Skip to main content

Sturlunga saga

Sturlunga saga er sögusafn, til orðið um 1300. Þar segir frá valdastríði á Íslandi frá því um 1120 til um 1264 þegar íslenskir bændur gengu Noregskonungi á hönd. Sturlunga saga er varðveitt í ríflega 50 pappírshandritum sem öll eru runnin af tveimur skinnhandritum frá seinna helmingi 14. aldar. Hið eldra er kennt við Króksfjörð við norðanverðan Breiðafjörð og kallast Króksfjarðarbók (AM 122 a fol.). Hitt er kennt við Reykjarfjörð í Arnarfirði, kallast Reykjarfjarðarbók (AM 122 b fol.). Nú eru bæði skinnhandritin óheil, hið síðarnefnda er þó mun verr farið. Upphaf og endi sögunnar vantar á bæði handritin og mismörg blöð eru glötuð inn í milli. Skinnhandritin voru mun heilli á 17. öld þegar gerðar voru uppskriftir eftir þeim á pappír. Fyrstu pappírsuppskriftirnar voru gerðar jöfnum höndum eftir báðum skinnhandritunum; markmið skrifaranna var að ná saman sem mestu efni. Texti allra pappírshandritanna er því blanda úr textum beggja skinnhandritanna.

Sturlunga saga var fyrst gefin út í Kaupmannahöfn 1817–1820 og síðan hafa komið nokkrar útgáfur. Kristian Kålund gaf verkið út í Kaupmannahöfn á vísindalegan hátt 1906–1911 og lagði Króksfjarðarbókartextann til grundvallar. Árið 1946 kom Sturlunga út í Reykjavík tilsniðin að þörfum lesenda og hefur sú útgáfa notið almennrar hylli. Nú stendur fyrir dyrum útgáfa Sturlunga sögu á vegum Hins íslenska fornritafélags og verður hún með hefðbundnu sniði: texti með samræmdri stafsetningu, skýringar neðanmáls, ættaskrár, uppdrættir, nafnaskrá og inngangur. Í tengslum við útgáfuna fer fram nokkuð víðtæk könnun á handritum Sturlunga sögu. Jafnframt er ætlunin að gefa út ljósprent eða stafræna myndgerð þeirra 30 blaða og blaðstúfa sem varðveitt eru úr Reykjarfjarðarbók ásamt stafréttri uppskrift textans. Varðveitt eru 110 blöð úr Króksfjarðarbók og hafa þau verið gefin út ljósprentuð ásamt inngangi eftir Jakob Benediktsson (Sturlunga saga. Manuscript no. 122 A fol. in the Arnamagnæan Collection. Early Icelandic Manuscripts in Facsimile. I. Kbh. 1958).