Þegar Jón Árnason (1819–1888) vann að þjóðsagnasafni sínu Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862–1864) voru helstu samverkamenn hans þeir Guðbrandur Vigfússon (1827–1889) og Konrad Maurer (1823–1902). Vinnulag þeirra var þannig að Jón sendi efni til Guðbrands í Kaupmannahöfn, sem leiðrétti eftir sínu höfði og bar á stundum upp við Jón Sigurðsson (1811–1879). Efnið sendi Guðbrandur síðan til München, þar sem Maurer lagði sín lóð á vogarskálarnar. Í vinnuhandritum safnsins má stundum sjá sitthvað skrifað á spássíuna sem gefur innsýn í ólíkar skoðanir þremenninganna á því hvers konar sögur ættu heima í íslenska þjóðsagnasafninu.
„of óguðleg?“
Í prentsmiðjuhandriti Kímnisagna (Lbs 529 4to, 211r)[1] er sagan Þú nýtur þess, guð, ég næ ekki til þín en þar segir frá kerlingu sem reiðist almættinu þegar rignir meðan á heyskap stendur. Daginn eftir er glaðasólskin og þá gerir karl hennar sér „lítið fyrir, fer úr brókinni, stíngur henni upp í gluggann og segir: ‚Þú skeinst ekki svona glatt á heytugguna mína í gær.‘“[2] Jón Árnason hefur greinilega haft efasemdir um að slíkur talsmáti ætti heima í safninu og viðrar þessar áhyggjur sínar á spássíunni „(Er ekki þessi saga of óguðleg? til að taka hana).“ Ekkert svar er skrifað á spássíuna en búið er að strika yfir spurningu Jóns með blýanti. Álit Guðbrands og Maurers er því nokkuð ljóst og sagan „óguðlega“ einfaldlega prentuð í safninu.
„sagan viðbjóðsleg“
Á næstu blaðsíðu (Lbs 529 4to, 212r) er sagan Presturinn og grautarkrukkan, en þar segir frá presti og vinnumanni hans sem báðir renna hýru auga til stúlku. Vinnumaðurinn platar prestinn til þess að bera graut að berum botni föður stúlkunnar á meðan hann sefur vært og hann leysir óafvitandi vind á grautinn. Presturinn taldi sig hins vegar hafa fært vinnumanninum graut og hann blásið á til þess að kæla. Á endanum er það að sjálfsögðu vinnumaðurinn sem hreppir stúlkuna. Þessa sögu sendir Jón áleiðis athugasemdalaust. Félagar hans eru hins vegar á annarri skoðun. Á spássíu við upphaf sögunnar hefur Guðbrandur skrifað með blýanti „Cassiert. Illa sagt frá, sagan viðbjóðsleg, eg hefi heyrt hana betri.“ Við grófasta hluta sögunnar eða þegar vindur var leystur á grautinn er skrifað með rauðu bleki „hér!“. Áhugasamir um smáatriði sögunnar munu leita hennar árangurslaust í upprunalegri útgáfu safnsins, því að eins og sjá má á spássíukrotinu þótti hún alls ekki birtingarhæf. Söguna um óheppna prestinn á biðilsbuxunum er þó hægt að nálgast í viðaukinni útgáfu safnsins sem kom út á árunum 1954–1961 og heitir þar Því ertu að blása ...?
Í þessum ördæmum má sjá glitta í hvernig álitamál það voru sem komu upp við vinnslu þjóðsagnasafns Jóns Árnasonar og hvernig skoðanaskipti þar að lútandi fóru meðal annars fram á spássíum.
[1] Prentsmiðjuhandrit kímnisagna og einstakra galdramanna eru aðgengileg á handrit.is en önnur prentsmiðjuhandrit þjóðsagnasafns Jóns Árnasonar eru varðveitt ásamt einkaskjölum Konrads Maurers á bókasafni Bæjaralands (https://www.digitale-sammlungen.de/en/search?query=%28BSB+Cod.isl%29).
[2] ÍÞÆ, II, 1864. Í sex binda útgáfu safnsins sem gefið var út á árunum 1954–1961 segir karlinn: „Þú varst ekki svona frökk í gær.“
Síðast breytt 1. október 2024