringar

Útgáfuár
1997
ISBN númer
9979819588
Séra Gunnar Pálsson (1714-1791) var Svarfdælingur að uppruna, stúdent úr Hólaskóla, guðfræðingur frá Hafnarháskóla, um skeið skólameistari á Hólum, en lengst prestur í Hjarðarholti og prófastur í Dalasýslu.

Séra Gunnar var gáfumaður og eitt af höfuðskáldum síns tíma, en mestan orðstír hefur hann hlotið fyrir mikinn lærdóm, einkanlega á sviði fornra fræða íslenskra, enda fékk Árnanefnd í Kaupmannahöfn hann til að rita skýringar við eddukvæði og fleira af fornum skáldskap.

Gunnar Sveinsson skjalavörður hefur öllum öðrum fremur rannsakað ævi og ritstörf séra Gunnars og gaf út bréf hans árið 1984 í ritröð Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi, Bréf Gunnars Pálssonar. I. Texti, 504 bls. Jafnframt hefur Gunnar Sveinsson ritað rækilegar skýringar við bréfin og koma þær hér fyrir sjónir lesenda í þessu seinna bindi bréfaútgáfunnar, Bréf Gunnars Pálssonar. II. Athugasemdir og skýringar. Bókin er 449 bls. að lengd.

Þetta skýringabindi er reist á yfirgripsmiklum og djúptækum rannsóknum Gunnars Sveinssonar. Meginmarkmið þess er að sjálfsögðu að vera óhjákvæmilegt hjálpargagn við lestur og skilning bréfanna, en hvorttveggja í senn, bréfin sjálf og skýringarnar veita ómetanlega innsýn í menningarsögu 18. aldar. Sú öld hefur legið nokkuð í láginni að því er rannsóknir varðar en vakið á síðustu árum vaxandi athygli og áhuga bæði fræðimanna og almennings.

Bókin er gefin út í ritröðinni Rit Árnastofnunar (Rit 44).