Skip to main content

Bréf Gunnars Pálssonar I. Texti

Útgáfuár
1984
ISBN númer
9979-819-43-X
Gunnar Pálsson (1714-1791) var prestssonur frá Upsum á Upsaströnd. Hann varð stúdent úr Hólaskóla 1735 og var djákn á Munkaþverá um skeið. Veturinn 1740-1741 dvaldist hann í Kaupmannahöfn og lauk guðfræðiprófi úr Hafnarháskóla um vorið. Hann var skólameistari á Hólum 1742-1753 og síðan prestur í Hjarðarholti í Laxárdal til 1784 og jafnframt prófastur til 1781. Síðustu æviárin fékkst hann við barnakennslu á Reykhólum og andaðist þar.

Gunnar Pálsson var í hópi höfuðskálda 18. aldar og orti bæði á íslensku og latínu. Hann fékkst við fornkvæðaskýringar fyrir Árnanefnd í Kaupmannahöfn og naut mikils álits sem lærdómsmaður. Tveir samtímamenn Gunnars sögðu að hann hefði verið gamansamur, orðhittinn, lítill vexti, en þó sköruglegur ásýndum og knár, einnig að hann hefði verið skrýtinn maður við dropa og sopa, en góðmenni og góðvildarsamur.

Bréf Gunnars Pálssonar, 198 bréf skrifuð á árunum 1744-1791, prentuð stafrétt eins og ritari þeirra gekk frá þeim, eru merk heimild um dagleg viðfangsefni og áhugamál sérstæðs gáfumanns. Hér gefur sýn inn í hugarheim merkilegs skálds og lærdómsmanns sem slettir mjög erlendum tungum, einkum latínu. En sé þetta skilið frá stendur eftir rammíslenskt tungutak, snjallt og kjarnyrt.

Gunnar Sveinsson skjalavörður bjó Bréf Gunnars Pálssonar til prentunar.

Út er komið annað bindi: Bréf Gunnars Pálssonar. II. Athugasemdir og skýringar.

Bókin er gefin út í ritröðinni Rit Árnastofnunar (Rit 26).