Sögur úr Vesturheimi
Veturinn 1972-1973 fóru Hallfreður Örn Eiríksson og Olga María Franzdóttir um Nýja Ísland og byggðir Vestur-Íslendinga í Kanada og Bandaríkjunum til að safna sögum og kvæðum sem fólk hafði sér til skemmtunar og flutti munnlega. Þau fengu styrk úr sjóði Páls Guðmundssonar við Manitobaháskóla og nutu milligöngu Haralds Bessasonar, þáverandi prófessors við íslenskudeild skólans. Gísli Sigurðsson bjó sögurnar til útgáfu.
Um útgáfuna
Árnastofnun hefur gefið út bókina Sögur úr Vesturheimi með þjóðfræðaefni sem hjónin Hallfreður Örn Eiríksson og Olga María Franzdóttir hljóðrituðu meðal Vesturíslendinga í Norður Ameríku veturinn 1972-73. Söfnunarleiðangurinn var kostaður af Árnastofnun með styrk úr sjóði Páls Guðmundssonar við Manitóbaháskóla og naut milligöngu Haralds Bessasonar, þáverandi prófessors við íslenskudeild skólans. Í rækilegum inngangi Hallfreðar og söfnunardagbókum þeirra hjóna kemur fram hversu langt og erfitt þetta ferðalag var – rétt áður en reglulegar og gagnkvæmar hópferðir hófust milli Íslands og byggða Vesturíslendinga í Kanada og Bandaríkjunum. Gísli Sigurðsson hefur búið um 20 klst. af hinu hljóðritaða efni til útgáfu í orðréttum uppskriftum. Bókin kom út á afmælisdegi Hallfreðar sem hefði orðið áttræður hinn 28. desember 2012.
Hallfreður og Olga söfnuðu sögum og kvæðum sem afkomendur íslensku landnemanna í Vesturheimi vildu segja þeim á þeirri mállýsku sem þróaðist vestra og kölluð er vesturíslenska; sambland af kjarnyrtu íslensku sveitamáli frá lokum 19. aldar og enskum áhrifum. Lítið er um minningar frá Íslandi heldur er mest af því sem safnaðist sprottið úr mannlífinu vestra. Hér segir af fyrstu kynslóð landnemanna vestra, erfiðleikum frumbýlingsáranna og samskiptum við Indjána. Karlarnir tala mikið um veiðar í skógunum og á Winnipegvatni en konurnar segja meira frá draumum og dulrænum fyrirbærum. Íslenskir draugar veikluðust við vesturferðirnar, ýmist komust þeir ekki yfir hafið eða þeim leiddist og þeir sneru aftur heim. En magnaðar sögur eru sagðar af næturglímum Vesturíslendinga við drauga innfæddra í óbyggðum. Fjölmargar gamansögur eru í safninu, smáskrýtlur og lausavísur að ógleymdum þáttum af einkennilegum mönnum, stórlygurum, kraftakörlum og hversdagshetjum.
Sögurnar og kvæðin draga upp breiða og einstaka mynd af horfinni veröld munnlegrar sagnaskemmtunar Vesturíslendinga sem nutu ekki skólagöngu á móðurmáli sínu en náðu mikilli leikni í að skemmta hver öðrum með orðsins list. Hljóðritanir Hallfreðar og Olgu eru nú einstök heimild um mál og líf fólksins í nýju landi.
Gísli Sigurðsson sá um útgáfuna. Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum 2012. 556 bls. ISBN: 978–9979–654–22-3. Verð: 4.900
Hallfreður og Olga söfnuðu sögum og kvæðum sem afkomendur íslensku landnemanna í Vesturheimi vildu segja þeim á þeirri mállýsku sem þróaðist vestra og kölluð er vesturíslenska; sambland af kjarnyrtu íslensku sveitamáli frá lokum 19. aldar og enskum áhrifum. Lítið er um minningar frá Íslandi heldur er mest af því sem safnaðist sprottið úr mannlífinu vestra. Hér segir af fyrstu kynslóð landnemanna vestra, erfiðleikum frumbýlingsáranna og samskiptum við Indjána. Karlarnir tala mikið um veiðar í skógunum og á Winnipegvatni en konurnar segja meira frá draumum og dulrænum fyrirbærum. Íslenskir draugar veikluðust við vesturferðirnar, ýmist komust þeir ekki yfir hafið eða þeim leiddist og þeir sneru aftur heim. En magnaðar sögur eru sagðar af næturglímum Vesturíslendinga við drauga innfæddra í óbyggðum. Fjölmargar gamansögur eru í safninu, smáskrýtlur og lausavísur að ógleymdum þáttum af einkennilegum mönnum, stórlygurum, kraftakörlum og hversdagshetjum.
Sögurnar og kvæðin draga upp breiða og einstaka mynd af horfinni veröld munnlegrar sagnaskemmtunar Vesturíslendinga sem nutu ekki skólagöngu á móðurmáli sínu en náðu mikilli leikni í að skemmta hver öðrum með orðsins list. Hljóðritanir Hallfreðar og Olgu eru nú einstök heimild um mál og líf fólksins í nýju landi.
Gísli Sigurðsson sá um útgáfuna. Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum 2012. 556 bls. ISBN: 978–9979–654–22-3. Verð: 4.900