Markmiðið er að gefa út á geisladiski ljósmyndir af handritinu, bæði litmyndir í mikilli upplausn og svarthvítar myndir teknar í útfjólubláu ljósi. Á sama diski verður xml-merktur texti handritsins og verður hægt að kalla hann fram táknréttan með böndum og sértáknum, staftáknréttan, þar sem leyst er upp úr böndum en þeir stafir skáletraðir, og með samræmdri stafsetningu. Staftáknrétti textinn og sá samræmdi verða ennfremur prentaðir á bók þar sem einnig verða athugasemdir um skrift og stafsetningu, nákvæm kódíkólógísk lýsing handritsins og greinargerð um sögu þess og rannsóknasögu.
Þá er unnið að lemmuðum orðstöðulykli yfir allan texta handritsins, en það er orðabók þar sem öllum orðum í textanum hefur verið skipað undir flettiorð ásamt nánasta textaumhverfi (þ.e. næstu orðum á undan og eftir svo að unnt sé að sjá sérhvert orð í sínu samhengi). Orðstöðulykillinn verður birtur á vef-setri.
Verkefnisstjóri er Vésteinn Ólason en Sigurgeir Steingrímsson sér um fjárreiður. Guðvarður Már Gunnlaugsson hefur umsjón með frágangi textans og rannsóknum á skrift. Haraldur Bernharðsson og Jóhannes Bjarni Sigtryggsson annast gerð orðstöðulykilsins. Karl G. Johansson og Florian Grammel merktu texta Konungsbókar í xml-textamerkingarmálinu og aðrir erlendir samstarfsaðilar eru Odd Einar Haugen prófessor við háskólann í Bergen og Medieval Nordic Text Archive (Menota).
(Verkefnið er styrkt af RANNÍS)