Skip to main content

Pistlar

Sögugabb

Handritasíða. Stórt, gyllt og ríkulega skreytt H fyllir nánast upp í síðuna. Mikið flúr í kring og tveir menn í litríkum klæðnaði. Annar þeirrar berar á sér rassinn.
Upphaf rekabálks í handritinu GKS 3274 a 4to.

Í þjóðfræðisafni Árnastofnunar er að finna hljóðritanir á frábærum sagnaþulum sem segja ævintýri og aðrar sögur af mikilli list. Þar má einnig heyra ótal frásagnir af fólki sem gat sagt alls konar sögur næstum endalaust. Ýmislegt bendir þó til að jafnvel þetta fólk hafi stundum fengið nóg eða að það hafi stundum alls ekki nennt að segja sögur. Í safninu er nefnilega einnig að finna alls konar „formúlur“ og jafnvel „formúlusögur“ sem notaðar voru í þeim tilfellum þar sem börn eða aðrir þrábáðu um sagnaskemmtun.

Á ég að segja þér sögu?

Margvíslegar aðferðir eru notaðar af sagnafólkinu til að láta áheyrendurna halda að þeir muni fá að heyra sögu. Að lokum – oftast eftir skamma stund – verður þeim þó ljóst að verið er að gabba þá. Sögugabbið byrjar einmitt oft eins og ætlunin sé að segja sögu: „Einu sinni var ...“ eða „Það var einu sinni ...“ eða jafnvel eitthvað sem vekur enn meiri eftirvæntingu. „Á ég að segja þér söguna af ...?“ sem hinn söguþyrsti svarar auðvitað játandi. Sumar sögur með slíku upphafi eru mjög stuttar og jafnvel aðeins ein setning, svo sem sögurnar af henni Sönn og honum Skugga:

Á ég að segja þér söguna af henni Sönn? Hún setti beran rassinn út í snjófönn.

Á ég að segja þér söguna af honum Skugga? Hann setti beran rassinn út í glugga.

Aðrar geta verið örlítið lengri:

Á ég að segja þér söguna af kónginum Gulífer? Sem réði fyrir borginni Metórum og Temprum. Drottningin hans hét Þeysiblaðra Hellenaðra Hérótaðra. Dóttirin hét Dettiklessa Hellenessa Hérótessa. Sonurinn hét Runtus og Struntus og Herragullið Fruntus. Svo reru þau fyrir nesið það stranga og þá er úti sagan sú hin langa.

Áheyrandinn plataður til að svara

Eins og sést hér að ofan er stundum spilað á smekk krakka fyrir fyndni sem víkur að líkamlegum þörfum og líkamspörtum neðan mittis. Það er einnig gert í eftirfarandi sögu en í upphafi minnir hún á Loðinbarðasögu eða söguna af Kolrössu krókríðandi. Í þeim ævintýrum fer karlinn einmitt oft út í skóg að sækja eldivið. Þar leggst tröllkarlinn á bagga hans og lætur ekki lausan fyrr en hann lofar að senda dóttur sína út um kvöldið þegar tröllkarlinn lætur dropa falla á gluggann. Þar heita systurnar venjulega Ása, Signý og Helga þannig að nöfnin í þessu sögugabbi gefa strax til kynna að hér sé eitthvað óvenjulegt á ferðinni:

Þar segir af karli og kerlingu sem áttu sér þrjár dætur. Hét ein Sól og önnur Nótt og sú þriðja Spýta. Einu sinni fór karlinn á skóg og sótti við, kom svo aftur um kvöldmatarleytið og lagði frá sér viðarbaggann við bæjardyr og vettlingana sína ofan á og gekk í bæ og tók til matar. En þá duttu rigningardropar á skjáinn svo hann biður Sól dóttur sína að skreppa nú út og sækja vettlingana sína sem hann hafi gleymt á viðarbagganum. En hún segist ómögulega nenna því. Þá biður hann nú Nótt að fara, en hún nennir því heldur ómögulega. Svo … hvað hét nú aftur þriðja dóttirin?

Einhver hlustandinn freistast að sjálfsögðu til að svara: „Spýta!“

En þá svarar sögumaðurinn: „Rekist hún upp í rassinn á þér, þegar þú ferð að skíta!“

Endalausar sögur

Stundum verða svona sögur næstum endalausar eins og sú sem höfundur þessa pistils man eftir frá barnsaldri:

Einu sinni voru tvær hænur. Önnur hét Fram en hin hét Aftur. Svo dó Fram og hver var þá eftir?

Áheyrandinn svarar að sjálfsögðu: „Aftur“ og sagan er endurtekin þangað til hann þreytist á að svara.


Sögur sem enda snögglega

Þekktasta sögugabbið er líklega sagan af kerlingu og karli sem áttu sér kálf, en hún endar mjög snögglega:

Einu sinni voru karl og kerling í koti sínu. Þau áttu sér kálf. Þá er sagan hálf. Hann hljóp út um allan völl og þá er sagan öll.

Stundum er kóngi og drottningu bætt í söguna: Þau áttu sér höll og þá er sagan öll! Og eins og heyra má getur þetta gabb þróast út í keðjuna af bræðrunum tólf sem ásamt foreldrum sínum toguðu í rófuna á kálfinum.

Hefði botnlanginn verið lengri ...

Dæmi eru um að gefin sé eins konar skýring á því hvers vegna sögurnar geti ekki orðið lengri, svo sem í sögunni af stráknum sem var svo lítill að hann náði ekki upp í nefið á sér.

Vonbrigði áheyrendanna verða ef til vill enn þá meiri þegar upphafið gefur til kynna að til sé að verða spennandi saga, jafnvel ástarsaga:

Það bjuggu roskin hjón á bæ og áttu eina dóttur gjafvaxta. Ekki voru önnur hjú þar en vetrarmaður ungur og efnilegur og hafði þann starfa að hirða fé bónda sem var allmargt. Sýndist fólki að með honum og bóndadóttur væri jafnræði en ekki fór sögum af samdrætti þeirra. Síðla dags á útmánuðum þegar veður var eins gott og það getur best verið, sannkölluð himinsins blessuð blíða, dettur bóndadóttur í hug að viðra nú af sér vetrardrungann og fara til fjárhúsanna. Þegar þangað kemur er vetrarmaðurinn að enda við að telja féð inn í húsin en af því að dindillinn á þeirri kindinni sem síðust fór inn var svo stuttur verður sagan ekki lengri.

Og ef tölvusnúra pistlahöfundar hefði verið lengri hefði þessi pistill orðið lengri ...

Birt þann 21. maí 2024
Síðast breytt 21. maí 2024